7. sep. 2016

Þetta er venjulegur dagur
Mig dreymir um að deyja því ég get ekki
          lifað við þetta
          Get ekki lifað hér í

          Draumum um að deyja
Að tortímast í kraftmikilli ókyrrð
Flugfreyjurnar á spani með Kenzo krítarsmink

Eigðu gott flight
          This is your captain dying
          Fasten your seatbelts
          Hættið fyrir fullt og allt að reykja

                              This is it

Bodil Malmsten – úr bókinni Landet utan lov

Í gær vall út úr mér setningin að ég „gengi jafnvel svo langt að segja“ að það að láta öðrum líða illa væri lýðræðislegur réttur hvers og eins. Samhengið var samræða um skilgreininguna á nauðgun. Því hafði verið haldið fram að nauðganir væru margs konar (sem þær eru) og misalvarlegar – að í raun væri nauðgun bara að láta einhverjum líða illa (í kynlífi, væntanlega).

Ég hef verið að hugsa um þessa setningu frá því í gær. Samhengið gekk út á að það væri ekki hægt að refsa fólki fyrir það einfaldlega að láta öðrum líða illa – og því væri rétt að takmarka skilgreiningu nauðgunar við það sem er refsivert. Því öllum hefur liðið illa. Allir hafa látið öðrum líða illa. Sá eða sú sem hefur ekki liðið illa í kynlífi, fyrir það og/eða eftir, hefur einfaldlega ekki lifað. Manni líður illa í lífinu, maður misstígur sig, maður gerir hluti sem maður ætlaði ekki og lendir í aðstæðum sem maður ræður ekki við – maður bregst rangt við, of mikið, of lítið, þóknast öðrum um of, sýnir öðrum of mikið sinnuleysi o.s.frv. o.s.frv. Auðvitað er þetta kvarði – og einhvers staðar verður línan að vera – en við getum ekki bara stillt hana á núll.

Altso. Það er dick að vera dick en það er ekki glæpur – ef það væri glæpur væru fangelsin okkar fyllri en fangelsi Bandaríkjamanna og Kínverja samanlagt. Sjálfsagt væru þá afar fáir sem ekki þyrftu að sitja inni annað veifið. Og þá er ég ekki einu sinni að takmarka mig við þá sem láta öðrum líða illa viljandi, því það gerum við líka, hvort sem við viljum horfast í augu við það eða ekki. Við getum verið óttalega ómerkileg – jafnvel þau fegurstu og ljúfustu okkar. Lífið er að jafnaði langt og tilfinningalífið að jafnaði óáreiðanlegt.

Algengasta ofbeldið sem við beitum aðra er augljóslega hið andlega – þegar við segjum eitthvað (í hita leiksins) sem er beinlínis ætlað að særa aðra manneskju. Og hver hefur ekki gert það? Það er eitthvað erfitt við að hugsa um þess lags ofbeldi – og já það er ofbeldi – sem rétt nokkurs manns. Að einhver hafi lýðræðislegan rétt á að særa mann. En ég held ég standi samt við það.

Við erum vön að hugsa um ofbeldi sem glæpi og jafnan höfum við látið smámunina einfaldlega vera. Kýld(ur) eða klipin(n) á balli? Ef það er bara einu sinni og skilur ekki eftir sig frekari afleiðingar þá hristum við það af okkur (rífandi kjaft og hótandi hefndum). Þetta held ég að flestir kannist við. Það er survival-mekanismi fyrir okkur og samfélagið – að vilja senda allt fyrir dómstóla er einhvers konar frekjusyndróm. Þið vitið, samfélagið hefur einfaldlega þarfari hnöppum að hneppa – og það er mikilvægur eiginleiki ætli maður að komast sæmilega ótrámatíseraður í gegnum lífið að geta roll with the punches. Að svo miklu leyti hefur Óttar Guðmundsson sennilega á réttu að standa – þótt lausnin sé augljóslega ekki sú að væla opinberlega í þeim sem þurfa að létta einhverju af brjósti sér (hvað sem annars líður narsissisma játningasamfélagsins – það er kúltúrelt makróvandamál og hefur ekki með einstaklinga að gera).

En hvað þarf til að maður geti jafnað sig á ofbeldi? Ég veit það ekki – og hef þó sjálfur jafnað mig bærilega á einu og öðru, einsog við flest. Eitthvað af því er sjálfsagt félagslega staða, jafnvel líkamlegt atgervi, sálræn afstaða, psykókemistría og fjöldi traustra ástvina. En líka hreinlega bæling – eða í það minnsta að maður fylgi gömlu þumalputtareglunni um að kroppa ekki í sárið að óþörfu, nema maður vilji gera illt verra. Og maður sinni sjálfum sér – lífið er stundum viðstöðulaus barátta við myrkrið.

En sumsé, er það lýðræðislegur réttur fólks að beita aðra vægu ofbeldi? Ég held – og það var líka niðurstaða samræðunnar í gær – að það sé einfaldlega stórt grátt svæði þar sem þeirri spurningu þurfi að svara í hverju tilviki fyrir sig. Og á því gráa svæði eru augljóslega ofbeldisverk – einsog að kýla einhvern á balli – sem eru ekki lýðræðislegur réttur neins, en að sama skapi ekki endilega lögreglumál. Hins vegar er það ekki lýðræðislegur réttur neins að allir séu alltaf næs við hann eða sýni honum fullkomna tillitsemi. Kurteisi er kannski ókeypis – en það þýðir ekki að maður geti krafist hennar. Það er lýðræðislegur réttur manns til dæmis að vera afundinn og leiðinlegur, að vera óstöðvandi gosbrunnur skítakommenta, að rífast og djöflast og andskotast.

Annars er ég auðvitað á mjög hálum ís hérna. Ég geri mér grein fyrir því.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli