6. sep. 2016

lives own their facts
                                              of spent lives
                                              murder                                                                                              market             
                                       misfortunes
                                                                              &
                                              policy

úr Zong! eftir M. NourbeSe Philip

Zong! er önnur bók sem er byggð á fundnum textum. Öll bókin er samin upp úr réttarskjölum vegna frægs tryggingarsvindls – þar sem þrælaeigandi sökkti skipi sínu fullu af þrælum til þess að innheimta trygginguna. Þessi bók kom út fyrir nokkrum árum og er alveg feykimögnuð.

Á helginni kenndi ég börnunum mínum að boozta. Nadja kenndi þeim að dömpsterdæva. Og við áttum langa samræðu um það hvort væri nokkuð að því að segja helvítis. Og ef svo væri, hvað það væri þá, sem væri að því. Það fékkst enginn botn í þetta. Sennilega er bara alltílagi að segja helvítis. Að minnsta kosti ef það er vel meint.

Ég ræddi líka við vin minn (fullorðinn) um sjálfsritskoðunina þegar maður nennir ekki að rífast við vandláta liðið og aumingjaskapinn sem er í því fólginn. Það nennir enginn að verða vonda fólkið, enda ömurlegt markmið – en kannski er ákveðið gagn af vonda fólkinu. Að rammi hins ásættanlega víkki frekar en að hann þrengist – að við höfum meira umburðarlyndi fyrir pönkinu. Að við verðum betri í að hrista af okkur ruglið í rugludöllum (frekar en að stinga að því gjallarhorninu og setja boðskapinn á allar forsíður, sprengmontin yfir eigin réttlætiskennd).

Eitt af vandamálum samtímans er auðvitað gegnsæið – að við séum viðstöðulaust ÖLL í sama partíinu. Aðgát skal höfð í nærveru sálar, en þegar allar sálir eru einungis einum smelli hvor frá annarri, er sú nærvera þrúgandi. Því maður getur ekki sýnt aðgát öllum stundum. Annað veifið verður maður að fá að leysa beltið, sleppa út á sér vömbinni og ropa. Þótt það sé dónalegt. Annars köfnum við bara úr einhvers konar bælingu og/eða leiðindum og/eða merkikertisskap og/eða sjálfbirgingshætti.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli