9. maí 2016

9. maí

Nú er allt í mínus. Í fyrradag hrundu bæði uppþvottavélin og þvottavélin með fimm mínútna millibili. Ég pantaði nýtt fyrir peninga sem ég á ekki. Henti þvottavélinni út í innkeyrslu í dag en næ ekki uppþvottavélinni út – slangan er föst og mig vantar aðra töng. Þannig að uppþvottavélin er úti á miðju gólfi. Það er þess utan allt rennandi blautt á gólfinu undir eldhúsinnréttingunni minni eftir uppvask kvöldsins.

Ég er enn með lyfjamæði, enn að éta sýklalyf. Vonandi er þetta bara það. Ef ekki þá kemur það væntanlega í ljós síðar í vikunni því kúrinn klárast á morgun. Ég er líka skrítinn í hálsinum – suma daga tengi ég það við skrifstofuna í bílskúrinni og loftgæðin þar inni. Ég veit reyndar ekki hvað ég get gert fleira án þess að demba mér í rándýrar framkvæmdir – hringja á verktaka. Sem kemur ekki til greina vegna peningaleysis. En það eru lofthreinsunartæki þarna, rakatæki, blóm, ég reyni að lofta út. Og ekki hef ég eytt neinum óskapa tíma þar heldur síðustu daga. Kannski er þetta allt sama heilsuleysið.

Leit ekkert í Bolaño í gær og ekkert í dag. Er frekar þungur. Starði svolítið á bókina mína í dag og gerði á endanum eina stóra breytingu sem hafði í för með sér allsherjar yfirferð á þeim texta sem er kominn – kannski tek ég hana til baka. Það væri dæmigert, enda var þetta tímafrekt, þótt þetta séu engin ósköp af texta enn sem komið er. Skrítin bók og ég enn að átta mig á því hvernig hún er í laginu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli