17. maí 2016

17. maí

Steinar Bragi segir að ég verði að fara að blogga. Það sé ekki hægt að hafa efstu frétt hérna þá að ég sé allur í hönk. Dögum saman. Ekki þar fyrir að ég er handónýtur. Eða þannig. Ennþá þreklaus og á erfitt með að koma mér í gang. Reyni að hreyfa mig – hjóla eða hlaupa – daglega en líður einsog öldruðum sjúklingi. Hugsanlega er það líka vegna þess að ég ét bara rusl. Þarf að gera eitthvað í því.

Ég er enn að lesa Bolaño. Er ekki einu sinni hálfnaður. Fyrsti hlutinn var allur í einni fyrstu persónu, frá ungu skáldi sem fylgist með tveimur aðeins eldri og svalari skáldum og genginu í kringum þá. Arturo Belano (sem á víst að vera Bolaño sjálfur) og Ulises Lima. Annar hluti – ég er í honum miðjum – flakkar svo viðstöðulaust á milli ólíkra persóna sem flestar hafa einhvers konar sjónarhorn á þá Arturo og Ulises eða skáldahreyfinguna þeirra, iðraraunsæisskáldin (e. visceral realists). Eiginlega er bókin samt hingað til 95% útúrdúrar, að minnsta kosti ef maður lítur á kjarna hennar sem skáldin og hreyfinguna. Mér finnst sennilegt að það séu komnar 20-30 nýjar fyrstu persónur það sem af er öðrum hluta. En auðvitað er bókin fyrst og fremst einhvers konar heimslýsing, einhvers konar sjónarhorn. Sem slík er ekki auðvelt að fara að draga hana saman í einhvern þægilegan þráð – en hún er gefandi.

Annars er ég bara að reyna að skrifa, pakka saman og taka til (Sjökvist er á útleigu á AIRBNB í sumar; við verðum í Svíþjóð og Finnlandi).

Ég var í matarspjalli í Stundinni og með uppskrift að víetnamskri pho súpu (sem er sturlað góð). Hérna.

Á fimmtudaginn fer ég til Frakklands í bókmenntastúss. Fyrst á Les Caracteres hátíðina í Auxerre. Síðan á Les Assises Internationales du Roman. Í Lyon. Á vegum Le Monde og Villa Gillet. Ég sit á panel til að ræða illsku og er búinn að skrifa stutta ritgerð. Þaðan fer ég til Berlínar á minningarathöfn um vinkonu mína Susan Binderman, sem lést á dögunum, langt fyrir aldur fram.

Og svo Svíþjóð.

Ég verð síðan að reyna að vera duglegur að vinna á hverjum degi svo þetta handrit dafni vel. (Hér myndi ég setja einhverja vel valda meðgöngulíkingu, eitthvað um að fósturlát væru algengust á fyrstu vikunum, ef það væri ekki líklegt til þess að gera fólk sem er konur eða empatíserar með slíkum alveg spangólandi vitlaust af kyngremju).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli