18. maí 2016

18. maí

Ég er alltaf að setja bakvið eyrað að ég verði að fara að blogga um eitt eða annað og svo týni ég því, einhvers staðar þarna bakvið eyrað. Það sem slær mig oftast er kannski að fara að nöldra yfir landsbyggðarfyrirlitningu hippstera í Reykjavík og því hversu glórulausir þeir virðast um hana. Og hversu lítið allt þetta fólk sem annars les Said, sósíalísk/feminísk rit og alls lags valdgreiningar virðist hugsa um skipulag og vald út frá landinu öllu (skipulagsmál á Íslandi virðast aðallega snúast um þau svæði sem eru miðborg Reykjavíkur og þau svæði sem gætu hugsanlega orðið miðborg Reykjavíkur).

Ég hangi of mikið á Twitter. Það er alveg augljóst. Og á Twitter er það Gísli Marteinn sem leggur línurnar.

Það nýjasta snerist um gagnrýni – eða meira svona hnus – á þá hugmynd að nota skattkerfið til að auðvelda fólki búsetu úti á landi, líkt og er gert víða (og þykir þjóðhagslega hagkvæmt). Hugmyndin er sem sagt sú að fólk borgi lægri skatta utan höfuðborgarinnar. Þetta má réttlæta á ýmsa vegu – lykilrökin eru auðvitað þau að það er VAL að byggja upp alla þjónustu á höfuðborgarsvæðinu frekar en annars staðar eða bjóða upp á hana í öllum dreifbýliskjörnum – það er VAL hvar við skilgreinum miðjuna – og þessu vali fylgir aukinn kostnaður fyrir þá sem ekki staðsetja sig miðsvæðis. Vegna þess búa fyrirtæki, t.d. á Ísafirði, við miklu hærri útflutnings- og innflutningskostnað en sams konar fyrirtæki (sem fyrirtækið á Ísafirði er í samkeppni við) í Reykjavík. Lógíska niðurstaðan er alltaf sú sama: pakka saman og byrja upp á nýtt í Reykjavík eða verða undir. Vegna þess að alþjóðaflugvöllurinn er óralangt héðan. Og þar fara vinnurnar, fer nýsköpunin, grundvöllurinn að ræktarlegu og lífvænlegu samfélagi. Aðstöðumunurinn gerir það að verkum að við spekilekum.

Þennan aðstöðumun er hægt að jafna. Ef maður er jafnaðarmaður, þá vill maður það. Ef maður er hins vegar hægri maður – einsog Gísli – þá vill maður það auðvitað ekki. Maður gæti svo sem viljað að fólk hafi að einhverju leyti jöfn tækifæri (en mis-jöfn þó – það á ekki að nota peninga ríka fólksins til þess að niðurgreiða menntun fátæka fólksins, frekar en það má jafna annan aðstöðumun, því það er svo ósanngjarnt), en um jöfnuðinn sjálfan gæti manni ekki staðið meira á sama. Það er líka að mörgu leyti fínt (les: „eðlileg/óumflýjanleg þróun“) að landsbyggðin leggist í eyði því þá getur maður keypt sér hús fyrir slikk og notað það fyrir sumarbústað og AIRBNB. Því það er svo kósí að koma út á land. Komast í rólegheitin. Rétt einsog einhver verður að vera menntlaus því hver myndi annars vinna í öllum niðursuðuverksmiðjunum og sauma stuttermabolina?

Einhvern veginn er líka búið að telja mörgu fólki trú um að landsbyggðin víli og díli með allt vald í þessu landi – líklega vegna þess að búvörumafían og LÍÚ eru einhvern veginn hluti af ímynd landsbyggðarinnar, þú veist, við erum bændur og sjómenn (og hér eru vissulega bændur og sjómenn, en þeir díla ekki með mikið vald).

Ég er vel að merkja sammála því að búvörusamningurinn sé satanískur og það þurfi að gæta þess að orkufrek stóriðja eignist ekki smábæina. En við erum hvorki búvörusamningurinn né LÍÚ – þeir toppar eru sennilega í Garðabænum einsog aðrir toppar. Og ef misjafnt atkvæðisvægi (sem mér finnst ægilegt, einsog það virkar í öllu falli) hefði svona mikið að segja, þá færi Vestfirðingum væntanlega ekki fækkandi.

En vegna þess að þetta er dagbók en ekki kjallaragrein, verð ég að taka fram að því verður varla lýst með orðum hvað mér finnst orðið leiðinlegt að þrátta um stjórnmál. Það eru mér eilíf vonbrigði að þess gerist einu sinni þörf. Ég myndi ekki lesa þennan texta þótt ég fengi borgað fyrir það. Heldur myndi ég skalla vegginn þar til honum færi að blæða.

---

Í öðrum fréttum er ég enn móður og þreklaus en þó aðeins skárri en í fyrradag. Ég sef ekki nóg og ég kem ekki nógu miklu í verk. Á morgun fer ég suður með seinni vélinni og svo til Frakklands um nóttina. Ég les varla neitt en ræð mikið af krossgátum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli