5. maí 2016

5. maí

Svona beygir maður fjölskyldumeðlimi mína:

Nadja
Nödju
Nödju
Nödju 
Aram
Aram
Aram
Arams 
Aino
Aino
Aino
Ainoar

Og ekki orð um það meir. Mér finnst vel að merkja eðlilegt að Nadía – með í-i eða með i-i – taki ekki hljóðvarpi í fyrsta atkvæði og sé Nadíu í aukaföllum. En Nadja með joði tekur hljóðvarpi. Máli mínu til stuðnings bendi ég á Dostójevskíþýðingar Ingibjargar Haraldsdóttur, þar sem Nödjur eru ö-aðar hægri vinstri.

Mér finnst þágufallið Arami líka vera alveg vonlaust. Og Aino sem eignarfall, einsog ég hef heyrt fólk reyna, er líka vonlaust.

Hvað er annars að frétta? Ég er framan á Séð og heyrt. Ég vissi að ég yrði í blaðinu en brá talsvert við að vera á forsíðu. Úr fókus og hattlaus. Ekki að ég hafi neitt á móti Séð og heyrt. Slúðurmiðlar sem koma til dyranna einsog þeir eru klæddir eru góðra gjalda verðir (ég hef hins vegar ímugust á menningarkálfum sem morfast út í lífsstílsblöð sem morfast út í slúðurblöð). Og það er víst lítil berstrípun á einkalífi mínu að játa á mig botnlangavesen.

Ég var líka í Stundinni. Með uppskrift. Og svo vildi til að blaðið var borið út einmitt í þá mund sem við sátum stynjandi yfir matnum (sem var mjög góður). Þetta er s.s. víetnamskt pho. Og það er á baksíðunni.

Ég held það hafi líka eitthvað verið í Fréttatímanum. Um botnlangakastið mitt, einsog í S&H. Ég er bærilegur af því, annars, enn með botnlangann og enn að bryðja sýklalyf og fékk smá verk í dag en hef annars verið verkjalaus.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli