4. maí 2016

4. maí: Lestrardagbók

Ég er búinn að lesa tvær viðtalsbækur – eina við James Baldwin (sem skrifaði Giovanni's Room og ég kláraði um daginn) og aðra við David Foster Wallace, sem ég hef mjög lítið nennt að lesa. Þeir eru báðir með einhvers konar mikilmennskubrjálæði. Baldwin er gjarn á að tala einfaldlega um sig sem snilling eða í það minnsta goðsögn („Þegar maður er goðsögn einsog ég eða Miles Davis, þá ...“) og DFW svarar oft spurningum sem honum þykja erfiðar með því að segja að það sé nú ekki pláss til að ræða það í stuttu máli – fyrst þurfi að skilgreina öll hugtökin („hvað áttu við með „bók“? og hvað er þetta „skrifa“ fyrir þér?“) og svo kannski leggjast yfir þetta í nokkra mánuði. Þetta myndu margar vinkonur mínar kalla karlskt og er það sjálfsagt – en það fer ekki beinlínis í taugarnar á mér, það er meira að mér finnist það í senn kjánalegt og aðdáunarvert.

Og þarna er líka margt fleira ágætt. Og kannski er einmitt bráðnauðsynlegt (ég skrifaði nærri því brjálnauðsynlegt og hugsanlega var það líka réttara) að vera með svolítið stórt egó ef maður ætlar að skrifa bækur. Eða í einhvers konar mótsögn með það – einhvers konar kontrast við sjálfan sig. Einsog fólk með mikilmennskubrjálæði er yfirleitt reyndar; líklega eru ekki til smærri sálir.

Baldwin er brjálæðislega góður í að stara sjálfan sig og samfélagið niður. Einsog hann sé ekki hræddur við neitt. Í einu viðtalinu kemur hann inn á þetta sem ég ræddi í tengslum við Giovanni's Room, að hann hefði verið gagnrýndur fyrir að skrifa um hvítt fólk, eða réttara sagt að hann skammaðist sín fyrir að vera svartur – og tekur einfaldlega undir með því, það sé rétt.

DFW sagði í sinni bók að ekkert væri nær eðli hans en löngunin til að eiga kökuna og éta hana líka, og það er eitthvað sem sér stað í Baldwin þegar hann ræðir stöðu sína gagnvart samfélagi svartra. Á aðra höndina undirstrikar hann stöðu sína sem svarts rithöfundar – að ónefndu mikilvægi rithöfundarins sem vitnis (frekar en talsmanns) – og á hina hafnar hann því algerlega að hann sé svartur rithöfundur – og leggur áherslu á að hann sé að skrifa um úniversal hluti (og leggur kynhneigð og litarhaft oft að jöfnu sem hluti sem þurfi að leysa upp, enda obsessjón meginstraums samfélagsins á kynhneigð og litarhaft ekkert nema vísir um óþroska viðhorf okkar tíma, og alger bóla).

DFW er ekki jafn áhugaverður. Hann er of mikið að intelektúalísera án þess að takast á við neitt. Mér finnst alltaf jafn merkilegt reyndar að þeir Franzen hafi verið svona góðir vinir, einsog mér var einhvern tíma sagt, því ég get varla hugsað mér ólíkari höfunda – innan þess mengis hvítra, efri-millistéttar, new york sem þeir tilheyra. DFW vill vera erfiður og skrítinn og les þess utan mikið þannig efni – kennir óvenjulegar bækur og er stærðfræðinörd. Og þolir ekki popp eða meginstraum (á maður kannski að hætta að tala um meginstraum og fara að tala um meðalmennsku? er það of dómhart?) Franzen er það sem hann kallar sjálfur „contract“ höfundur – það er að segja, hann gerir samning við lesandann um að halda sig innan ákveðinna marka og ráfar ekkert. Hann skrifar Dickensískar skáldsögur um þyngstu málefni samtímans – svolítið einsog Houellebecq, nema ekki jafn siðferðislega krefjandi.

Að síðustu las ég Strákinn í röndóttu náttfötunum eftir írska höfundinn John Boyne [Varúð: spoilerar]. Mamma gaukaði henni að mér og fannst ómögulegt að ég hefði ekki lesið hana. Þetta er hálfgerð unglingabók um níu ára strák, Bruno, sem á föður sem er fangabúðameistari í Auschwitz. Bruno fer í leiðangra og í einum slíkum kynnist hann Shmuel sem er hinumegin víggirðingarinnar. Shmuel og Bruno eru jafn gamlir (báðir fæddir 15. apríl 1934) og með þeim skapast vinátta. Bókin er stutt og að uppbyggingu er hún smásaga frekar en skáldsaga – það eru engir útúrdúrar og ef eitthvað er að marka höfundinn skrifaði hann allt fyrsta handritið á 60 klukkustundum.

Eitt og annað smálegt fór í taugarnar á mér – aðallega að hún er frekar óraunsæ. Bæði voru fáir drengir á þessum aldri í Auschwitz (óvinnufær börn voru flest drepin samstundis – í bókinni eru hundruð barna), á einum stað er óvart látið einsog stríðið hafi ekki verið hafið árið 1940 og svo eru systkinin Bruno og Gréta full vitlaus til að vera níu og tólf ára. Þau virðast ekki skilja almennilega muninn á vikum og mánuðum og hann getur ekki borið fram Auschwitz (Out-With á ensku, Ásvipt á íslensku) eða Führer (Fury/Firringin). Führer er rosalega venjulegt þýskt orð – þýðir t.d. líka bara leiðarvísir (og enskumælandi manni þætti áreiðanlega impónerandi að níu ára Íslendingur geti borið fram „leiðarvísir“ en það er það ekki). Og þetta veldur því að maður fer að vantreysta öðru.

En auðvitað er erfitt að ætla að lesa bók af þessu tagi svona. Þetta eru ekki raunsæjar endurminningar úr fangabúðum nasista heldur einhvers konar dæmisaga og (meló)drama. Bruno stendur fyrir hinn bláeyga þýska almenning sem skilur ekki hvað á sér stað og Shmuel fyrir hinn saklausa pólska gyðing sem getur ekkert hafa gert af sér. Á lykilaugnabliki í sögunni er Shmuel fluttur í eldhúsið hjá Bruno þar sem hann á að þrífa litla bolla, enda sé hann með svo smáar hendur. Bruno rekst þar á hann og gefur honum að borða. Þegar einn nasistaforinginn spyr hvort Shmuel hafi verið að éta bendir Shmuel á Bruno og segir að Bruno sé vinur hans og hann hafi gefið honum kjúkling, hann hafi ekki stolið. Þegar gengið er á Bruno með þetta hafnar hann því að þeir séu vinir, segist aldrei hafa séð hann áður. Þetta verður honum til talsverðrar skammar, svo mikillar raunar að hann lætur iðulega einsog það hafi aldrei gerst – þeir hafi aldrei sést öðruvísi en með girðinguna á milli sín.

Þetta er auðvitað biblískt. Pétur hafnar gyðingnum Jesús einsog Bruno hafnar gyðingnum Shmuel. Og sjálfsagt hafa margir Þjóðverjar einmitt lent í svipuðum sporum, haft tækifæri til að grípa inn í en látið það vera vegna þess að það gæti kostað – vegna þess að þeir þekktu sjálfir brútalítet ríkisins, þótt það væri meira af afspurn.

Bókin endar á því að Bruno ákveður að heimsækja Shmuel í fangabúðirnar – fara undir grindverkið og klæðast náttfötum og nátthúfu einsog hann. Þennan dag eru þeir svo kallaðir í gasklefana, þar sem þeir eru drepnir óforvarendis. Það má lesa alls kyns symbólisma í það. T.d. hreinlega að helförin hafi líka í einhverjum skilningi drepið þýsku þjóðina – að það standi enginn í svona viðbjóði, ekki einu sinni á hliðarlínunum, án þess að það kosti hann sjálfið. Að það lifi það enginn af, í raun og veru, að drepa.

Einhverjir gagnrýnendur bókarinnar hafa lesið út úr þessu vilja um einhvers konar syndaaflausn fyrir Þjóðverja – sem er hæpið í írskri bók, finnst mér. Ég held að Boyne sé meira að segja sögu – þetta er klassískur tragedíuendir, skrifar sig næstum sjálfur þótt maður horfi á hann einsog bílslys. En svona gæti Þjóðverji aldrei skrifað – enda er þetta, einsog einhver benti á, fyrst og fremst tragedía um nasistafjölskyldu. Shmuel og fjölskylda hans eru aukapersónur og við sjáum aldrei almennilega inn í líf þeirra – kannski eigum við líka auðveldara með að ímynda okkur þá sögu, hafandi séð hana annars staðar, það er brútalla að fara inn á heimili nasistanna.

Í einu viðtalanna við James Baldwin kvartar hann – og viðmælandi hans – undan því að hvítir höfundar séu gjarnir á að skrifa þolendasögur svartra en hann sé enn að bíða eftir því að einhver hvítur maður skrifi sögu rasismans frá sjónarhóli Ku Klux Klan. Þetta er auðvitað þannig saga – a.m.k. í einhverjum skilningi.

Kannski er skrítið að segja það en bókin hefði hugsanlega mátt við því að vera ennþá simplari en hún er, ennþá strípaðri, færri lýsingar og kannski pínulítið kaldari viðkomu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli