6. maí 2016

6. maí

Sumir eru ánægðir með að fá per­sónustýrðar auglýsingar og að einhverju leyti getum við öll verið ánægð með þetta, en spurningin er þessi siðferðislega: Á mjólkin að kosta mismunandi eftir því hvort einhver hafi fengið sér 15 ára háskólanám eða ekki haft getu til þess? Er það siðferðislega rétt að við borgum ekki sömu upphæð fyrir sömu vöru?
Héðan.

Það vantar nýja teiknimyndasögu í staðinn fyrir Ást er ... Eitthvað í líkingu við Sturlun er ... þegar eitt af stærstu vandamálum samtímans er smættað niður í að læknar þurfi kannski að borga meira fyrir mjólkurlítrann en einstæðar, atvinnulausar öryrkjamæður. Því það væri ósanngjarnt. 

Smættað niður er kannski ósanngjarnt orðalag. Hún tekur dæmi. Og auðvitað eru það einhvers konar mannréttindi að fólki sé ekki mismunað (og ætti að eiga við um laun líka). En það hvaða dæmi koma upp í hugann á okkur segir eitthvað um það hvernig við hugsum um vandamálin. Því auðvitað væri tekjutenging innkaupsverðs einhvers konar stríð gegn stéttarsamfélaginu. Korporatískt stríð, en samt stríð.

Í viðtalinu kemur líka fram að fólk sé farið að teipa fyrir myndavélarnar á símunum og tölvunum sínum. Ég gaf einmitt út skáldsögu um það í fyrra. Á dögunum las ég síðan um leitarvél sem getur fundið nettengda hluti út frá tegundum – Shodan, heitir hún – og þá getur maður t.d. fundið öll nettengd ungbarnatæki, myndavélar eða talstöðvar sem fylgjast með sofandi ungabörnum úti í vakni, í einni borg. Og rúntað um og hirt ... tja hvort heldur sem er, myndavélarnar eða börnin. Þetta er allt eftir bókinni.

Ég hef heyrt þetta áður um að skrefamælarnir safni „öðrum heilsutengdum upplýsingum“ en því hvernig við göngum en það hefur aldrei verið útskýrt fyrir mér hvaða upplýsingar þetta séu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli