29. apr. 2016

29. apríl: Andri Snær, byggðastefna, Sigurður Einarss, Óttar & Rótin, botnlangabólgan og hver var að dingla?

Ég er að reyna að skrifa bók. Búinn með fimm síður og veit ekki hvað á að gerast næst. Það var einhver að dingla. En hver? Hver var að dingla?

Ég er enn í sjúkrarúminu. Og hvílist, sem er gott. Fæ lyf, sem er gott. Og heimsóknir, sem er gott.

Eitt og annað velkist um í huga mér. Líklega er Sigurður Einarsson eini útrásarvíkingurinn sem ég skil. Sem mér finnst vera mannlegur. Ef ég hefði verið útrásarvíkingur væri ég líka alltaf að hringja fullur í sjónvarpið og hóta því að berja fólk sem léti mig ekki í friði tæpum áratug eftir hrun. Ég hefði ekkert þolinmæði í annað. Stóísk ró er fyrir vélmenni. Hegðun hans kemst næst því að endurreisa trú mína á mannkynið.

Ruglið í kringum Óttar Guðmundsson er að verða svolítið PC-Gone-Mad. Það er undarleg krafa að skoðanir fagmanns í geðheilsu á geðheilsumálefnum þurfi að vera í samræmi við meginstraum millistéttarháskólasamfélagsins – alveg sama hvaða álit maður hefur á þeim skoðunum, hvort þær séu vel rökstuddar eða annað. Það er algert rugl – einsog Rótin gerir – að krefjast þess að Læknafélagið þaggi niður í manninum (og það er vel að merkja fáránlegur orðhengilsháttur að segja að það sé ekki það sem Rótin er að gera, því það sé ekki orðað þannig).

Og þá að vinsælli skoðunum: Ég ætla að kjósa Andra Snæ. Ég held að hann sé talsvert meiri kapítalisti en ég – og ég er með dálítið óþol fyrir startöpp-blæti samtímans, sem Andri representerar svolítið – en ég veit líka að Andri er sólítt, frjálslyndur og ærlegur. Mér finnst aðrir valkostir vera ýmist of borgaralegir eða flipp – og þótt ég kunni vel að meta flipp þá kann ég vel að meta það sem flipp, fyrir skemmtanagildið, fyrir rótið og brjálæðið, ljóðrænuna. Svona einsog ég kann að meta Túrkmenbasí (það er reyndar fleira sem ég kann ekki að meta við Túrkmenbasí en látum það liggja á milli hluta í bili).

En sem sagt. Mér finnst merkilegt að Andri njóti jafn lítils fylgis á landsbyggðinni og raun ber vitni enda veit ég ekki til þess að hann hafi gert landsbyggðinni neitt nema vara við einhverri botnlausri þvælu austur á fjörðum. Þar sem hann hafði líka rétt fyrir sér – ekki bara á forsendum fegurðar og náttúruverndar heldur líka byggðaþróunar, efnahags og svo framvegis. Töff lökk fyrir áljakkalakkana en þannig var það nú bara samt.

Ég held hins vegar að það sé orðinn mikilvægur hluti af sjálfsmynd landsbyggðar annars vegar og höfuðborgarsvæðis hins vegar að skilgreina sig í ólíkar blokkir. Súgfirðingar geta ekki kosið einsog Vesturbæingar og Vesturbæingar geta ekki kosið einsog Súgfirðingar; því við vitum öll að Súgfirðingar / nVesturbæingar eru fífl sem hafa enga reynslu af raunveruleikanum / hafa aldrei lesið bók. Hópar skilgreina sig ekki bara út frá því hverjir þeir eru heldur ekki síst hverjir „hinir“ eru – hverjir það eru sem eiga ekkert erindi í hópinn.

Eitt af grundvallarhugtökum allrar greiningar er lífsbaráttan. Hverjir þurfa að hafa fyrir lífinu og hverjir ekki, hverjir eru að berjast í bökkum og hverjir fitna. Þetta allt saman. Við þekkjum þetta, við erum öll (sem lesa þetta blogg, svona 97-98% á að giska) menntaðir vinstrimenn og þetta heitir að valdgreina á marxísku. Maktanalysen, segja Svíarnir, er hjärtat í allri greiningu. Ef við berum það módel upp að landsbyggð og höfuðborgarsvæði er alveg ljóst að það er landsbyggðin sem á í vök að verjast – mörg svæði eru beinlínis við það að fara í eyði – á meðan vandamál höfuðborgarsvæðisins eru fyrst og fremst vaxtarverkir vegna blómlegrar tíðar. Það er ekki síst af þessum sökum sem t.d. Vestfirðingar fyrtast við þegar þeim er sagt að „flugvöllurinn fari, það sé bara tímaspursmál“ eða annað álíka – þegar það er látið einsog lífsbarátta þeirra (s.s. okkar) sé aukaatriði við hliðina á skipulagsvandræðum borgarbúa. Og einsog gengur þegar burgeisavandamál eru borin saman við öreigavandamál þá finnst voða mörgum burgeisavandamálin einfaldlega vega þyngra og að öll þjónkun við öreigavandamál sé „popúlismi“.

Ég veit ekki hvernig eða hvers vegna Andri Snær lenti röngu megin í þessu battli – ég veit ekki til þess að hann hafi neitt til þess unnið. Kannski bara vegna þess að mörgum fannst á sínum tíma að Kárahnjúkavirkjun væri svona kjarnorkusprengjulausn á vanda Austfjarða – eitthvað máttugt og mikilfenglegt og einhvers konar kristileg fórn þar að auki (og við vitum öll, hvað sem þessari virkjun líður, að velmegun vesturlanda er byggð á öðrum eins fórnum – sturlaðri iðnvæðingu – og það er þess vegna sem „Ísland á ein stærstu ósnortu víðerni Evrópu“, það er búið að fórna öllu hinu fyrir verslunargötur og umferðaræðar og nettengingar, þessi taktík svínvirkaði nefnilega í gamladaga). Og þar sem að hann setti sig upp á móti henni hafi hann ekki haft hagsmuni austfirðinga að leiðarljósi. Sem er auðvitað rugl. Kárahnjúkavirkjun er fullkomlega misheppnaður gjörningur og peningana hefði betur mátt nota í margt annað. T.d. alls konar startöpp.

Annað sem ég hef tekið eftir er að þegar rýnt er í fylgistölur og greint í kyn, fjárhag, menntun og búsetu þá virðast fjölmiðlar hafa mestan áhuga á menntuninni. Þetta á svo tvöfalt við um félagsmiðlatröllin. Einhvern veginn verður upplagið þannig að fólk sem er lítið menntað kjósi vitlaust. Að ef fólk færi bara heldur í sálfræðinám en stálsmíði eða bara að vinna þá myndi það kjósa betur og hafa þóknanlegri skoðanir. Í einhverjum tilfellum er þetta einfaldlega rökleysa. Þótt mér sé að mörgu leyti þvert um geð að gangast við því þá er ástæðan fyrir því að ómenntað fólk víða í Evrópu er líklegra til að kjósa flokka sem vilja takmarka aðgengi innflytjenda einfaldlega sú að innflytjendur eru líklegri til að keppa við þá á vinnumarkaði en menntafólk. Menntafólk þarf ekki að óttast að sýrlenskir flóttamenn eða afganskir verkamenn veiti þeim nema samkeppni um sín störf. Tekjulægra fólk er líka ósennilegra til að telja sig aflögufært (og ef saga kapítalismans hefur kennt okkur eitthvað þá er það að fátækt fólk er alltaf fyrst til að þurfa að borga fyrir allt – #cashljós).

Ómenntað fátækt fólk kýs þannig einfaldlega með hagsmunum sínum – sem markast af stöðu þeirra sem lægsta og óvarðasta lags samfélagsins. Ef við viljum að ómenntað, fátækt fólk hætti að kjósa fasista þá þarf ómenntað, fátækt fólk að eignast (aðra?) fulltrúa innan valdsins – á þingi, ríkisstjórnum, bæjarstjórnum og fjölmiðlum – sem hefur það að stefnu sinni að breyta kerfinu þannig að byrði samfélagsins lendi ekki á þeim. Altso, verkafólk þarf að fá hærri laun, meira atvinnuöryggi og greiðari aðgang að stofnunum samfélagsins (sérstaklega heilsugæslu); það er vinstrilausnin. Já og svo þurfum við að vinda ofan af einkarekstri í skólakerfinu (líka leikskólakerfinu) svo fólk af ólíkum bakgrunni komist í meiri snertingu hvert við annað. Fasistalausnin – að byggja epískar verksmiðjur, „leiða alþýðuna“ og einangra þjóðina er hvort eð er engin langtímalausn. Hún er hugleysi á borð við að hætta að mæta í vinnuna eða hitta fólk vegna þess að það er svo kalt úti.

Spurningin er þá auðvitað hvernig hægt sé að hrinda þessari vinstristefnu í framkvæmd; hvernig hún geti orðið traustvekjandi valkostur fyrir lægstu lög samfélagsins – fyrir ómenntað, tekjulágt verkafólk á landsbyggðinni.

En nú er ég komin dálítið út fyrir efnið. Þetta hefur ekki nema að takmörkuðu leyti með forsetakjörið að gera. Andri Snær verður góður forseti vegna þess að hann lítur ekki á það sem hlutverk sitt að standa vörð um veröld sem var heldur þá veröld sem verður – og hann er maður sem gæti fóstrað slíkar breytingar ef þær ættu sér stað, frekar en að hann yrði gerandi eða katalysti. ÓRG er forseti veraldar sem hefur verið og er kominn tími til að renni sitt skeið – hann er valdafursti frá vandræðalegasta pólitíska skeiði 20. aldarinnar. Aðrir verða líklega ekki forsetar úr þessu. Og það var sem sagt einhver að dingla.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli