28. apr. 2016

28. apríl, #Ljóðafimmtudagur

Ljóð eiga rætur sínar að rekja til hefðar sem tók sig (að mestu) frekar alvarlega. Merkilegt nokk voru það einhvers konar sagnamenn – þeir sem lærðu hómerskviður og annað álíka utanbókar – sem stýrðu ferðinni. Og tól ljóðlistarinnar, það sem gerði ljóðin að ljóðum, það er að segja hljóðin (rím, stuðlar, taktur), voru bæði strangir húsbændur, fegrandi og praktísk, þau einfölduðu fólki að muna langa bálka og gerðu þá þægilegri áhlustunar, hreinlega estetískari. Þau voru þokkafull, með mikla undiröldu.

Þetta er auðvitað einföldun einsog allar tilraunir til þess að fella þúsundir ólíkra hefða saman í þann eina alþjóðlega meginstraum sem við eigum í dag, því hversu sem hann annars kvíslast erum við í grunninn öll hluti af sama fljótinu – og það er ekki endilega víst að svo hafi alltaf verið. Það er heldur ekki alltaf einfalt að segja til um hvernig heimurinn hafi litið út einu sinni – hvernig t.d. fólk hafi hanterað hómerskviður, hvort það hafi verið meira einsog við hanterum þjóðsöngva, af innilegri virðingu, eða einsog við youtubemyndbönd, að við berum þau á milli til að hlæja (hugsa sér samt ef maður þyrfti að læra youtubemyndböndin utan af; guði sé lof fyrir tækniframfarir / sic transit gloria mundi).

Það hefur síðan stundum slegið mig, og hefur ekkert með ljóðagerð að gera, að skáldsagan á uppruna sinn í verki – Don Kíkóta (um þetta er engin almenn sátt, en mesta sáttin sem hægt er að finna þó) – og það er verk sem einkennist fyrst og fremst af stjórnlausum fíflaskap. Don Kíkóti er bókmenntaverk sem á sér félagslega samsvörun í því að ganga um í heimskulegu kokteilboði, ullandi og frussandi með báðar löngutangir á lofti. Sem slíkt mjög fyndið – frábær bók – en í raun tilbreytingarlítið diss. 800 blaðsíður af sama aulabrandaranum. (Og ég sem sagt elska þessa bók).

Skáldsagan mátti líka þola það í fleiri hundruð ár að vera óvinsæla bókmenntaformið. Meðal annars vegna þess að hún krafðist markaðar – takk, kapítalismi – sem gat fjöldaframleitt drasl (þ.e.a.s. prentað bækur og dreift þeim víða) og var lengst af ekki til staðar. Það sem Ford gerði fyrir bílabransann gerði Penguin síðan um svipað leyti fyrir bókabransann. Penguin framleiddi ódýrar kiljur sem fólk keypti í massavís á sama tíma og fólk hafði meiri ráðstöfunartekjur og þar með komst fólk í tæri við lengri bókmenntaverk sem ekki var hægt að leggja á minnið og sem maður las kannski ekki nema einu sinni. Á norðurlöndum spiluðu sósíalistar líka rullu – Rauðir Pennar, bókaklúbbar, bókasöfn o.s.frv. Það var talsvert meiri metnaður fyrir því þá að tilheyra alþýðunni og þjóna henni en í dag, þegar menntamenn vilja helst bara gleðjast yfir skoðanakönnunum sem sýna að ómenntað fólk (og fátækt, en það er ekki lögð jafn mikil áhersla á það) „kjósi vitlaust“ (því það staðfestir „yfirburði“ menntamannanna).

Kiljubyltingin hefur enn ekki átt sér stað á Íslandi, sem auðveldar margt – allir frá höfundum að prentsmiðjum græða meira á dýrum bókum en ódýrum – en flækir annað. Fátækt fólk kaupir til dæmis síður bækur og jafnvel þótt það geti umgengist bækur með hjálp bókasafna – sem eru miklar fyrirmyndastofnanir – þá skilst mér að allar rannsóknir sýni að fólk sem elst upp á bókaskápalausum heimilum sé síður líklegt til þess að lesa sjálft (það að mamma sé alltaf með þrjár nýjar og nýjar bækur á náttborðinu, sem hún les á hverju kvöldi þegar börnin eru sofnuð, spilar sem sagt litla rullu). Það hefur þá félagslegar afleiðingar á nokkrum kynslóðum – fólk fer að sjá sig sem bókalaust fólk – og ef eitthvað er að marka þá mýtu að á öllum íslenskum verkamannaheimilum hafi mikið verið lesið í eina tíð, held ég að þess sjái nú þegar talsvert stað, t.d. í lestrarhæfiskönnunum.

Ég er komin svolítið út í buskann (ég ligg enn á sjúkrahúsinu og sýnist að ég fái kannski aldrei að fara heim, en ég er samt ekki á neinum verkjalyfjum – bara ósköpunum öllum af sýklalyfjum – kannski svolítið ringlaður). En hvar, sem sagt, var ég?

Ljóð ferðuðust með munnmælum, ekki bara vegna þess að þau voru stutt (sem þau voru oft), heldur líka vegna þess að þau voru beinlínis smíðuð með það fyrir augum að það væri auðvelt að bera þau á milli fólks og þurftu þess vegna alls ekki á markaðnum að halda. Það hefur meira að segja verið reiknað út að þau stríði gegn markaðnum – einföld, venjuleg pappírsörk er vara sem borgar sig að selja í heildsölu, ef maður á mikið af henni á lager getur maður komið henni í ritfangaverslanir og selt fyrir gróða; prenti maður ljóð á pappírinn snýst dæmið við, þá skilar reksturinn undantekningalaust tapi; ergo, ljóðlistin eyðir peningum, tortímir mörkuðum.

Viðskiptamódelið er enn svipað – ljóð berast um með munnmælum, þannig lagað. Þeim er dreift á twitter á #ljóðafimmtudagur, póstað á vefsíður, birtast á Facebook, í YouTubemyndböndum o.s.frv. Sem eru munnmælin á minnislausum tímum. Ljóð gleymast, rifjast upp, gleymast o.s.frv. Margt er drasl, margt er gott, sumt ratar á endanum í bækur. Ég hef það á tilfinningunni að færri og færri ljóð birtist á prenti – það er í það minnsta satt um dagblöð (það voru alltaf ljóð í Lesbókinni, oft vond ljóð, en samt ljóð), sennilega um tímarit og hugsanlega um bækur. Að vísu er markaðurinn þá auðvitað búinn að finna leið til þess að græða á ljóðum – ég held að Zuckerberg tapi a.m.k. ekkert á Facebookfærslunni manns, þótt maður kalli hana ljóð. Leiðin er þá að prenta þau bara ekki. Eyðileggja ekki fullkomlega markaðsvæna hvíta pappírsörk með verðlitlu hrafli.

(Ástæðan fyrir þessu með pappírsörkina er síðan auðvitað sú gamla og margsannaða klisja að fólk vill heldur skrifa ljóð en lesa þau; fólk eyðir pening í að kaupa hvíta pappírsörk til að prenta ljóðin sín svo það geti lesið þau á upplestrum, en minni pening í bækur hinna sem eru líka að lesa).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli