4. mar. 2016

Lestrardagbók: Algleymi

Ég var fyrir nokkru beðinn að nefna fáeinar „vanmetnar“ bækur fyrir fyrirbæri sem heitir Finnegan's List og skrifa um þær fáein orð. Bækurnar sem ég valdi voru Borg eftir Rögnu Sigurðardóttur, Hvítfeld eftir Kristínu Eiríksdóttur og Algleymi eftir Hermann Stefánsson. Það er auðvitað talsvert matsatriði hvað maður kallar vanmetna bók – Hvítfeld fékk til dæmis glimrandi dóma og viðtökur á Íslandi, en hefur ekkert verið þýdd. Borg var tilnefnd til Íslensku bókmenntaverðlaunanna en það varð nú mest til þess að hún fékk alls kyns skítafýludóma – höfundurinn var ung kona ótengd bókmenntaheiminum, bókin óvenjuleg. En svo hefur ýmislegt gáfulegt verið skrifað um hana síðan og hún nýtur einhvers konar virðingar.

[Það sem ég skrifaði fyrir Finnegan's List má finna hér].

Hermann var hins vegar uppnefndur póstmódernisti – varð bitbein í átökum sem komu honum líklega ekki mikið við. Hann lá bara vel við höggi, einsog heitir. Hermann er miklu minni trickster en honum er stundum legið á hálsi fyrir – þótt í bókum hans gæti vissulega áhrifa frá Calvino og Borges og þeim kumpánum öllum saman er miklu meiri undirliggjandi húmanismi í bókum hans en bókum margra annarra skósveina póstmódernismans. Bækur Hermanns fjalla um manninn, ekki trixin, um harminn og hugsun manns í harmi.

Þannig er Algleymi fyrst og fremst bók um mann sem missir algerlega stjórn á eigin tilveru án þess að hafa neitt unnið fyrir því – mann sem missir minnið og feykist síðan af stað út í eitthvert svimandi havarí og rugl í ámátlegri en ofsafenginni tilraun til þess að ná tökum á sjálfum sér aftur. Honum þykir mikið til þess koma sem okkur finnst lítið og lítið til þess koma sem okkur finnst mikið og einhvern veginn er allt hans tilfinningaregistur í svolitlum ólestri – sem setur okkar tilfinningaregistur auðvitað af sporinu líka. Guðjón Ólafsson verður einsog gestur í mannheimum, býr yfir hinu fræga glögga auga.

Algleymi hefur verið legið á hálsi fyrir að vera ruglandi en það er hún alls ekki. Hún er bara frekar pen formlega þótt línan milli ljóðrænu og raunsæis sé ekki alltaf skýr – maður þarf bara að gera ráð fyrir því að sá sem hugsi (Guðjón Ólafsson) sé í senn glaðvakandi og meðvitundarlaus.

Meira á morgun, eða hugsanlega á mánudag (það á eftir að koma í ljós hversu mikinn tíma ég hef til að blogga á helgum). Ég er búinn með 100 síður (en er að endurlesa sumsé – því mér var boðið til Leipzig til að fjalla um bókina, sem hefur komið út á þýsku – ég er að fara að þykjast vera Hermann, við erum eiginlega alveg eins ef ég beygi mig aðeins í hnjánum).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli