9. mar. 2016

Lestrardagbók: Algleymi, seinni hluti

Ég lauk við Algleymi í gærkvöldi (og byrjaði á Stefnuljósum). Guðjón og Helena eru horfin inn í ljósið.

Bókin hefst á fæðingarlíkingu þar sem Guðjón vaknar minnislaus einsog hvítvoðungur og endar á þessu þarna með að hverfa inn í ljósið – Guðjón og Helena gufa upp – því auðvitað sver sig Hermann líka í ætt metafiksjónar og byrjar á því að fæða bókina en endar á því að drepa hana, vísa sögupersónunum sínum með vopnavaldi út í tómið.

Er hægt að koma með spoilera á átta ára gamla bók? Já, auðvitað, ef þið hafið ekki lesið hana (en af hverju hafið þið ekki lesið hana, þið hafið haft átta ár til þess?). En ég veit ekki hvort það skiptir neinu máli. Og þetta er ekki þesslags dauði að hann þurfi að vera endanlegur – Guðjón og Helena gætu verið hvar sem er. Og sló mig reyndar [SPOILER ALERT! SPOILER ALERT!] að Guðjón hefði komið beint úr Leiðinni út í heim, sem endaði á sams konar algleymisfæðingu. Fæðst úr einni bók í aðra. Nýr maður.

Andstæðuparið sem drífur söguna áfram – og er grunnurinn að öllum harmi hennar – er að muna ekki neitt og að muna allt. Aukaverkan af deiktínmeðferðinni sem þau Guðjón og Helena (og Kristmundur og fleiri) gangast undir – eða aðalverkanir – er að sjá inn í fortíðina allt aftur til Miklahvells og virðist Guðjón hafa jafn greiðan aðgang að mannkynsminninu og sínu eigin minni.

Hinum minnislausa manni er mikil vorkunn að þurfa að læra sinn eigin tíma upp á nýtt. Að læra hvað ástvinir hans heita, hvar hann gekk í skóla og svo framvegis. Og einhvern veginn er harmurinn meiri eftir því sem maður ímyndar sér að þessi tiltekni maður hafi vitað meira. Það er verra fyrir doktor í heimspeki að missa minnið en þrettán ára tossa. Er það ekki? Þeir fara báðir á byrjunarreit en annar var kominn svo miklu lengra.

Fyrir rithöfund að missa minnið? Kannski orkar bókin svona sterkt á mig vegna þess að ég er svo minnislaus sjálfur. Ég þori aldrei að treysta því að ég muni neitt rétt. Ég man ekki hvað fólk heitir eða hvort ég hef talað við það, hvaða ár hlutir gerðust eða hvort ég var á staðnum. Þetta var vel að merkja ekki alltaf svona; einu sinni mundi ég allt, alla barnæskuna og öll svívirðilegu skammarlegu fylleríin (ég var kominn nokkuð yfir þrítugt þegar ég upplifði fyrst þá miklu guðsgjöf sem heitir blakkát).

En hvað um hinn minnislausa mann sem öðlast í kjölfarið möguleikann á að rifja upp ekki bara eigið líf heldur gervalla mannkynssöguna? Einn mann sinnum 107 milljarða og alla hina mannlausu sögu. Að rifja upp eigið líf er áreiðanlega alltaf einsog að fá fjall í höfuðið. En að þurfa að sortera úr öllu sem hefur gerst – þótt ekki væri nema bara til að finna eigið líf – það gerir allar líkingar um nálar í heystökkum hlægilegar. Nálar í stjörnuþokum væru nær lagi. Og trámað og ringlandin í samræmi við það.

Kannski skiptir það samt minnstu fyrir rithöfund að verða minnislaus. Rithöfundar lifa í heimi hins mögulega frekar en heimi hins verulega; ef ég segi að fyrri heimsstyrjöldin hafi hafist á sautjándu öld og staðið milli júpiterunga og súgfirðinga, þá er það bara þannig. Rithöfundar krafsa í myrkri alls sem er mögulegt eftir einhverju sem hljómar satt frekar en bara sennilega.

Ekki þar fyrir að samband rithöfunda við staðreyndir er flóknara en svo að það sé alveg frjálst – þannig mætti ég alveg láta geimverur lenda á Ísafirði á fjórða áratugnum en ég yrði að gæta þess að snúa ekki akstursátt í einstefnugötu við. Þá myndi ég glata trúverðugleika mínum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli