2. mar. 2016

Lestrardagbók: Öræfi (frh)

Nú finnst mér einsog ég ætti að byrja á að tíunda hitastig og veðurfar. Ég er sjálfur 37 gráður og þar með eilítið lasinn (einsog fastir lesendur mínir vita er ég að jafnaði á bilinu 36,1-36,5 gráður). Úti er rétt við frostmark, held ég, bjart og fínt og ég óttast það eitt að snjó taki að leysa og ekki verði hægt að fara á skíði. Jú og svo óttast ég líka hugsanlega myglu í skúrinni minni, og til vara óttast ég að ég sé að verða paranojd vegna allrar umfjöllunar um myglu í fjölmiðlum. Ég er að minnsta kosti lasinn.

Skepnurnar hafa það ágætt. Hundar bróður míns í næsta húsi eignuðust hvolpa á dögunum en kanínurnar hafa enn ekki eignast afkvæmi sem þær sinna (eitthvað hefur fæðst og endað í hundunum). Bróðir minn hótar að bæta við hænum í búskapinn – ég held hann sé smám saman að breyta hverfinu í sveitabæ. Hænunum hans pabba í næstu götu heilsast vel, þær eru að vísu orðnar aðeins gamlar og verpa minna en þær gerðu og eggin lítil, en ég hugsa að sá búskapur sé nú meira gæludýrabúskapur en til þess að fæða sig. Svo eru þeir báðir með ketti, pabbi meira að segja bengalkött – sem er kannski í ætt við að rækta lúpínu (það er ægileg og vitleysisleg en skemmtileg ræða um lúpínurækt og útlenskar plöntur aftarlega í Öræfum).

Ég á engin dýr. Öfugt við Val bróður fékk ég nóg af dýrum sem barn – eftir hunda, ketti, fugla, fiska, hamstra og kanínur. Svo ferðumst við fjölskyldan líka of mikið til þess að geta átt dýr – stefnum að því að vera 2-3 mánuði á ári í Svíþjóð og Finnlandi. Ég á þrjá burkna í bílskúrnum sem ég gef að drekka þegar ég man það.

Í blálokin á Öræfum breytist hún í framtíðardystópíu. Sem er áhugavert. Þar hefur „náttúruleg“ eyðilegging tekið völdin af „ónáttúrulegri“ (mannlegri) eyðileggingu – og Öræfi breytast að endingu aftur í Hérað. Veröldin öðlast að nýju jafnvægi (eða nýja fegurð) í krafti eyðileggingar, fátæktar, hörmunga, dauða og styrjalda. Það er eitthvað MadMaxlegt við þá heimssýn.

Næst ætla ég að endurlesa Algleymi eftir Hermann Stefánsson.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli