4. des. 2015

Almar, Zuckerberg og Heimska

Aftur á Joe & the Juice, undir rithöfundamyndunum í Leifsstöð, sem er næstum tóm – Ísland er greinilega ekki lengur í tísku, né útlönd, það eru allir hættir að fara nokkurn skapaðan hlut (nema allir séu bara farnir til Parísar til að ræða loftslagsmálin, það getur verið).

Ísland kemst ekki til útlanda, það situr stjarft og starir á nakinn listnema í glerkassa í beinni útsendingu á netinu. Hann sagði í viðtali áður en hann byrjaði að það væri skrítið að 23 ára maður hefði aldrei á ævinni verið einn í viku. Ég veit ekki hvort honum finnst hann nú hafa verið einn – í einhverjum skilningi er maður auðvitað aldrei eins einn og í beinni útsendingu á netinu. Ég veit ekki hvort þetta er narsissismi – þetta er auðvitað symbólískur gjörningur og hefur meira að gera með áhorfið og sirkusinn í kringum manninn í kassanum en sjálfan manninn í kassanum. Hann er minna að sýna sig og við meira að horfa á hann.

Einhver kallaði hann tamagotchi nýrra tíma – tamagotchi voru stafræn lyklakippugæludýr sem voru vinsæl fyrir svona tveimur áratugum, það þurfti að sinna þeim annars „drápust“ þau. Fólk situr og starir á hann langt fram á kvöld. Kannski finnst því að hann drepist ef þau slökkva á streyminu. Það sem gerist ekki í beinni útsendingu gerist alls ekki.

Andy Warhol sagði einhvern tíma að í framtíðinni yrðu allir frægir í fimmtán mínútur og átti víst ekki við að við myndum skiptast á, einsog það hefur verið túlkað, heldur að einhverjar fimmtán mínútur í framtíðinni – t.d. 12:43 til 12:58, 4. janúar 2016 – yrðu allir frægir samtímis. Mér sýnist stundum einsog þessar fimmtán mínútur séu að verða fulllangar. Það eru allir frægir viðstöðulaust alltaf – Twitter og Facebook eru ekki bara markaðssetningartól fyrir listamenn heldur fyrir alla, í senn vinnan (skemmtiatriðin) og kynningin á vinnunni (hæ, sjáiði mig, ég er að vera sniðugur hérna!).

#nakinníkassa er einhvers konar komment á þetta ástand frekar en afleiðing af því.

* * *

Í bréfi sem Mark Zuckerberg birti á dögunum í tilefni af fæðingu dóttur sinnar – þar sem hann meðal annars tilkynnti að hann myndi gefa 99% af eigum sínum (45 milljarða bandaríkjadala) í nafni þeirrar hápólitísku hugmyndafræði að styrkja „einstaklingsmiðaða menntun“, „sterkari samfélög“ og vinna að því að „tengja fólk“ og „lækna sjúkdóma“ – í þessu bréfi stóð meðal annars:

Munt þú læra og upplifa 100 sinnum meira en við gerum í dag? 
[...] 
Getum við tengt heiminn þannig saman að þú hafir aðgengi að hverri einustu hugmynd, hverri einustu manneskju og öllum heimsins tækifærum?
Og ég bara svitna. Ef einhver græðgi á eftir á eftir að ganga af okkur dauðum er það þessi; ef einhver ranghugmynd er bókstaflega banvæn þá er það sá guðakomplex að nokkur manneskja geti hanterað aðgengi að öllu, að nokkur manneskja ráði við að upplifa 100 sinnum MEIRA en nútímamaðurinn – við sem lifum í hysterískum nautnastormi, lifum við nauðhyggju upplifana, tenginga, performans og afhjúpunar. Og einn valdamesti maður jarðríkis var að leggja 45 MILLJARÐA bandaríkjadala í að koma þessari draumsýn sinni til leiðar; að gera illt verra.

Í gær las ég langa færslu um það þegar Dr. Gunni byrjaði að fróa sér. Í fyrradag las ég eitthvað svipað á blogginu hans Egils Helgasonar, sem síðan daginn eftir skrifaði um narkissismann í listheiminum og vísaði þar til Almars – jólabókaflóðið er stappfullt af skáldævisögum (og það er auðvitað hefð fyrir því á Íslandi að lesa meira að segja skáldskapinn einsog símaskrána). Berháttanir á líkama og sál eru orðnar að vikulegum markaðsátökum á félagsmiðlum í nafni byltingarinnar. Fjölmiðlar halda sér á floti með viðstöðulausu persónulegu tráma – samfélagsleg merking trámans er í besta falli skoðuð í einhverri skýringarteikningu úti í kanti, stóra samhengið er neðanmálsgrein við einkamálin, afhjúpunina, og andköfin sem okkur er fært að taka gagnvart veröldinni

Og hvað. Og hvað. Hvernig tengist þetta? Almar og Mark? Twitterátökin og játningabækurnar í flóðinu? Ég veit það ekki. Ég var auðvitað að reyna að skrifa bók um þetta – Heimska fjallar um nákvæmlega þetta. Um svitaköstin sem ég tek sjálfur á Facebook og Twitter þegar ég er búinn að skrolla viðstöðulaust í heilan átta tíma vinnudag. Þegar ég er búinn að hafa skoðun á dómum í tíu sakamálum, hafa skoðun á veðrinu, skoðun á skoðun annarra á færðinni og uppeldi barnanna, þegar ég er búinn að engjast um yfir forræðismálum, dánarfréttum fræga fólksins, kynlífsmyndböndum fræga fólksins, hefndarkláminu, hobbíkláminu, dýraníði og rasisma, og enginn vá er samt verri en loftslagsváin og hvers vegna er allt þetta fólk þá að fljúga til Parísar OG HVAÐ ER ÉG EIGINLEGA AÐ GERA Á LEIFSSTÖÐ SJÁLFUR? Og hún fjallar um þetta að sýna sig (nú les ég að Almar hafi verið að fróa sér í gærkvöldi; hvar var ég? var þetta meðan ég var að kynna bókina í Gunnarshúsi eða var ég kominn heim og sofnaður), performa sig, afhjúpa sig, nautnina sem er fólgin í því að sjá aðra og sýna sig, jafnvel í því sárasta, því einkalegasta, því yfirgengilegasta.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli