30. nóv. 2015

Kræklóttur

Hinn týpíski pólski ljóðaunnandi er stúlka á aldrinum 18-22. Þær voru að minnsta kosti í miklum meirihluta á ljóðakvöldinu í Katowice í fyrradag. Ég hélt fyrst – enda fullur af fordómum – að þær væru komnar til að sjá hljómsveitina sem spilaði í lokin en svo fóru þær bara flestar þegar ljóðskáldin voru búin að lesa upp. Hljómsveitin var líka svolítið þunn eitthvað – ýmislegt ágætt, en dálítið einsog þau væru ekki nema búin að hálfklára hvert lag, og vissu ekki heldur alveg hvort þau vildu vera Sykurmolarnir eða Simple Minds. Ljóðskáldin voru miklu betri. Skáldið og skipuleggjandinn Bartek hafði grafið upp haug af pólskum plakötum með ljóðum eftir mig í þýðingu Olgu Holownia sem ég stóð og áritaði fyrir stúlkurnar (og kannski 2-3 stráka líka) í kuldanum úti í smók einsog hver önnur poppstjarna (grobbigrobb).

Í gær var ég skelþunnur og gerði ekkert nema hitta Bartek í hádegisborgara og bíða eftir rútunni minni, sem fór klukkan tíu mínútur í eitt eftir miðnætti. Jú, ég notaði tímann til að klára teiknimyndaseríuna um BoJack Horseman. Mikið sem það er ótrúlega fínt stöff.

Ég hafði af einhverjum ástæðum séð fyrir mér næturrútu á víetnamska vísu, með rúmum, og varð fyrir talsverðum vonbrigðum að það væru bara sæti, enn meiri vonbrigðum að sjá að rútan væri full og engin leið að ná tveimur sætum hlið við hlið (fyrren í Łódź þegar rýmdist til). Það er greinilega ekki sama kommúnistaríki og kommúnistaríki. Einsog venjulega var líka heldur lítið fótapláss fyrir mig. Nú er ég í Gdansk, allur frekar kræklóttur eftir rútuna, vansvefta og ringlaður. Eftir sex tíma flýg ég til Íslands með Wizz Air og ég veit satt best að segja ekkert hvað ég á að gera af mér á meðan. Ég nenni einhvern veginn ekki neinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli