10. des. 2015

Hið lýðræðislega fasistaríki

Ég las upp úr Illsku í Lettlandi á dögunum og var í kjölfarið spurður hvort það væri sanngjarnt að „tala svona“ um þjóðina (og margar aðrar þjóðir reyndar líka) – ekki væru Íslendingar upp til hópa rasistar, og sönnunargagnið væri gjörningur „Biryndísi Bjórkvinsdauttir“ (eða hvað hún nú aftur heitir sú ágæta kona), þar sem 100 þúsund manns hefðu boðist til að taka á móti hælisleitendum og/eða flóttamönnum á heimilum sínum.

Ég byrjaði á að segja að í fyrsta lagi væru Íslendingar heimsins bestu spunameistarar – við hefðum á sínum tíma verið best í kapítalisma, svo best í að lækna krankleika kapítalismans og fangelsa bankastjóra og bylta ógnarstjórnum, síðan best í ... voru ekki eldfjöllin næst, það gæti reyndar staðist, við erum mjög góð í að loka flugvöllum ... og loks værum við best í að bjarga flóttamönnum frá dauða. Altso, núna. (Fyrir utan auðvitað hvernig við erum best í að búa til tónlist og skrifa bækur).

Síðan nefndi ég að líklega hefðu þetta verið 10 þúsund manns en ekki 100 þúsund manns og 10 þúsund væri ekkert rosalega hátt hlutfall af 340 þúsund manna þjóð, ekki miðað við stærð vandans. Og fólk hefði boðið ýmislegt minna en húsnæði og framfærslu (og ég sjálfur ekki neitt, vel að merkja). Auðvitað væri gjörningurinn fallegur, symbólískur, Bryndís væri góð vinkona mín og fáir sem ég bæri jafn mikla virðingu fyrir, þetta hefði verið geggjað. Og flóttamenn þyrftu líka hreinlega að fá að heyra það að einhver stæði með þeim, að einhver hugsaði til þeirra þar sem þeir træðu marvaðann í Miðjarðarhafinu og drukknuðu í evrópskri skriffinnsku. Og ráðamenn þyrftu að heyra í fólkinu.

En staðreyndin væri sú að líkt og aðrar norðurlandaþjóðir þessa dagana kysum við yfir okkur fasistastjórnir og okkar hefði ákveðið að þessi mikli þrýstingur og þessar 10 þúsund sjálfboðaliðasálir þýddi að í stað þess að taka á móti 25 manns mætti taka á móti heilum 50 manns – og það væri enn ekki kjaftur kominn. Fyrir utan þessa fáu Sýrlendinga sem komu sjálfir og fengu loks hæli – voru þeir ekki fjórtán? – eftir endalaus og ítrekuð mótmæli og þrýsting. Það lá við að fólk hótaði því einfaldlega að slá skjaldborg um þá. Og munaði minnstu að þau yrðu send í burtu.

Það þurfti tíu þúsund sjálfboðaliða til að fá vilyrði fyrir 50 flóttamönnum og í nótt þurfti 20 lögreglumenn til að sækja fjögurra manna albanska fjölskyldu og senda þau úr landi. Þau voru sótt um miðja fokkins nótt vegna þess að neyð þeirra þótti ekki nógu stór fyrir mannúð Íslendinga, hún dugði ekki til. Fjölskyldufaðirinn sætir ofsóknum glæpamanna í Albaníu og sonurinn, þriggja ára, er fársjúkur og þarfnast læknisaðstoðar. En það er ekki nóg. Faðirinn var í vinnu og börnin komin á leikskóla, þau voru með stuðningsnet heimamanna, vina sem þótti vænt um þau – þau höfðu verið hér í tíu mánuði, sem er rúmur fjórðungur úr lífi yngsta barnsins.

20 lögreglumenn – líklega bjuggust þeir við því að mæta hörku, í öllu falli vildu þeir greinilega vera viðbúnir því að þurfa að takast á við einhvern. En fjölskyldan bað vini sína að mótmæla ekki – enda vildu þau ekki sjá lögregluna berja vini sína. Því hver vill það? Lögreglan vinnur alltaf hvort eð er.

Og maður spyr sig hvað þetta kosti. Og hvort ekki væri nær að fljúga fólki í hina áttina, úr eldinum í öskuna frekar en öfugt? Úr eldinum í kuldann. Við getum ekki bjargað öllum, en við getum bjargað þeim sem bjarga sér sjálfir. Við getum sleppt því að eyða stórfé í að leggja líf fólks í rúst.

Svona er að búa í fasistaríki. Mér er engin nautn í að segja það – en það er nákvæmlega þetta skeytingarleysi um líf annarra sem er lykileinkenni fasismans. Að reglur séu reglur og líf fólks skipti ekki máli, ekki gagnvart reglunum (sem þess utan eru alltaf túlkaðar þröngt; það eru engar reglur sem skylda okkur til að senda fólk úr landi og það liggur huglægt mat að baki reglum um dvalarleyfi af mannúðarástæðum). Það má síðan alveg hengja sig á einhverjar aðrar orðabókarskilgreiningar – þegar ég var ungur sósíalisti var mér sagt að fasistar væru ekki fasistar nema þeir sæktu sinn helsta stuðning til stéttar smáborgara (sem samkvæmt fræðunum eru þeir sem vinna ekki fyrir aðra og eru ekki með aðra í vinnu; þeir sem vinna fyrir sig sjálfa – svona einsog ég). En fasisminn er fyrst og fremst ákveðinn móður, ákveðinn hamur, ákveðið verklag sem sýnir utanaðkomandi yfirgengilegan fjandskap, skilgreinir þá (t.d. albanskar fjölskyldur) sem ógn við einingu og velferð þjóðarinnar, og beygir sig ekki einu sinni að vilja samfélagsins, heldur friðar það með bitlingum, enda hefur hið fasíska ríki sinn eigin vilja og lýtur engum.

Og ég skal bara segja það aftur: svona er að búa í fasistaríki. Lýðræðislegu fasistaríki – við kjósum þetta, og skömm okkar er meiri fyrir vikið – en fasistaríki engu að síður. Þar sem sumir mega einfaldlega drepast.

Þegar við síðan brennum inni með þetta rugl, einsog við brunnum inni með kapítalismann 2008 – hvort sem það verður af völdum stríðs eða borgarastyrjaldar eða einfaldlega þess harms að hafa horft upp á stóran hluta þriðja heimsins drepast á dyraþrepinu hjá okkur, rétt á meðan við troðum í okkur jólamatnum, hvort sem við murkum endanlega lífið úr fátæka fólkinu eða það rís upp gegn okkur – þá getum við ekki haldið því fram að við höfum ekkert vitað í hvað stefndi, að við höfum ekki áttað okkur á því eða að við höfum ekki getað gert neitt. Það er einfaldlega ekki í boði. Við gerum þetta með galopin augu – vitum að vísu ekki alltaf hver drepst og hver lifir – en við vitum að mannfallið er mikið. Við kjósum að viðurkenna ekki neyð fólksins sem knýr dyra. Með fullri meðvitund og lýðræðislegu samþykki.

Það þýðir ekkert að yppta öxlum og láta einsog það komi okkur nú ekkert við, ekki séum við í albönsku mafíunni, ekki séum við í ISIS eða morðsveitum Assads, við séum nú „bara Íslendingar“. Við erum alveg jafn sek þótt við látumst heimsk.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli