5. nóv. 2015

Tvær vikur af Heimsku (líkamshiti, þyngd, hreyfing og matarvenjur)

Bókin er komin út – var það komið fram? Ég er alls ekki nógu duglegur að sinna þessu bloggi, sem er hvort eð er löngu hætt að snúast um bókina. En hún er engu að síður komin út – fáanleg í öllum helstu bókabúðum sem svokölluð royal-kilja, fáanleg sem epub-rafbók hjá Forlaginu og Amazonrafbók fyrir kindil, fáanleg sem hljóðbók á Hljóðbókasafni Íslands (í lestri Hjálmars Hjálmarssonar) eða á hinum frjálsa markaði í mínum lestri. Fimm formött, enn sem komið er. Já og svo er búið að selja réttinn á henni til Svíþjóðar og Frakklands, þar sem hún kemur út á næsta ári.

Hún var dæmd í Kiljunni – Sigurður og Friðrika stilltu sér upp í sitthvort hornið hvað varðar hið kaldhamraða neytendamat, Frikka með, Siggi á móti, en Egill hélt sig á hlutlausa svæðinu – og svo fékk hún fyrirtaksdóm á Hugrásarvefnum, þar sem Ásta Kristín Benediktsdóttir rýndi og greindi af móð, andríki og íþrótt. Loks hafa birst um hana styttri umsagnir á samfélagsmiðlum – Halldór Laxness DNA var „GÍRAÐUR“, María Kristjánsdóttir, bókmenntafræðingur, líkti bókinni við verk Henrys Miller (kannski út af dónaskapnum), Össur Skarphéðinsson, fv. ... ritstjóri DV ... sagði einfaldlega „frábær bók“ og Bjarni Harðarson, bókaútgefandi, sagði hana „afar vel skrifaða“ og að hún ætti „sannarlega erindi við samtímann“.

Þess utan hafa það mest verið vinir og kunningjar sem hafa ausið á mig hóli. Nadja, konan mín, er til dæmis mjög ánægð. Börnunum mínum finnst ég frábær (þau fá samt ekki að lesa bókina fyrren þau eru átján ára). Mamma og pabbi eru mjög stolt. Og svo framvegis.

* * *

Það er alltaf verið að spyrja mig um hvað Heimska sé. Og ég mala eitthvað. Hún er vísindaskáldsaga, glæpasaga, reyfari, tilgátubókmenntir, metafiksjón, ljóðræn hugleiðing um mann og náttúru, frumspekileg hugleiðing um eðli tímans og inniheldur þess utan meira að segja einlægan og blóðugan játningaskáldskap rithöfunda, ritgerð um tilgang bókmennta, og tvær rammpólitískar skáldsögur (sem eru að vísu keimlíkar). Og þetta allt á rétt rúmum 160 blaðsíðum. En svo er ég ekki einu sinni alltaf viss sjálfur nákvæmlega um hvað hún er – og ef ég er viss um eitthvað þá er það það að litlar bækur séu viðkvæmar fyrir umtali höfunda sinna og eiginlega ætti ég að gæta mín að segja sem minnst um hana.

* * *

Í dag einhvern tíma verður tilkynnt um Medici verðlaunin í Frakklandi. Við Jón Kalman erum tilnefndir – hann fyrir fótalausu fiskana og ég fyrir Illsku. Lítill fugl sagði mér að ég ætti nokkra grjótharða í nefndinni en líklega muni Javier Cercas taka þetta. Ég ætla samt að naga neglurnar niður í kviku í dag. Ég sem þarf eiginlega að hafa hugarró til að klára ljóð sem ég á að flytja á norræna vatnslitasafninu í Svíþjóð á laugardaginn.

* * *

Í næstu viku ætla ég að lesa upp úr bókinni í streymi á netinu, beinni útsendingu úr skúrinni við Sjökvist. Hugsanlega geri ég það í hádeginu, hugsanlega bæði, og alveg áreiðanlega nokkrum sinnum. Ætli ég auglýsi það ekki betur síðar.

* * *

Einu sinni bloggaði ég af trúfestu um þyngd mína og matarvenjur. Ekki af neinni lútersku, vel að merkja, þetta var aldrei líkamsræktarblogg. Og nei, nú man ég, það var ekki þyngdin – það var líkamshitinn. Ég er þeim ósköpum búinn að vera undir mennskum meðalhita – yfirleitt ekki nema rétt rúmlega 36 gráður. Ef ég er með 37 gráður þá er ég fárlasinn. En ég sem sagt át Havre Fras kodda í morgunmat, ætla að steikja mér egg í hádeginu og hafa pizzu í kvöldmat. Valur bróðir kemur með fjölskylduna, alla leiðina úr næsta húsi. Ég er 86,6 kíló (3-4 kílóum yfir því sem ég á að mér að vera), í gær hljóp ég fimm kílómetra, á morgun ætla ég til Skärhamn, ég er 36,1 gráða og háður samfélagsmiðlum, kaupið bókina mína!

Engin ummæli:

Skrifa ummæli