2. okt. 2015

Síðasti í viðskiptabanni

Ég er aðeins of seinn að skila skýrslunni; hef verið á ferðalagi. Ég hugsa að ég láti alveg vera að draga af þessu verkefni neinar almennar ályktanir, því þótt bækur eftir konur hafi hugsanlega einhver sérkenni sem skilji þær frá bókum karlmanna eru sá munur ekki mikill – munurinn á dönskum og sænskum bókmenntum er miklu meiri, munurinn á eitís og næntís bókmenntum miklu meiri – og bækurnar sem ég hef lesið á þessu hálfa ári miklu ólíkari innbyrðis en svo að þær eigi skilið að fara allar undir sama hatt.

En sem sagt.

Maya Angelou – I know why the caged bird sings

Klassík, auðvitað – fáránlega ljóðræn og falleg. Nú eru líklega tveir mánuðir síðan ég las hana og sagan virðist ekki hafa setið fast í höfðinu á mér, hvernig sem á því stendur. Ég man eftir því að hafa hugsað á meðan á lestri stóð að bókin væri – þrátt fyrir allt fallegt og gott sem má segja um hana – kannski líka svolítið full af blökkumannaklisjum. En fyrst  og fremst sterkur texti og sterkur persónuleiki.

Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande (Í leyfisleysi)

Ég las bókina á sænsku en ekki í íslenskri þýðingu Þórdísar Gísladóttur, sem er áreiðanlega samt frábær (þótt mér finnist þýðingin á titlinum alltof skvísubókaleg – þetta er lögfræðihugtak sem á ensku útleggst sem Wilful disregard). Bókin er svona semísjálfsævisöguleg og fjallar um samband aðalsöguhetjunnar við flagarann og kvikmyndaleikstjórann Hugo Rask (það ölli talsverðu „raski“ (hó hó) í sænskum bókmenntaheimi þegar Roy Andersson tók að sér að vera Hugo Rask og sagði frá ástarsambandi sínu við Lenu). Það sem ég hafði lesið um bókina einblíndi mikið á hugmyndina um kúltúrmanninn og hvernig hann nýtir sér stöðu sína til að tæla ungar konur án þess að meina neitt með því en það kom mér á óvart hvað bókin virkaði miklu meira á mig sem svona raskolnikovskur óður til ástarinnar, ástarþráarinnar og ástsýkinnar. Aðalsöguhetjan er með alls konar þráhyggjur og þær taka miklu meira pláss en hegðun Hugo Rask, sem maður fær eiginlega aldrei neitt sérstaklega mikla innsýn í (enda fer hann leynt með hana). Í öllu falli frábær bók.

Virginia Woolf – Út í vitann

Fjölskylda ætlar að fara út í vita en veðrið er ekki alveg nógu gott. Í rosalega merkilegum texta. Vel þýddum af Herdísi Hreiðarsdóttur.

Anna Axfors – Veckan innan

Stutt ljóðabók eftir sænska skáldið Önnu Axfors, sem hefur vakið talsverða athygli í Svíþjóð upp á síðkastið. Ég þýddi tvö ljóð úr bókinni – annað þeirra birtist á 2015 er gildra á dögunum og hitt birtist áreiðanlega líka fljótlega. Frábær bók – minnir að mörgu leyti á Miru Gonzalez eða Julie Steen Knudsen. Einhver afhjúpandi nánd í bland við truflandi ágengni. Einsog hún dragi mann inn og hrelli mann til skiptis.

Tíst og bast – Eydís Blöndal

Eydís Blöndal var ekki mjög gömul þegar ég las viðtal við hugsjónafrjálshyggjumanninn pabba hennar þar sem fram kom að hann greiddi börnunum sínum fyrir hin ýmsu viðvik á heimilinu – svo sem að búa um rúmið og svona. Af því peningar eru hvati. Sem gerir það auðvitað sérstaklega áhugavert (og skemmtilegt) að dóttir hans skuli hafa valið sér sjálfsagt starfsvettvanginn í heiminum þar sem óhugsandi er að maður búi nokkurn tíma til neina peninga – það er hægt að fá greitt fyrir svo til allt (svo sem að búa um rúmið) og lifa af þeim tekjum, en það er ekki hægt að lifa af því að skrifa ljóð. Í það minnsta er ekkert hæpnara.

Að því sögðu er ekki heldur beinlínis leiðinlegt að bókin er góð og áhugaverð. Sum ljóðin bera að vísu með sér að hafa verið skrifuð af ungmenni (þau eru vel að merkja samt miklu betri en nokkuð sem ég skrifaði tvítugur) en önnur þeirra hafa til að bera talsverða spennu, húmor og fegurð.

Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir

Síðustu árin hef ég varast jólabókaflóðið og tekið meðvitaða ákvörðun um að leyfa bókum að bíða aðeins (ég mæli ekki með þessu sem neinu skilyrðislausu skylduboði því þá fer bókabransinn á hausinn). Og hafði þess vegna ekki lesið Hvítfeld – og kannski hreinlega óttaðist ég hana af einhverri svona faglegri afbrýðissemi gagnvart hæfileikum Kristínar (sem er vinkona mín). Og var svo sem alveg ástæða til. Hvítfeld er alveg hryllilega góð bók – en samt allt öðruvísi en ég hélt hún yrði. Minna „plottuð“ og meiri ákefð, meira blóð og meiri átök. Ég held ég verði með hnút í maganum a.m.k. fram yfir áramót.

Wisława Szymborska – Selected poems

Ég ákvað að rifja upp Szymborsku eftir að hafa lesið grein Hermanns Stefánssonar um háskólasamfélagið, Skýrsla handa akademíu, þar sem hann vitnar í ljóð eftir hana: Þegar ég ber fram orðið Þögn / eyðilegg ég það. Nú myndi ég finna til fyrir ykkur eitthvað gott ljóð ef ég hefði bókina við höndina, en hún er heima hjá mér en það er ég ekki. Ég veit ekki hvernig maður ætti að lýsa svona bók – sem er yfirlitsrit yfir heilan feril, heila ævi. Hún er einhvern veginn bæði margbrotin og einföld, ólíkindaleg og sjálfri sér lík og alls engum öðrum. Og maður verður bara að lesa hana sjálfur.

Clarice Lispector – The Hour of the Star

Aftur bók sem erfitt er að lýsa. Bók sem fjallar eiginlega mest um textann sem er í henni. Hún gerist í fátækrahverfi í Rio, er sögð af manni, fjallar um konu og kærastann hennar, um skítinn og heiminn og hamingjuna. Ef að Borges og Gertrude Stein myndu eignast barn, og Italo Calvino og Jane Austen myndu eignast annað barn, og þessi tvö börn myndu svo eignast sitt eigið barn, þá væri það barn kannski Clarice Lispector. Þessi brasilíska skáldkona hefur víst lengi verið bókmenntasamfélaginu í Brasilíu kær, en er fyrst að slá í gegn á heimsvísu núna – hún dó rétt áður en bókin kom út, árið 1977. Og stundum hugsa ég að fyrst hún gat skyndilega tekið af stað í útrás, þá sé enn von fyrir Þórberg ...

Joyce Carol Oates – The Falls (p.s.)

Bókin hefst á því að ungur nýgiftur maður sem er í brúðkaupsferð í Niagara Falls fer og steypir sér í einn af fossunum – hugsanlega vegna þess að honum hafi ofboðið svo gagnkynhneigðu kynmökin sem hann neyddist til að stunda um nóttina. Ekkjan giftist síðan áhrifamanni í bænum, þau eignast saman börn, hann kynnist fátækri konu hverrar börn eru mjög veik vegna eiturefna í hinum svonefnda Love Canal. Verandi lögfræðingur og rosalega góð manneskja ákveður hann að hjálpa henni. Og svo framvegis og svo framvegis. Ég á enn smá eftir af henni – hún er hryllilega löng en að mörgu leyti góð. Miklu meiri „spennubókmenntir“ en ég hélt að Oates skrifaði, miklu meiri saga – kannski er ég bara svona hellaður eftir Woolf og Lispector og ljóðabækurnar, en textinn er allavega alveg meinstrím. Ég hef tekið stóran hluta bókarinnar á hljóðbók í ágætis lestri konu sem ég man ekki hvað heitir og reikna með að klára hana þegar ég keyri vestur (sem verður annað hvort á eftir eða á morgun, eftir því hvenær helvítis WOW-flugið mitt fer í loftið frá CDG).

Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök

Þórdís á besta titil ljóðabókaflóðsins (sem er annars svakalegt í ár). Og fyrsta ljóðið í bókinni – sem fjallar um mann sem situr í strætó og starir á konu (þetta myndi ég staðreyna ef ég hefði ekki tékkað bókina inn – ég er svo minnislaus, gæti verið að snúa þessu á haus) – er eitt það besta sem Þórdís hefur skrifað. Síðasta ljóðið er líka mjög sterkt og í sama móð og byrjunin – en miðjan er meira einsog bálkur um ólíkt fólk og minnti mig dálítið á Spoon River Anthology eftir Edgar Lee Masters, sem Magnús Ásgeirsson þýddi einhvern tíma sem ... Skeiðarárljóðin? Skeiðarárbálkinn? Ég man það ekki. En miðjan er sem sagt líka góð. Og miklu fyndnari en Masters.

Wildlives – Sarah Jean Alexander

Það er einhvers konar endurreisn í játningaljóðabransanum þessi misserin. Og autofiksjón almennt, auðvitað – Knausgaard og það allt saman (ég ætlaði reyndar eitthvað að nefna Knausgaard hérna í Frakklandi um daginn og þá hafði enginn heyrt á hann minnst). Eydís og Mira og Julia og Anna (og jafnvel Lena) sem nefndar eru hér að ofan eru allar í þessum bransa og það er Sarah Jean Alexander að einhverju leyti líka – nema hún er miklu hlýlegri og ekki jafn nístandi. Mira skrifar til dæmis alveg ástarljóð en hún gerir það ekki hæðnislaust – og ekki án þess að því fylgi nokkuð myrk sýn á bakvið allan húmorinn. Wildlives er hins vegar einhvern veginn ... ekki jafn vonlaus. Ég veit ekki hvort ég meina það sem hól eða last – kannski er það bara sagt án dæmandi eiginleika. Hér er dæmi:
A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on
Mr. West – Sarah Blake

Mr. West er óður til Kanye West skrifaður af konu sem gengur með sitt fyrsta barn – og fjallar um tengsl konunnar við þessi tvö líf, svörtu súperstjörnuna með sprengistjörnuegóið og barnið sem vex innra með henni. Og kannski að litlum hluta líka um manninn hennar. Ég sá að hún hafði fengið útreið fyrir að misnota hinn svarta líkama og la tí da – altso fyrir að vera rasisti (einsog er að verða algengari og algengari útlistun á ljóðabókum þar vestra). Ég veit ekki hvort ég tek mikla afstöðu til þess – ég hef verið að útskýra fyrir alls kyns frökkum síðustu daga að ég skilji ekki grunnhugsunina á bakvið laïcite, mér finnist hún ekki ganga upp nema svo takmarkað (meðal annars því hún dregur of skýra milli þess sem er menningarlegt og þess sem er trúarlegt, á meðan sú lína er alls ekki skýr). En ég útiloka ekki að þar sé ég haldinn einhverri menningarblindu. Og að sama skapi skil ég ekki afstöðu bandarískra intelektúala til líkams- og ídentítetspólitíkur – mér finnst einsog þeir blandi öllu saman í einn óskiljanlegan hrærigraut, þar sem bókmenntaverk sem varpa fram erfiðum spurningum um kyn eða kynþætti verða skyndilega að rasískum eða kvenhatandi gjörningum. Svipaða tendensa mátti reyndar sjá í umfjöllun um Kynleikasýninguna í ráðhúsinu. Þetta er ætandi vitleysa.

En hvað um það. Mr. West fjallar líka um höfundarétt – það þurfti að sverta allar tilvitnanir í texta Kanyes eða greiða himinhátt gjald fyrir notkun þeirra – og mikið af henni er kópípeist af netinu (í rasistadebattinum græðir hún áreiðanlega ekkert á því að Kenny Goldsmith skrifar s.k. blörb á bakkápu). Og frægðina, samfélagið, hið stóra ameríska þjóðerni. Og er góð (ég geri nú ekki annað en að hrósa bókum þessa dagana, líklega er ég að verða fullgóður í að velja ofan í mig lesefni – ég þyrfti að fara að lesa eitthvað verulega lélegt fljótlega, þó ekki væri nema bara til að halda krítísku tólunum beittum).

Sorrowtoothpaste Mirrorcream eftir Kim Hyesoon 

Suðurkóresk ljóðabók í þýðingu Don Mee Cho. Ég þekki ekki kóreskan kúltúr – og er illa lesinn í asískri samtímaljóðlist, rétt svo ég kannist aðeins við víetnömsku skáldin – en þessi ljóð eru líklega eins langt frá því sem flest fólk heldur að asísk ljóðlist sé og hugsast getur. Þetta er brútal, agressíft, súperintelektúalt og voða lítið um ró hækunnar eða kúl kóansins. Dæmi:


Víetnömsk ljóð eru reyndar líka miklu grófari en maður gæti haldið. Líklega þýðum við ekki asísk ljóð hérna á vesturhvelinu nema þau séu að minnsta kosti 2 þúsund ára gömul, eða í það minnsta sannfærandi eftirlíking af slíkum bókmenntum. 

Ég er enn að lesa Sorrowtoothpaste Mirrorcream – hún er ekkert rosalega löng en það er meiri texti í henni en mörgum ljóðabókum og textinn er þungur aflestrar. 

Hitt

Bækurnar sem ég las voru: 

1 mánuður: 
Station Eleven – Emily St. John Mandel 
We Are All Completely Beside Ourselves – Karen Joy Fowler
Paradise of the Blind – Duong Thu Huong
Rilke Shake – Angelica Freitas
Bright-sided: how the relentless promotion of positive thinking has undermined America - Barbara Ehrenreich
Delta of Venus – Anaïs Nin
Sense and Sensibility – Jane Austen
i will never be beautiful enough to make us beautiful together – Mira Gonzalez

2 mánuður
Muminpappans memoarer – Tove Jansson
Norrut åker man för att dö – Ida Linde
What I Loved – Siri Hustvedt
A Summer Without Men – Siri Hustvedt
Days of Abandonment – Elena Ferrante
Bedwetter – Sarah Silverman
Story of O – Pauline Reage
S. A Novel about the Balkans – Slavenka Drakulic
Both Ways is the Only Way I Want It – Maile Meloy

3 mánuður
Everything I Never Told You – Celeste Ng

4 mánuður
En Plastig Trea – Petra Hulova
Tweeting Gone With the Wind – Vanessa Place
Vitsvit – Athena Farrokhzad
Landið sem ekki er til – Edith Södergran
Det här är hjärtat – Bodil Malmsten
Nervsystem – Ýmsir (en las bara konurnar)
Ljósmóðirin – Katja Kettu

5 mánuður
Maya Angelou – I Know Why the Caged Bird Sings
Lena Andersson – Egenmäktigt förfarande
Virginia Woolf – Út í vitann
Anna Axfors – Veckan innan

6 mánuður
Tíst og Bast – Eydís Blöndal
Hvítfeld – Kristín Eiríksdóttir
Wisława Szymborska – Selected Poems
Clarice Lispector – The Hour of the Star
Joyce Carol Oates – The Falls (P.S.)
Þórdís Gísladóttir – Tilfinningarök
Wildlives – Sarah Jean Alexander
Mr. West – Sarah Blake
Sorrowtoothpaste Mirrorcream – Kim Hyesoon

Þjóðasamantekt, að gamni:

Bandarískar: 13 (þá tel ég Anaïs og Siri báðar sem amerískar)
Kanadískar: 1
Víetnamskar: 1
Brasilískar: 2
Finnskar: 3
Sænskar: 4
Íslenskar: 3
Breskar: 2
Pólskar: 1
Danskar: 1
Króatískar: 1
Franskar: 1
Ítalskar: 1
Tékkneskar: 1
Kóreskar: 1



Engin ummæli:

Skrifa ummæli