2. jún. 2015

Sjökvist / Helsinki



Í dag gengum við frá kaupum á þessu húsi við Tangagötu 22 á Ísafirði eftir alls kyns fjármálafimleika og vesen. Við flytjum inn um miðjan ágúst. Mér skilst að húsið sé kallað Sjökvist, því á því séu alls sjö kvistir – í merkingunni „útbygging með glugga út úr þaki húss“ – að meðtaldri súðinni, en það gæti líka verið komið af því að inni í húsinu er óvenju mikið af kvistum í merkingunni „rót af trjágrein, ójafna, hnúskur, e.k. eitill í viði, leif af trjágreinarrót e.þ.h.“, einsog sjá má á þessari mynd:


Sjökvist er auðvitað viðeigandi nafn á hús undir hálfsænska fjölskyldu. En húsið – sem hefur bara í dag verið kallað nöfnunum Blómahúsið, Hvergiland, Helsinki, Pinnahúsið og nokkrum fleirum – er samkvæmt pappírum byggt árið 1898. Málið er samt víst ekki svo einfalt, því það stendur að mér skilst svo gott sem ekkert eftir af því húsi – það var byggt yfir það og kringum það og það svo rifið innan úr. Megnið af þessu húsi er frá áttunda áratugnum – bílskúrinn er samkvæmt pappírum sagður frá 1975, ætli það sé ekki bara best að miða við það. Að vísu er það friðað einsog það hafi verið byggt 1898, vonandi verður það manni ekki fjötur um fót í framtíðinni. 

Ég hef aldrei komið inn í húsið – sendi fólk sem ég treysti til að skoða það, gaumgæfði myndir. En ég þekki það auðvitað mjög vel – Hilmar Magnússon, æskufélagi minn (og formaður Samtakanna '78), bar út á þessum enda götunnar ásamt Árna bróður sínum, en ég átti síðustu húsin og svo Fjarðarstræti og Austurveg, sem þýddi að ég þurfti að ganga þarna framhjá á hverjum einasta degi í nokkur ár. Þar fyrir utan er þetta ekki nema skotspöl frá æskuheimili mínu – ég flutti tvisvar sinnum fyrstu 21 ár ævinnar og það var í bæði skipti á milli herbergja (og í seinna skiptið var ég að flytja til baka í herbergið sem ég átti heima í fyrst). Svo minnir mig að Valur bróðir hafi tekið við blaðburðarúntinum af Árna og Hilmari. 

Það eru liðin 38 ár frá því foreldrar mínir festu kaup á Sundstræti 19 á Ísafirði. Í Morgunblaðinu árið 1981 var gerð dálítil frétt um Ísfirðinga sem voru að gera upp húsin sín – ég rakst á þetta fljótlega eftir að ég uppgötvaði timarit.is (og kannaðist þá við það, líklega eiga foreldrar mínir einhvers staðar afrit sem ég hef séð) og hef oft sýnt fólki þessa hérna mynd af okkur mömmu og pabba fyrir utan húsið (ég veit ekkert hvar Dóra stóra systir mín eða Valur bróðir, sem þá hefur verið eins árs eru):


Ég var eitthvað að delera um íbúðakaupin á Facebook áðan og ákvað að sýna þessa mynd og renndi í leiðinni stuttlega yfir greinina. Þá rak ég augun í næstu grein við hliðina, í sama greinarflokki, og þar má sjá húsið okkar – Sjökvist eða Helsinki, eða hvað við köllum það. Að vísu ekki í aðalhlutverki en það er þarna samt, og fyrir miðri mynd, fyrir miðri opnu, skorið í sundur af síðuskiptum. Einsog það hafi alltaf verið manni ætlað. 



Það er greinilega enn ómálað. Og mér skilst að það þurfi nú að mála það fljótlega núna líka – það bíður vorsins. Húsið þar fyrir aftan, þetta hvíta stóra, er svo hús litla bróður míns og fjölskyldunnar hans – en einsog máltækið segir, þá er hver ber að baki sér nema búi við hliðina á litla bróður sínum. Það vill líka til að hann er laghentur smiður og ég hef í hyggju að breyta bílskúrnum við Sjökvist / Helsinki í skrifstofu og á áreiðanlega eftir að reyna þolinmæði hans gagnvart stóra bróður til hins ítrasta næstu misserin. Það vill til að það er auðvelt að lempa hann með bjór og góðum mat. 


Engin ummæli:

Skrifa ummæli