29. maí 2015

Ljóð um samfélagsleg málefni

Ég eyði þriðja vinnudeginum í röð í að stara á opin skjöl þar sem ég hef skrifað örfá orð – þetta eiga að verða langir fyrirlestrar, alltof langir eiginlega, og sá sem ég þarf að klára fyrst fjallar um ljóðabók sem ég hef enn ekki skrifað nema svona helminginn af: Ljóð um samfélagsleg málefni. Hér er eitt af þeim, „Ljóð um hörmungar“:




Ég á að hafa eitthvað um þetta að segja – og hef það í sjálfu sér, þótt flest sem ég hafi um það að segja sé heldur upphafið og margt af því líklega beinlínis rangt í þokkabót. Til að bæta gráu ofan á svart (gulu ofan á blátt?) þá á ég að flytja (og semja) fyrirlesturinn á sænsku.

Bókin er tilraun í retorík; tilraun til þess að staðsetja sig á tilteknum stað „í umræðunni“ – auga stormsins – og lýsa einfaldlega því sem fyrir augu ber. Eins konar hlutlæg lýsing á hinu huglæga; verkleg æfing í því að orða hluti um hluti, hafa orð á orðunum, lýsa þeim með sjálfum sér í heimi sem er viðstöðulaust upptekinn af textalægri sjálfhverfu (í gegnum tækin okkar lifum við lífinu meira og meira í texta). Ljóð um samfélagsleg málefni samanstendur ekki af textum „um“ texta, þetta er ekki greining, ekki hugsun (þanniglagað), heldur textar þar sem tungumálinu („orðræðunni“) er ætlað að koma í stað sjálfs sín. En samt þannig að það (og hún) afhjúpi sig, birtist okkur ekki sem orðræðan (einsog hún er á Facebook og í aðsendum greinum) heldur eins konar orðræðulíki, kunnugleg en samt furðu fjarlæg. Í hlutföllunum 1:1.

Skiljið þið nú hvað ég á við þegar ég segi að þetta sé bæði rangt og upphafið? Og nú þarf ég bara að læra hvernig ég get sagt þetta á sænsku og teygt það upp í sirka tvo tíma.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli