4. maí 2015

Skekkjan

Ég hef alltaf færri og færri skoðanir. Eða – ég hef í það minnsta á þessum skoðunum færri og færri orð. Deili ýmsu sem mér þykir vel skrifað en hugsa mig vel um áður en ég skrifa neitt (nýtt) sjálfur – eða tek einu sinni almennilega undir. Eyði jafnvel meiri tíma í sniðugheit en góðu hófi gegnir. Samt er internetið eiginlega komið að þolmörkum hvað sniðugheit varðar. Okkur er löngu orðið ljóst að við erum öll mjög sniðug.

Við erum stöðugt að viðra okkur. Margt af því sem við segjum er afar mikilvægt. Margt af því sem er mikilvægt endurtökum við – lífið er einhvers konar fuglabjarg á meðan það varir. Það eru 63 einstaklingar á þingi og 320 þúsund manns í pontu á hverjum gefnum tíma. Að sinna sínum hagsmunum, sínum hugsjónum og sinni sjálfsmynd. Ég er í flóttamanna- og makrílkvótanefnd. Þú ert í kvenréttinda- og fallvatnaráði. Við stimplum okkur inn, látum af okkur vita, því annars hverfum við. Staðfestum þátttöku okkar í lýðræðissamfélaginu og eftir því sem við upplifum okkur máttlausari, eftir því sem heimurinn ryður sér þá leið sem hann kýs sjálfur að fara, án þess að spyrja okkur, því hraðar tölum við, því hærra, því meira. Og allt er það mjög mikilvægt.

Það er einhver skekkja hérna en ég veit bara ekki hvað ég á að gera við hana.


Engin ummæli:

Skrifa ummæli