3. maí 2015

Brecht, upprisan og tómið

Einu sinni bloggaði ég. Og þegar ég segi einu sinni meina ég „í 8 ár“ – þetta myndi fylla margar bækur (og minnst af því prenthæft). Fyrst á blog.central, svo á blogger.com og loks á norddahl.org. Ég bloggaði meira að segja á Smugunni um hríð. Það er allt meira og minna horfið. Ég hélt ég ætti afrit einhvers staðar – þegar ég tortímdi öllu á léninu mínu til að hreinsa út vírus – en svo var víst ekki. Stór hluti þess sem ég skrifaði er inni á Wayback Machine – alls ekki allt – og það er meira vesen að finna eitthvað tiltekið en svo að ég nenni því.

Þetta er kannski ekki einsog að glata handriti – ég tók það talsvert nær mér þegar ég hellti á sínum tíma stórum latté yfir fartölvuna mína með rétt ókláruðu handriti að Hugsjónadruslunni (einmitt um svipað leyti og ég byrjaði að blogga); það reddaðist – en þetta er samt dálítið leiðinlegt. Í tæpt ár las ég til dæmis pólitískar skáldsögur og bloggaði um þær daglega; í nokkra mánuði bloggaði ég einhverju smáræði á finnsku á hverjum degi; ég hélt hversdagsdagbók í líklega 18 mánuði. Á Smugunni (sem er líka horfin) skrifaði ég reglulega um vinnuna við Illsku. Þarna birti ég líka afrit af svo til öllu sem ég skrifaði í aðra miðla.

Fyrstu tvö árin var bloggið öðruvísi en það varð síðar – maður bjóst ekki við því að hver sem er læsi það og því leyfði maður sér að vaða meira á súðum. Einu sinni livebloggaði ég eigin sambandsslitum úr stofunni hjá stelpunni sem dömpaði mér. Ég skrifaði ýmislegt miður geðslegt um fullt af fólki, sem ég hefði áreiðanlega betur látið ógert. Andrúmsloftið var allt annað. Það var ekki búið að finna upp tillitssemina. Í öllu falli var ekki búið að kenna mér að beita henni.

Ætli tillitssemin – og kurteisin – hafi ekki hafið innreið sína á internetið um svipað leyti og moggabloggið? Þegar verstu fávitarnir þar riðu fram á ritvöllinn var auðveldasta leiðin til að skilja sig frá þeim að hætta að blóta og djöflast – þeir eignuðust þar með transgressífari hluta internetsins og eiga hann að mestu enn.

Fyrir nokkrum vikum opnaði ég svo þetta blogg. Ég ætlaði að nota það á svipaðan hátt og Illskubloggið – til að dokumentera eitthvað ferli, í þessu tilfelli meira biðina en sjálfa vinnuna. Ég kláraði sem sagt Heimsku og nú bíð ég. Ég er byrjaður á annarri skáldsögu og bíð*, er langt kominn með nýja ljóðabók og bíð og er alltaf að lofa sjálfum mér að ég muni einn daginn klára matreiðslubókina sem ég byrjaði á veturinn 2012-2013 – ég skrifa auk þess eitt og annað, á grein um Víetnam í næsta TMM og þarf að skrifa að minnsta kosti tvo fyrirlestra fyrir ráðstefnur í sumar  – annan með yfirskriftinni „skipulag/röð hlutanna“ – á sænsku – og hinn á ensku með yfirskriftinni „changing the world through writing“ – ég finn ekki upp á þessu sjálfur. En ég bíð.

Ég mun sjálfsagt halda áfram að minnast á Heimsku af og til en ég hef annars komist að þeirri niðurstöðu að það borgi sig ekkert að segja of mikið um þessa bók. Hún verður eiginlega bara að fá að útskýra sig sjálf. Hún er ekki einsog Illska – hún tekur einfaldlega ekki endalaust við.

Ég ætla sem sagt samt að blogga hérna. Vonandi daglega. Í dag ljúkum við þessu á ljóði – fyrir bloggið, fyrir Heimsku og fyrir alla mína þýskumælandi lesendur.

Bertolt Brecht, dömur mínar og herrar.

Den Nachgeborenen

Ich gestehe es:
Ich habe keine Hoffnung.
Die Blinden reden von einem Ausweg.
Ich sehe.
Wenn die Irrtümer verbraucht sind
Sitzt als letzter Gesellschafter
Uns das Nichts gegenüber.

Ef lesendur eiga íslenska þýðingu af þessu má endilega birta hana í kommentakerfinu.

* Skáldsagan gengur undir þremur vinnutitlum: Níska, Handtaska og Sjálfstæðisbaráttabaska. (Djók!) 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli