1. jan. 2017

Árið 2017

Það er að verða búinn einn dagur. 364 eftir, held ég, nema það sé hlaupár. Sem minnir mig á að ég missti af hlaupsekúndunni í gær.

Það er eitt og annað komið á dagskrá. Á memberberries-dagskrá eru Guns N' Roses tónleikar í Finnlandi á afmælinu mínu. Á nýmóðins dagskrá er ferð með Nödju til San Francisco í ágúst. Þess utan er ég bókaður í að minnsta kosti þrjár ferðir til útlanda – tvær til Noregs og eina til Frakklands. Mér er svo alveg óhætt að reikna með einhverjum fleirum Frakklandsferðum, sennilega einni Bretlandsferð og ábyggilega líka einni Grikklandsferð (Illska er alveg að koma út á grísku). Vonandi sigrast ég á myglunni. Og hvað fleira? Svíþjóð og Finnland í sumar. Hugsanlega skottúr til Austurríkis eða Danmerkur, eftir aðstæðum.

Í vor kemur svo ljóðabók – Óratorrek - ljóð um samfélagsleg málefni – ef ekki fer svo ósennilega að ég ákveði að mig langi frekar að vera með jólabók. Það er samt eiginlega alveg óhugsandi. En ég er mikið búinn að hugsa um hvernig mig langi að gefa bókina út. Mest langar mig að fara á túr um landið og lesa upp allan hringinn, einhvern tíma í vor. Ég hef ekki einu sinni farið hringveginn. En það er fullmikil framkvæmd (ég er byrjaður að skrifa annað og ferðast víst annars nóg) og ósennilegt að það sé gaman lengur – að stíga inn í túristasirkusinn. Þá gæti maður kannski allt eins farið til Benidorm. En mér finnst ástæða til að gera eitthvað almennilegt til að fagna bókinni – til að undirstrika útgáfuna. Það fór mikil vinna í hana – hún er massíf á alla kanta – og mér finnst að útgáfunni verði að fylgja einhver þyngd. Óratorrek er mér mikilvæg.

Áramótaheitin


Áramótaheit númer eitt er að leyfa mér að hafa sjálfstæðar og afdráttarlausar skoðanir á hlutunum. Það byrjaði svo vel að í gær lýsti ég því yfir að mér hefði þótt Skaupið léleg – sem er þó varla jaðarskoðun, einu sinni á góðu ári – og hef þurft að verja þá skoðun viðstöðulaust í hartnær sólarhring af því ég sé „fýlukall“. Kannski er þetta vonlaus afstaða nema maður þegi þá bara yfir skoðun sinni. Og kannski er það vandamálið við neikvæðar skoðanir á listaverkum almennt – það er svo þreytandi að hafa þær, það þarf að verja vanþóknun miklu meira en velþóknun. Stuttur pistill um hvað skaupið hefði verið frábært hefði ekki kostað mann neitt nema nokkur hi-fives. En þetta væri varla áramótaheit ef það væri létt. Einu sinni var ég duglegri við þetta – en sennilega þreyttist ég einmitt bara. Og hugsanlega höfðu félagsmiðlar þar eitthvað að segja. Varaáramótaheit númer eitt er að hætta á félagsmiðlum.

Áramótaheit númer tvö er að lesa a.m.k. eftirtaldar kanónubækur, sem ég hef (að mestu) ekki lesið áður (ég byrjaði rétt fyrir jól):


  • Ódýsseifur í þýðingu SAM (byrjaður)
  • Ismail Kadare – Hershöfðingi dauða hersins
  • Orlando – Virginia Woolf (í væntanlegri þýðingu Soffía Auðar, ég hef lesið orginalinn)
  • Gunnar Gunnarsson – Fjallkirkjan
  • Tolstoj – Anna Karenína / Stríð og friður
  • Perec  – My Life
  • Herta Müller – Ennislokkur auðvaldsins
  • Karen Blixen – Out of Africa
  • Smásögur Flannery O'Connor
  • Smásögur Alice Munro
  • Thomas Mann – Töfrafjallið
  • Ferrante – a.m.k. fyrstu bókina í fjórleiknum (hef annars bara lesið Days of Abandonment)
  • Robert Musil – Mann ohne eigenschafte (sennilega á ensku, annars sænsku)
  • Emily Bronte – Wuthering Heights
  • HKL – Sjálfstætt fólk
  • Svetlana Aleksevitsj – Secondhand Time
  • Dickens – Tveggja borga saga (í væntanlegri þýðingu Þórdísar Bachmann)
  • Sjón – Codex 1962 (búinn með fyrstu en ætla að endurlesa hana)
  • Breton – Nadja
  • Jakobína – Í barndómi
  • Roberto Bolaño – 2666
  • Stefan Zweig – Veröld sem var (búinn)


Áramótaheit númer þrjú er fjárhagslegs eðlis. Útfærslan er ekki alveg ljós – sennilega gef ég mér fyrsta mánuðinn til að sníða af því agnúana ef einhverjir reynast. En í grundvallaratriðum snýst það um að eyða ekki meira en þrjú þúsund krónum í sjálfan mig í einu. Hvað „í einu“ þýðir er auðvitað teygjanlegt. Sem og raunar „sjálfan mig“. En ég ætti þá t.d. að geta keypt nýja strengi í gítarinn ef þeir slitna en ekki nýjan gítar ef hann brotnar. Ég get farið út að borða – en það er takmarkað hvert og hvað ég get fengið mér. Á þessu verður a.m.k. ein undantekning – ég ætla að kaupa mér skíðakort (ef það verður þá skíðafært í vetur) og hugsanlega endurnýja ég kortið í ræktina í haust. Bæði er dýrara en þrjú þúsund krónur. Sennilega geri ég líka einhverjar undantekningar með Nödju – t.d. er ekkert óhugsandi að við förum dýrara út að borða á 10 ára brúðkaupsafmælinu okkar í ágúst. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli