30. des. 2016

Árið 2016 – seinni hluti

Hálfárið – það er að segja seinni hluti ársins sem er að líða – hófst á nýjum hatti. Ég á afmæli 1. júlí og fékk nýjan kúluhatt frá Nödju af tilefninu – Stetson að þessu sinni, það er sama tegund og fyrsti hatturinn minn og fyrsti Stetsoninn frá því ég var 27 ára (og skipti yfir í Derby Country Gentleman). Ég fór síðan í tívolí, í alla rússíbanana með Aram, og nepalskt út að borða með fjölskyldunni.

Tyrkland – Grikkland


Fjórum dögum síðar flaug ég aftur til Istanbul. Þá voru liðnir sex dagar frá árásinni á Atatürk-flugvöll. Og mér stóð eiginlega ekki alveg á sama. Enda kom það á daginn að í Istanbul gerði það engum heldur. Stemningin var allt önnur en í fyrri ferðinni og fólk allt á nálum. Í fyrra skiptið var að vísu eitthvað rætt um að vegna Erdogans væri ekki hægt að bjóða hverjum sem er á bókmenntahátíðir sem hlytu styrk frá ríkinu – bæði kæmu andófsskáld ekki og svo væri ekkert ósennilegt að allt fjármagn glataðist. Einn sagðist þekkja vel til máls þar sem nokkrir menn höfðu tekið við hátíð sem látinn lærifaðir þeirra hafði rekið um árabil og þetta hefði komið upp – þeim hefði verið tilkynnt að annað hvort afturkölluðu þeir tiltekið boð eða þeir misstu peningana. Í því tilviki gáfu mennirnir sig – og þá með þeirri afsökun að þetta væri ekki hátíðin þeirra og þeir væru ekki í neinum rétti með að steyta henni á skeri út af prinsippmálum.

En nú var stemningin sem sagt verri. Innlend skáld vildu alls ekki spóka sig á klassískum túristasvæðum með hópi vestrænna útlendinga – það væri einsog að líma skotmark á bakið á sér. Stemningin var kannski ekki alveg jafn ofsafengin og þegar ég var í Frakklandi nokkrum dögum eftir Bataclan-árásirnar – en hún var líka langþreyttari. Einsog það hefði nú þegar gengið alltof mikið á frekar en að þessi árás á flugvellinum væri einhver tíðindi í sjálfri sér. Þrátt fyrir þetta skemmtum við okkur nú ágætlega – kannski ekki síst við útlendingarnir.

Í þetta sinnið var ég kominn til að hitta hóp af skáldum og ferðast með þeim í rútu frá Istanbul til Þessalónikku og lesa upp á leiðinni. Rútan hafði lagt af stað frá Helsinki einhverjum mánuðum fyrr og skipt um áhöfn vikulega. Þetta var næstsíðasti leggurinn en sá síðasti færi frá Þessalónikku til Kýpur. Mér skilst á þeim sem mættu á þessa viðburði í hinum ýmsu löndum að skipulagningu hafi að mörgu leyti verið áfátt – þótt það hafi líka verið upp og ofan. Skipulagning var alla jafna í höndum heimamanna. Í Tyrklandi var hún satt að segja hlægileg.

Í Istanbul vorum um það bil fimmtán manns sem lásum upp í herbergi á stærð við meðalgóða borðstofu. Það voru að mig minnir þrír gestir í þessari fimmtu stærstu borg veraldar. Já og svo var búið að ráða töframann. Kýpverjarnir sem voru yfir túrnum höfðu hafnað öllum hugmyndum um töframann. Tyrkinn sem sá um skipulagningu innanlands sagði já, jæja, ok, það verður þá enginn töframaður og endurskírði viðburðinn einfaldlega „Literary illusions“. Skemmst er frá því að segja að það var ekki gerð minnsta tilraun til þess að bókmennta þessi töfrabrögð neitt upp – hann var bara að festa og leysa bönd í sundur, já og svo drap hann í sígarettu á bindi danska skáldsins, sem var lítið skemmt. Einhver orðrómur gekk um að töframaðurinn væri atvinnulaus frændi skipuleggjandans – því hann var eiginlega ekki mjög sannfærandi töframaður heldur – en hann fékkst aldrei staðfestur.

Ein áhugaverðasta minningin frá Istanbul er síðan úr kvöldsiglingu á Bosporussundi. Þar var boðið upp á vín – sem Tyrkir kunna lítið að fara með; það hneykslaði Grikkina í ferðinni ólýsanlega mikið að fá stofuhlýtt hvítvín – og snittur á meðan við sigldum upp sundið og niður. Þegar við vorum að koma til baka og allir, að meðtöldum Tyrkjunum, voru komnir dálítið við skál og byrjaðir að dansa stoppuðum við fyrst asíumegin. Og þarna þar sem við kokteilspókuðum okkur og hlustuðum á Hotel California á fullu blasti, einsog við værum komin á seinnihluta grísaveislu á Costa del Sol árið 1991, byrjuðu bænaköllin í moskunum að blandast tónlistinni. Ég kann ekki að lýsa tilfinningunni – og kannski vil ég bara ekki hefja neinar klisjukenndar ræður um „mót menningarheima“ – þið hafið aðstæðurnar, annað hvort skiljið þið hvað ég á við eða ekki.

Næst fórum við til Tekirdag þar sem við lásum upp fyrir Lionsklúbbinn. Það var ekki síður áhugaverð upplifun. Áhorfendur voru nokkru fleiri en í Istanbul og eftir upplesturinn vildu þeir allir láta taka af sér mynd með okkur. Okkur hafði skilist að við þyrftum að vera lögð af stað fyrir einhvern ákveðinn tíma til að ná að landamærunum í tæka tíð – því við áttum svo kvöldverðardeit við hóp af listamönnum í Kavala, Grikklandsmegin. Okkur var líka í mun um að ljúka þessum kurteisisatlotum af hið fyrsta því við vildum komast í göngutúr um bæinn áður en við þyrftum að fara. En þegar við ætluðum að fara í göngutúrinn kom skipuleggjandinn og tjáði okkur að við þyrftum að fara að sjá safn nokkurt – hann hefði lofað að við myndum koma og það væri dónaskapur að mæta ekki. Svo við fórum aftur upp í rútuna, pínu vonsvikin, og brunuðum á safnið. Þegar þangað var komið sagði skipuleggjandinn að við ættum að vera komin aftur eftir fimm mínútur. Við hváðum – og hann endurtók, fimm mínútur, bara inn og út. Við hlupum af stað inn á safnið – þar vorum við beðin um að pósa einsog við værum að skoða safnið á meðan teknar væru af okkur myndir. Sem við gerðum, enda kurteis og vel upp alinn og sennilega að drepast úr meðvirkni. Þegar við komum aftur í rútuna grínaðist ég með að nú færum við sennilega á annað safn. Sem stóð heima. Áður en yfir lauk höfðum við rúntað um öll helstu söfn bæjarins – sex eða sjö talsins – og látið taka myndir af okkur þar sem við þóttumst skoða alls kyns handverk og menningu (ég myndi hafa um söfnin fleiri orð ef ég myndi hvað var þar að finna – en þetta voru of miklar leifturheimsóknir til að nokkuð sæti eftir). Og þá var loks haldið til Kavala.

Skipulagningin Grikklandsmegin var talsvert betri og því færri áhugaverðar sögur. Þótt Tyrkneskur matur sé góður – og að mörgu leyti svipaður og Grískur – þá eru Tyrkir meiri hedónistar og á tímabili leið mér einsog nú ætti að drepa okkur með mat og drykk. Við fengum þess utan góðan tíma til að skoða bæði Kavala og Þessalónikku og í Kavala héldum við okkar eigin lesstofu á hótelinu, þar sem við kynntum hvert fyrir öðru hluta af höfundaverki okkar – ég talaði um og las úr Óratorreki. Það var ótrúlega fínt kvöld, þótt þetta sé auðvitað líka mjög lúðalegt, ljóðskáld að lesa hvert fyrir annað og ræða verk sín í einrúmi og einlægni. Í Þessalónikku hittum við síðan hópinn sem tók við af okkur og lásum með stórum hópi fólks – og fyrir mjög stóran hóp fólks – á útisviði í miðbænum.

Örfáum dögum eftir að ég kom aftur til Svíþjóðar var svo valdaránstilraunin í Tyrklandi. Ég vakti fram á nótt og spjallaði við vinkonu mína, tyrkneskt ljóðskáld, á Facebook. Það kom mér á óvart hvað fólk var tilbúið til að trúa hverju sem er upp á Erdogan – svo sem einsog að hann hefði fundið upp á þessu öllu sjálfur, sviðsett eigið valdarán, til þess að hafa afsökun fyrir því að sölsa sig undir sig enn meira vald. Hvað sem öðru líður, sannleikanum um það, þá hefur hann notfært sér ástandið til að gera einmitt það. Og það segir sitt um þjóðhöfðingja að óbrjálaðir þegnar hans skuli óhikað trúa slíku upp á forseta sinn. Mér heyrist fólk núorðið bara lifa í viðstöðulitlum ótta.

Rafmagnsgítarinn

Áramótaheitið mitt í fyrra var að kaupa mér rafmagnsgítar og læra að spila Appetite for Destruction. Ég var duglegur í Svíþjóð að heimsækja hljóðfæraverslanir og skoða gítara. Ég spilaði lengi á gítar þegar ég var unglingur en hef lítið snert hljóðfæri síðustu 15-16 árin, sérstaklega ekki rafmagnsgítara. Í fyrra var mér boðið í tíu ára brúðkaupsafmæli vina minna og þar var ég látinn spila á gítar í hljómsveit – örfá lög – og þá byrjaði löngunin að láta á sér kræla aftur. Ég vildi samt ekki eyða neinum ægilegum fjárhæðum í þetta ef ske kynni að þetta væri bara della sem liði svo hjá. En var hræddur um að ég væri einfaldlega of góðu vanur til að kaupa mér einhvern byrjendagítar. Á endanum keypti ég Epiphone SG PRO fyrir um 40 þúsund – óvenju gott eintak. 


Skemmst er frá því að segja að ég hef verið mjög duglegur að spila á hann og hef lært margt fleira en bara Appetite. Ég spila ekkert einsog neinn atvinnumaður en ég er samt bærilega lipur og á alveg mín móment. Og mér þykir mjög vænt um SG-inn minn. 

Í ágúst komum við svo heim og byrjuðum eiginlega á því að fara í útilegu. Nadja hafði aldrei komið á sunnanverða Vestfirðina svo við brunuðum þangað – skoðuðum Dynjandi, Skrímslasafnið (sem er magnað), fórum á Uppsali og í Selárdal að skoða verk Samúels Jónssonar. Gistum svo í tjaldi á Bíldudal. Daginn eftir keyrðum við út á Rauðasand, skoðuðum byggðasafnið og flugvélaflakið á Hnjóti, fórum í sund á Birkimel og átum kvöldmat í Flókalundi áður en Nadja – sem er með æfingaleyfi – keyrði heim yfir heiðarnar í blindaþoku. 



Við vorum rétt komin heim þegar okkur barst heimsókn frá Svíþjóð – tveir æskuvinir Nödju, sem hafa verið saman frá því að þau voru börn, og börnin þeirra. Með þeim fórum við í Skálavík og upp á Bolafjall (í svartaþoku) og á Ríkharð III í kirkjunni á Suðureyri. Það var ekki síður skemmtilegt. 

Myglan

Hér myndi ég skrifa langa sögu um baráttu mína við mygluna í bílskúrnum og mygluna undir eldhúsvaskinum, mælingar heilbrigðiseftirlitsins, alls kyns ofnæmispróf og læknisheimsóknir, það þegar ég reif upp allt eldhúsgólfið, henti því og flotaði gólfið, það þegar ég byggði millivegg í bílskúrnum (ég er álíka laghentur og meðal-lindýr) eða lét múra í veggina. Eða kannski eitthvað um lyfin sem ég hef tekið – eða brjálæðisköstin, vanmáttinn. En ég er bara búinn að segja þá sögu svo oft síðasta árið að ég hreinlega nenni því ekki. Þið verðið bara að ímynda ykkur þetta út frá þessum stikkorðum. Ég get kannski bætt því við að ég er sá eini sem finn fyrir þessu – og hef sennilega fengið þetta óþol af því að vera mikið í bílskúrnum (þar sem ég kom mér upp skrifstofu) – þar sem myglan er miklu meiri en inni í húsinu. Og nú er ég hættur að vera í húsinu allan sólarhringinn, einsog áður. 

Haustið

Ég ætlaði að skrifa eitthvað um að haustið hefði liðið í rólegheitum. Eftir tíðindasamt ár var ég farinn að hlakka til þess að eiga ótruflaða haustmánuði til að skrifa. En myglan sem sagt kom í veg fyrir það. Haustið fór meira og minna í mygluna. Það voru samt rólegheit þarna inn á milli. Ég var duglegur að fara út að hlaupa og gera jóga og sinna fjölskyldunni. Í október var kosið. Ég kaus rétt en það gerðu ekki nógu margir. Ég man ekki hvort ég fór neitt – sennilega var ég bara mestmegnis heima. Og eitthvað skrifaði ég nú. Ég lagði lokahönd á Hvítsvítu-þýðinguna og í nóvember kom Athena – höfundurinn og vinkona mín – til landsins. Við lásum upp í Reykjavík, á ljóðakvöldi sem væri bæði vel sótt og þótti óvenju vel heppnað (það voru sennilega 14-15 skáld að lesa, hvert öðru betra og breiddin mikil). Við sátum fyrir svörum í Norræna húsinu. Og svo keyrðum við saman vestur, ásamt ungbarni hennar, manni og vinkonu, þar sem við lásum upp í Skúrinni á Ísafirði með félögum í Ós-hópnum. Það var allt saman dásamlegt, þótt veðrið hefði að sönnu mátt leika meira við ferðamennina. 

Í nóvember kom síðan Heimska út í Svíþjóð og fékk í sem stystu máli frábæra dóma (hún er líka að koma út í Frakklandi og hefur þegar fengið afar jákvæðar viðtökur – og er ekki einu sinni komin út). Það var talsverður léttir, því hún kom alls ekki svo vel út úr krítíkinni hérna heima. Gauti Kristmanns virtist beinlínis reiður yfir henni í Víðsjá – vitnaði í hana hér og þar og spurði með þjósti hvort þetta ætti að vera fyndið, eða kannski gáfulegt? Sem er allt í lagi, fólk má og á að láta bókmenntir fara í taugarnar á sér ef þær gera það. En ég er líka þakklátur fyrir að eiga ekki allt mitt undir þessari litlu eyju og takmarkaðri fagurfræðinni sem þar ríkir. 

En þegar bókin kom út fór ég sumsé í smá túr sem byrjaði hjá Finnlands-svíum í Ekenäs. Í Stokkhólmi var mér boðið með í málsverð hjá PEN-samtökunum. Hann var haldinn í heimahúsi í blokkaríbúð og var til þess að hitta móður Asli Erdogans, rithöfundar sem sat í fangelsi í Tyrklandi frá því í júlí og þar til í gær. Hún var komin til Svíþjóðar til að taka á móti Tucholsky-verðlaununum fyrir hönd dóttur sinnar. Í Malmö tók ég svo örlítinn þátt í uppákomu á degi hinna fangelsuðu rithöfunda. Þetta helgast ekki síst af því hve virkur útgefandinn minn (og góðvinur) er í réttindabaráttu fyrir tjáningarfrelsi.

Frá Malmö fór ég til Kaupmannahafnar þar sem ég hitti vin minn, Martin Glaz Serup, og við flugum saman til Vínarborgar til að hitta vin okkar, Jörg Piringer. Við þrír vorum allir í rútunni frá Tyrklandi til Grikklands og höfðum þar kokkað upp verkefni sem við vorum mættir til að framkvæma. Ég náði ekki að sjá neitt af Vín – og hef aldrei séð hana áður – vegna þess að við sátum meira og minna allan tímann inni í lítilli íbúð í úthverfi borgarinnar og hömuðumst við að berja saman bók. Það náðist ekki en við erum samt komnir með nokkuð góðan grunn til að vinna með og ætlum að hittast aftur á næsta ári. 

Vetur

Það kom svo aldrei vetur. Hann er varla kominn enn. Hefur ekki sést nema augnablik og augnablik, í mesta lagi. Svo kemur haustið aftur. Eða kannski smá vor. Stundum finnst mér vera mjög vorlegt. Hvað um það. 

Um miðjan nóvember gerðust tvær breytingar í lífi mínu. Annars vegar fékk ég skrifstofu úti í bæ – í gamla útvarpshúsinu. Það er orðið ansi mikið af sjálfstætt starfandi listamönnum og handverksfólki í miðbænum. Hinumegin við vegginn frá mér er Gunnar Jónsson, myndlistarmaður, og í næsta herbergi við hann er Elísabet frænka hans, arkitekt og umsjónarmaður Listasafns ASÍ (galleríið sem þau reka, Úthverfa, er líka í sama húsi). Á efri hæðina er residensía þar sem eru yfirleitt 1-2 erlendir gestalistamenn. Á ská hinumegin við götuna er systir mín með Klæðakot ásamt vinkonu sinni. Systir mín hannar Dórukotsvörurnar. Beint á móti henni er svo skraddarinn, sem mér skilst að hafi svo mikið að gera að ætli maður að fá hjá honum jólagjafir næsta árs sé best að panta þær núna. Ég hef reyndar ekki þorað inn til hans. Ég er svag fyrir svona fötum og svo selur hann líka hatta. Aðeins ofar við götuna, í gömlu Björnsbúð, er svo Gústi ljósmyndari með stúdíó og inn af honum er Kjartan arkitekt með kontór. Við hliðina á Hamraborg er Gamla skóbúðin, sem nokkurs konar sagnasafn, skilst mér, og á efri hæðinni þar situr Baldur Páll og forritar (en hann tekur reyndar líka ljósmyndir). 

En nú rak mig af leið. Hitt sem breyttist í lífi mínu var að ég fékk mér kort í ræktina. Það eru tæplega fjögur ár síðan ég byrjaði að hreyfa mig eitthvað af viti (það var eitt af því sem gerðist í skilnaðarkvíðanum 2013, það var nú meira árið) en ég hef aldrei verið í ræktinni. Ég fór fyrst á hlaupabretti á ævinni á hóteli í Uskudar í Tyrklandi snemma síðasta ár, bara af því það virkaði alveg vonlaust að ætla út í hlaupatúr. Hlaupabrettið var reyndar í loftlausri kjallarakompu þar sem var svo lágt til lofts að ég þurfti að gæta mín til að reka ekki höfuðið upp undir – og lét það duga mér sem reynsla í þeim bransa fram í nóvember, er ég fór inn í Stúdíó Dan í fyrsta skiptið síðan þar var haldið streetball mót snemma á tíunda áratugnum. Nú fer ég þangað flesta daga vikunnar þegar ég er í bænum – og hef þess utan sótt líkamsrækt í þremur öðrum löndum. 

Sennilega gerðist svo ekki margt fram að jólafríi. Nema vinna. Ég er mjög sáttur þegar því er þannig háttað, þegar ég fæ ró og næði – og get stundum staðið mjög frekjulegan vörð um ró mína og næði, ef þeim er hótað. Haukur Magg er kominn tímabundið heim frá Bandaríkjunum og við náðum að hittast einu sinni ærlega áður en ég fór – ég leyfði honum að raska ró minni. Það var hressandi. Bubbi fékk líka að raska ró minni eina kvöldstund – ég fór á Þorláksmessutónleika og sat svo með honum dágóða stund á eftir, þar sem við spjölluðum og hann las úr væntanlegri ljóðabók fyrir okkur félaga mína. Maður ætti auðvitað að hafa sem fæst orð um listaverk sem maður hefur séð lítið af – og eiga jafnvel eftir að breytast mikið áður en þau koma út – en af því litla sem ég heyrði er Bubbi að gera allt rétt. Eftir Bubba skutumst við Smári síðan á miðnæturheimsfrumsýningu á Rogue One. Bubbi og Star Wars er rokna tvenna sem rúmast varla á einu litlu kvöldi.  

Við fjölskyldan eyddum jólunum í Rejmyre hjá mágkonu minni. Þau voru óvenju íslensk. Ég tók með mér fyrirtaks lambalæri sem Smári vinur minn gaf mér áður en ég fór. Nadja hafði tekið með sér laufabrauð sem við steiktum og skárum út heima hjá Smára og Siggu ásamt fleira vinafólki. Þá tók ég líka með mér grænar baunir frá Ora (sem mér var sagt í dag að væru alls ekki óþekktar í Finnlandi á jólum, en þykja mjög framandi og lúðalegar í Svíþjóð), rauðkál og átta dósir af jólaöli. Þetta átum við ásamt með finnskum ofnréttum, kjötbollum og Janssons Frestelse á aðfangadag. Á jóladag átum við restina af hangilærinu með uppstúf í tartalettum – ég tók svo dálítið af reyktum laxi og plokkaði hann ofan í sams konar ílát, fyrir þá sem borða ekki kjöt. Á annan í jólum eldaði ég síðan kalkún og fann upp á fyllingunni sjálfur – hún var með perum, brauði, þurrkuðum eplum, lauk, sellerí og einu og öðru góðgæti. Nadja fékk sósu sem ég bakaði upp úr kirsuberjaserríi, leifar af vego-kjötbollum og fyllingu sem snerti aldrei fuglinn. Ég gerði líka sósu upp úr kalkúnasoði og rjóma og þær kláruðust báðar fáránlega fljótt. Kalkúnaleifarnar enduðu síðan daginn eftir í rjómasósu með pasta. 

Yasuragi og Mariella


Jólagjöfin mín frá Nödju var síðan nótt á Yasuragi spa-hótelinu í úthverfi Stokkhólms. Þar fórum við í japönsk böð, sánur og heita potta, stunduðum jóga, Qi Gong, Do In og Zen hugleiðslu, smurðum okkur með kremum og átum fjórréttað á lúxusveitingastað. Þetta var alveg fullkomlega sturlaður staður. Allir þarna inni gengu líka um í alveg eins baðsloppum – líka á veitingastaðnum – sem maður fékk að eiga. Sem gaf þessu dálítið fíling einsog maður væri genginn í költ. Eina fólkið sem ég sá sem var ekki í svona slopp voru líka einu asíubúarnir á svæðinu. Þetta var allt mjög hvítt og flest fólkið þarna var sennilega margföldum tekjum á við okkur plebbana. Mér finnst ósennilegt að ég færi aftur á svona stað – þótt þarna sé ekkert mér á móti skapi, ég hef mjög gaman af allri svona leikfimi og hef alltaf haldið upp á vellíðan, enda sjálfskilgreindur hedónisti – og raunar ósennilegt að ég hefði efni á því, þetta er mjög grand jólagjöf. En þetta var sem sagt bæði fáránlega skemmtilegt og fáránlega áhugavert. Og alveg súrrealískt að stíga aftur út í raunveruleikann. 

Daginn eftir, sem var sennilega í gærmorgun – þegar við vorum búin í allri japönsku leikfiminni – hittum við börnin okkar aftur við höfnina, þangað sem móðurafi þeirra skutlaði þeim. Svo fórum við með Viking Line ferjunni Mariellu til Helsinki. Ég vann einu sinni við þrif á þessum bátum. Helsinkimegin – við sigldum ekkert, stigum bara um borð í höfninni og unnum í tvo tíma. Þá var ég eini hvíti maðurinn í tæplega 100 manna starfsliði en farþegarnir meira og minna hvítir og talsvert af ungu fólki í partíferðum. Þetta hefur breyst talsvert síðan þá. Í dag á áreiðanlega meirihluti farþeganna rætur að rekja út fyrir Evrópu (eða Norður Ameríku). Sérstaklega er mikið af finnskumælandi fólki með afrískar rætur. Sennilega segir þetta eitthvað um breytta samsetningu verkalýðsstéttarinnar á norðurlöndum. Ferjurnar eru ódýrasti ferðamátinn hérna á milli – og það er líka Duty Free – og þar er boðið upp á heiðarlegustu verkamannaskemmtun í heimi. Töframenn, boltasundlaugar, diskótek, ódýrt áfengi, (auðvelt) kviss og spilakassa. En mér datt líka í hug að ef til vill hefði sú staðreynd að svo margir innflytjendur unnu á bátunum spilað rullu í þessu öllu saman – að það hefðu hreinlega myndast einhver tengsl á þessum 15 árum sem liðin eru frá því ég vann þarna. Að báturinn væri raunverulegri valmöguleiki en margt annað. 

Að vísu var báturinn engum vinsamlegur þegar ég vann þarna. Bæði voru launin fyrir neðan allar hellur og svo þurftum við yfirleitt að fara í gegnum harða tollskoðun á leiðinni í land – úr vinnunni – þar sem við vorum spurðir hvenær við hefðum komið og hvenær við ætluðum að „fara heim“. Yfirvarpið var að það væru svo miklar líkur að við myndum reyna að smygla einhverjum flóttamönnum í land (þetta er 2001). Þessi vinna er enn rosalegasta reynsla af grófum, kerfislægum rasisma sem ég hef upplifað sjálfur (og það var ekki gerð mikil undantekning fyrir mig – sennilega bara gert ráð fyrir að ég væri ljós norður-afríkumaður, eða álíka, a.m.k. þar til passinn kom í ljós, því við þurftum auðvitað alltaf að vera með passann í vinnunni). Á meðan túristunum var hraðað í land í gegnum mörg tollhlið stóðum við allir í beinni röð við eitt einasta tollhlið – a.m.k. þar til búið var að landa túristunum – og okkur var gert að stimpla okkur út áður en við fórum í röðina. Einn daginn, þegar ég var að ganga út á lestarstöð í úthverfinu mínu – lengst úti í rassgati – fór ég að reikna út hvað ég fengi í raunveruleg laun fyrir þessa vinnu. Það tók mig klukkutíma að komast í vinnuna og klukkutíma að komast heim, launin voru fáránleg, og svo var maður klukkutíma í röðinni til að komast út úr bátnum. Þannig að það fóru alls fimm tímar í að fá greitt vond laun fyrir tveggja tíma vinnu. Ég sneri við á staðnum – enda hafði ég efni á því, á svona vinnustað vinnur enginn nema vegna þess að hann gæti orðið svangur. Hvítur, norrænn strákur verður aldrei svo svangur. 

Og á morgun er síðan gamlársdagur. Við erum í Finnlandi og erum eiginlega alveg planlaus. Við ákváðum bara að við vildum vera hérna. Gistingin reddaðist ekki fyrren í gær. En þetta er gott. Helsinki er alltaf dálítið heima. 

---

Ég hendi sennilega í eina færslu fyrir næsta ár – nýtt áramótaheiti og svoleiðis. Vonir og væntingar. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli