13. sep. 2016

Stjörnurnar dvína
og verðlauna mig ekki
einu sinni þegar ég vinn. 
Það er hægt
að skjóta mann
í sjálfsvörn
og taka samt eftir því
hvernig rautt blóð hans
prýðir snjóinn. 

Audre Lorde – Aðskilnaður

Ég gleymdi að birta ljóð í gær. Gleymdi að vitna í ljóð. Það var alger skylda. En ég brást. Einsog maður bregst. 

Í gær var matarboð. Sænska ljóðskáldið Jenny Tunedal var í bænum ásamt tveimur vinkonum sínum – og auk þeirra bauð ég tveimur listamönnum úr residensíunni hennar Elísabetar Gunnars, franskri myndlistarkonu og hollenskum víóluleikara, og auðvitað Elísabetu sjálfri. Ég gaf þeim hefðbundið íslenskt myntukúskús með halloumi. Og fleiri vínflöskur en nokkrum er hollt að innbyrða á mánudegi. 

Eftir vinnu í dag ætla ég að halda áfram að byggja vegginn í bílskúrnum. Og á morgun held ég áfram að segja sögu Nýhils, ef ég man hvað gerðist næst eftir að ég keypti heftarann óspjallaða. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli