12. sep. 2016

Ég er að reisa vegg. Mér finnst talsvert til mín koma að ég skuli reisa vegg. Ég hef ekkert smíðað síðan í grunnskóla. Og nú nýt ég þess augljóslega að litli bróðir minn er smiður og á heima í næsta húsi – bæði upp á allar leiðbeiningar að gera en ekki síður að fá lánuð verkfæri.

En hvað um það. Áfram með smjörið.

Saga Nýhils: annað brot brotabrots brotabrotabrots


Þetta er heftarinn. Hann keypti ég í Eymundsson á Austurstræti, nema ég hafi keypt hann í BMM á Laugavegi 18. Hlutverk hans var og er að framleiða bækur. Við Haukur Már höfðum áður framleitt bækur sjálfir – við fjölrituðum þær á ónefndum vinnustað þar sem annar okkar hafði lyklavöld, brutum saman og heftuðum frá miðnætti og fram í morgunsárið, áður en annað fólk mætti til vinnu. Þetta finnst mér til fyrirmyndar, þótt þetta hafi verið óvart – eða vegna þess að það hentaði – því auðvitað eru bókmenntir og bókaútgáfa myrkraverk. Það gerist ekkert á daginn nema föndur og saklaust grín. Þessar bækur sem við fjölrituðum á ónefnda vinnustaðnum seldum við síðan við Laugaveg. Við tókum með okkur tóman ölkassa, skiptumst á að standa uppi á honum og lesa hátt og snjallt á meðan hinn seldi. Ég man eftir að hafa orðið alveg gersamlega yfir mig fornermaður þegar Sigurður Pálsson strunsaði hjá án þess að einu sinni virða okkur viðlits. 

En svo misstum við aðgang að þessum ónefnda vinnustað og þá voru góð ráð dýr. Sérílagi í ljósi þess að nú vorum við búnir að stofna forlag, búnir að stofna listaverkaverksmiðju. Ég man ekki hvað heftarinn kostaði en það var sennilega á við um tvö kvöld á barnum. Ég gekk lengi um gólf inni í búðinni – horfði á Hauk og spurði aftur og aftur hvort ég ætti í alvöru að láta af þessu verða – og sveið svo í veskið lengi á eftir. Ég var hrikalega blankur. Þennan vetur seldi ég alla geisladiskana mína í einhverri safnarabúð – aðallega fyrir mat og sígarettum en líka fyrir leigu á geymslunni sem ég bjó í við Hringbraut. Þar borgaði ég 10 þúsund – um það bil þrjú kvöld á barnum. 

Það mátti redda prentun. Það voru prentarar á Þjóðarbókhlöðunni og hér og þar. Og þótt það væri kannski ekki hægt að prenta hundrað eintök í einu væri gerlegt að prenta nóg í prívatprentara til að setja í poka og selja á einu kvöldi á Næsta bar. En nógu stórir heftarar til þess að þá mætti nota til að hefta í kjöl voru ekki á hverju strái – þeir voru beinlínis sjaldséðir utan prófessjónal skrifstofuumhverfis. Þessi heftari átti að tryggja stöðu okkar í skáldskaparheiminum, hann átti að tryggja sjálfstæði okkar gagnvart kapítalinu og hann var einhvers konar tákn um stefnufestuna – að maður skyldi eyða peningunum sínum í annað eins rugl tæki, þegar maður átti ekki einu sinni fyrir mat. 

Heftarinn, sem er úti í bílskúr og hefur meira og minna fylgt mér, hefur – mér vitanlega – aldrei verið notaður til þess að hefta meira en tvö blöð saman á horninu. Samt finnst mér alltaf einsog hann hafi þjónað tilgangi sínum. Svona einsog netið undir loftfimleikamanni er ekki gagnslaust þótt hann hafi aldrei dottið í það. Það kannski kemur að því. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli