22. jún. 2016

Verðið þið aldrei neitt efins þegar í ljós kemur að allir sem deila „markhópi“ með ykkur – þeir sem eru líka listhneigðir, milli þrítugs og fertugs, af sama kyni, kynhneigð og kynþætti, með sömu áhugamál á Facebook – hafa sömu skoðanir og þið á einhverju? Ég ímynda mér t.d. að það sé mjög ólífvænleg skoðun í vissum kreðsum í Reykjavík að flugvöllurinn eigi að fá að vera þar sem hann er; rétt einsog það er ólífvænleg skoðun að hann skuli „bara fara“ á Ísafirði. Og er hún þá bara ólífvænleg vegna þess að það er uppgjör við lífheim manns allan að setja sig upp á móti henni – maður myndi bara leysast upp í eitt allsherjar þras ef maður temdi sér aðra skoðun?

Ég velti þessu líka fyrir mér þegar ég sé skoðanakannanir sundurliðaðar – þar er oft áberandi kynjamunur og ef maður er karl, langar mann þá að kjósa einsog allir hinir karlarnir? Ef maður er kelling, langar mann þá að kjósa einsog kellingarnar? Hugsar maður bara að sitt eigið kyn hafi nú greinilega alltaf rétt fyrir sér? Eða veltir maður því fyrir sér hvort maður sé kannski bara einsog fiskur í vatni – fatti ekki samfélagsforritið sem maður gengur um með í hausnum?

Ég þekki mjög fátt fólk sem ætlar að kjósa Davíð eða Guðna og er það þó vel rúmur helmingur þjóðfélagsins. Margir myndu skammast sín fyrir að viðurkenna að þeir ætluðu að kjósa Davíð en ég get ekki ímyndað mér að neinn beinlínis skammist sín fyrir að ætla að kjósa Guðna – það er þá helst að það sé frekar ófrumlegt og lítil afstaða í því fólgin önnur en að maður kjósi einhvers konar rólegheit.

Annars tek ég bara mest undir með vinstri hippsterþenkjandi millistéttar menntafólki. Þó ég sé reyndar alinn upp í (rísandi) verkalýðsstétt og hafi enga menntun, sé með ofnæmi fyrir 101 og vinstrinu. Mér finnst t.d. þetta „kjóstu“ myndband, sem á að fá ungt fólk til að kjósa, mjög hallærislegt. Ég er að verða 38 ára (1. júlí, ég er ekki á Facebook svo þið verðið bara að senda mér póst) og það er of gamalt fyrir mig. Og ef maður kýs ekki Elísabetu eða Andra þá er maður bara úti á þekju, það er ekkert flóknara, nema maður ætli að skeina sér á kjörseðlinum – ég kaupi það líka sem legit viðbrögð.

---

Mér finnst mjög erfitt að vera þeirrar skoðunar, sem ég er, að landsbyggðin eigi að vera eitthvað annað og meira en sumarbústaðarland fyrir velmegandi Reykvíkinga. Vegna þess að þótt sú skoðun sé ekki vinsæl fyrir vestan er hún í meginatriðum gegnumgangandi í kreðsunni minni einsog hún lítur út á landsvísu (en á sér lögfesti í 101). Þannig öskraði ég oft upphátt á tölvuna mína þegar ég sá fólk nýlega deila grein um flugvöllinn – „frábær grein“, „skyldulesning“ og var þó augljóslega hvorugt, þótt hún væri lipurlega skrifuð – þar sem því var haldið fram að Ísland væri „borgríki öðru fremur“. Þótt það hljómaði „harkalega“ og „hrokafullt“, sem sagt. O jæja. If it quacks like a duck þá er kannski ástæða til að velta því fyrir sér hvort það sé kannski önd. Maður virðist þá í það minnsta hafa forsendur til þess að taka distans á skoðanir sínar, þótt maður neiti sér jafn harðan um hann.

Sú kenning að Ísland sé borgríki er jafn mikið búllsjitt og að Ísland sé sambærilegt við Leicester – hún er afleiðing af excelískum hugsunarhætti sem heldur að mannlíf verði talið og vigtað (en fyrst og fremst bara þegar það hentar ákveðnum hagsmunum). Ísland er miklu dínamískara heldur en nokkurt borgríki einmitt vegna þess að þar eru þrátt fyrir allt enn nokkrir pólar – og lítið land einsog Ísland má einfaldlega ekki við því að verða hómógenískur mónókúltúr, má ekki við því að allir spekingarnir stundi sömu kaffihúsin og vakni við sama veðrið dag eftir dag. Menning stærri landa – og að litlu leyti Íslands – byggir ekki síst á togstreitu milli stóru pólanna. Að það skuli vera önnur kreðsa í Malmö en í Stokkhólmi, önnur kreðsa í Los Angeles en New York og svo framvegis. Nú eigum við auðvitað ekki aðra stórborg – þótt Akureyri standi sig oft ágætlega – en smábæirnir okkar eru jafnvel enn fjær því að vera sambærilegir við jafn stóra bæi á Englandi en landið allt er við Leicester. Einsog Andri Snær orðaði það, þá er Detroit krummaskuð en Seyðisfjörður heimsborg – það er nefnilega ekki bara spurning um mannfjölda heldur hlutverk innan samfélags. Sjálfsmynd staðar.

Ísland sem borgríki er Ísland sem einleikur með einu hlutverki – og auðvitað finnst stjörnunni á leiksviðinu alltaf eðlilegt að leikverkið byggi fyrst og fremst á sinni tilvist. En það gerir það ekki. Það byggir ekki heldur á minni hlutverkunum eða statistunum eða sviðsmyndinni – heldur einmitt dínamískum samleik.

Í grunninn er þessi hugmynd um Reykjavík sem borgríki líka bullandi nýfrjálshyggja – sá sterkari á alltaf að fá sínu framgengt, í því er öll framþróun samfélagsins fólgin, og hann á ekki að þurfa að taka tillit til þarfa annarra en sjálfs sín nema að mjög takmörkuðu leyti. Hann getur hjálpað svo fremi það kosti hann ekki neitt og hann hefur engum skyldum að gegna við neitt nema hamslausa framfaratrúna.

---

En sem sagt. Kenning. Ef maður trúir einhverju staðfastlega sem kemur jafn augljóslega niður á jafn mörgu fólki – og maður tilheyrir ekki þeim hópi sjálfur – þá eru allar líkur á að maður hafi ekki hugsað hugsunina til enda, maður hafi ekki hugsað hana út frá neinum öðrum en sjálfum sér, maður sjái ekki að ein helsta ástæðan fyrir því að maður getur talað sig inn á kenninguna og réttlætt hana fyrir öðrum er sú að hún hentar þröngri framtíðarsýn manns og hún truflar ekkert í manns eigin lífi. Þú veist, svona einsog annars vel meinandi karlar töluðu sig inn á að samfélagið myndi leysast upp án þræla eða ef millistéttarkonur færu út á vinnumarkaðinn – og þeim finnst þetta hvort eð er gaman, það er ekki í eðli þeirra að skilja pólitík, lesa bækur eða keyra bíla, þeim finnst gaman að vera úti í sólinni og hekla.

Og nú er ég ekki að segja að flugvöllurinn eigi að fara eða vera. Heldur að það sé lýsandi fyrir blinduna í (vissum/mínum kreðsum í) Reykjavík að fólk þar sjái sér ástæðu til að klappa upp þá skoðun að landsbyggðinni sé fórnandi fyrir „meiri hagsmuni“. Læk á læk ofan. Því stundum fær maður það á tilfinninguna að Reykvíkingar ætli ekki bara að losa sig við flugvöllinn heldur við byggðirnar sem hann þjónar – og auðvitað er það þannig sem þjóðríki klofna oftast, auðugi hluti landlíkamans sker af sér það sem hann upplifir sem holdfúa.

Flugvöllurinn í Vatnsmýri er ekki afgangsstærð – hann er ekki „ónýtt“ landsvæði, heldur einmitt nýttur undir krítískan infrastrúktúr – og ef það reynist nauðsynlegt að flytja hann er algert lykilatriði að það verði gert í samráði við fólkið sem þarf á honum að halda. Ég hefði síðan haldið að ef það er stál í stál þá vægi sá sterkari – enda er ég jafnaðarmaður þótt ég sé ekki krati – borgin sem stríðir við vaxtaverki, frekar en landsbyggðin sem er í lífróðri. Það er hlutverk borgarinnar að sannfæra ytri byggðirnar um að ný lausn sé jafn góð eða betri – frekar en að kristna Vatnsmýrina með sverði. „Ég á þetta, ég má þetta“. Og þá verða ytri byggðirnar auðvitað að vera tilbúnar til að hlusta – þótt lítið sé eftir af trúnaðartrausti eftir skylmingar síðustu ára.

---

En svo hef ég auðvitað beina hagsmuni af því að halda landinu í byggð. Að minnsta kosti Vestfjörðum. Og takmarkaðan áhuga á skipulagsmálum í miðbæ Reykjavíkur (skil reyndar ekki alveg hvernig jafn lítil borg ætti að geta átt jafnvel enn stærri miðbæ, en það er efni í annað röfl).

---

Ég íhuga það stundum að skrifa um þetta alvöru grein og birta annars staðar en hér. Stíga út úr röflinu. En einhvern veginn er ég svo vonlítill um áheyrn (nema hjá kórnum – fengi auðvitað fullt af lækum hjá mínum líkum) – og þá verður aldrei neitt úr neinu.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli