23. jún. 2016

Ég hef alltaf verið þeirrar skoðunar að maður eigi ekki að láta sér standa á sama um hlutina – ekki bara mikilvægu hlutina, flóttamannavandann, stéttskiptinguna, ástvini sína og það allt saman – heldur líka hitt. Til dæmis fótbolta. Einhvern veginn held ég að það fari líka saman. Að temji maður sér óhóflega stillingu í einu máli þá sé hætt við að sú stilling elti mann á röndum hvert sem maður fer.

Ég er vel að merkja ekki heimsins mesti fótboltaaðdáandi. Ég er ekki einn af þeim sem mun bera kennsl á alla leikmenn enska liðsins. En ég reyni að láta mér ekki standa á sama um hann þegar ég horfi á hann.

Ég hef horft á leikina einn – fyrst í tölvunni uppi í herbergi heima hjá mágkonu minni og svo hérna í Västerås (fjölskyldan er enn hjá mágkonunni). Það getur verið pínu erfitt að komast í stemningu einn, sérstaklega ef maður er bara að hlusta á sænsku kynnana – sem sýndu mestan lit þegar þeir fóru að tala um hversu æstur íslenski kynnirinn á næsta bás væri – en maður reynir að hossa sér svolítið á rúminu og steyta hnefann að guðunum.

Það er meira gaman að hlusta á Gumma Ben en ef ég geri það þá er hann alltaf aðeins á eftir – hann tryllist ekki fyrren svona 5-6 sekúndum eftir að það er skorað. Þá er ég með skrúfað niður í hljóðinu á SVT og Rás 2 í streymi. Því það er auðvitað ekki í boði að horfa á leikinn á RÚV nema maður sé á Íslandi.

Það er líka eitthvað bogið við alla þessa fagmennsku í fótboltaskýringum – þessa yfirveguðu og útreiknuðu sýn á boltann, þar sem tæknin er skoðuð í grunninn. Einsog þeir stunda Svíarnir á meðan Gummi er að æpa.

Fótbolti er fyrst og fremst leikur. Hann er skemmtiefni. Og auðvitað er alls konar taktík í leiknum, ýmisleg hugsun og margt að greina . Mannskepnan er nú einu sinni gerð til að greina – það er greiningin sem skilur okkur frá dýrunum. Þeir sem spila hann þurfa líka að taka hann dálítið alvarlegum tökum – þó ekki of alvarlegum. En hérna. Sem sagt. Ég er dálítið skeptískur. Mannskepnan er nefnilega líka gerð til að blekkja sjálfa sig.

Ég hef stundum sagt frá því þegar ég var í foreldrahópi á spítala hér í Västerås áður en Aram fæddist – hjúkrunarkonan tuggði það svo rækilega ofan í okkur feðurna að „við skiptum líka máli“ að á endanum held ég að það hafi ekki verið kjaftur eftir sem trúði því í raun og veru. Því það er enginn ástæða til að segja eitthvað svona oft nema til þess að sannfæra sjálfan sig – það sem er satt er augljóslega satt og það segir maður bara einu sinni, nema manni sé mótmælt. Hún braut okkur alveg niður, þessi kona, og við þurftum að byggja okkur upp aftur sjálfir.

Ég hef svipaða tilfinningu fyrir allri alvöru í kringum fótboltann. Að greiningin og tæknimódelin og sérfræðingarnir í jakkafötunum séu þarna til þess að hjálpa okkur að gleyma að þetta sé leikur. Að við – fullorðna fólkið – séum að horfa á annað fullorðið fólk leika sér. Við sem erum ekki lengur börn. Af því að ef þetta er ekki alvara þá ættum við að vera að slá grasið eða elda matinn eða bara í vinnunni.

Það er kannski ekki síst þetta sem er svo hughreystandi og fallegt við Gumma Ben. Barnslega hamingjan. Það er engin sjálfsblekking þarna (það gæti heldur enginn þóst vera svona hress – það er óhugsandi að feika þetta).

Næsta leik mun ég sjá í Finnlandsbátnum og get líklega ekki valið mér skýranda – líklega verður leikurinn bara á finnsku. Ég vona bara að skýrendurnir verði hressir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli