11. apr. 2016

11. apríl

Maðurinn sem afgreiðir á 428 Bar í Terminal 1 á Charles de Gaulle flugstöðinni heitir Benhur. Ben Húr. Mér finnst það alveg magnað en ég er líka enn að vakna. Þegar ég opnaði augun í morgun – á stofugólfinu hjá Snæbirni Brynjarssyni og hans ektakonu, í Porte de Clignancourt – var ég viss um að ég hefði sofið yfir mig. Sem betur fer var það misskilningur. En kannski til marks um að ég sé farinn að taka ferðalaginu alvarlega, frekar en með þeirri stóísku ró sem hefur leitt mig í ógöngur á síðustu dögum. Það er ágætt, ekki síst í ljósi þess að nú er ferðalöngum ráðlagt frá því að ferðast til Istanbul vegna hryðjuverkahættu.

Mér hefur í tvígang verið bent á að kannski sé ekki góð hugmynd að ganga um með hattinn í Tyrklandi því róttækir múslimar gætu talið mig vera Ísraelsmann. Ég veit samt ekki hvort ég ætla að fara að taka því alvarlega. Ég er þrátt fyrir allt líka í rauðum buxum og einhvern veginn alltaf meira einsog fífl en rabbíni til fara. Þegar ég var að skrifa Illsku hins vegar var ég á tímabili að breytast í litháískan 20. aldar gyðing, með barðastóran svartan hatt og skegg niður á bringu. Í Póllandi hræktu (fullir) menn á eftir okkur Lomma Lomm og görguðu eitthvað um Ísrael.

Í gær var mér vísað úr metróinu – ásamt öllum sem þar voru – og línunni lokað á kafla vegna þess að það hafði fundist „grunsamlegur pakki“ einhvers staðar. Mér skilst að þetta sé daglegt brauð í París.

Annars eru í dag 30 ár frá því Primo Levi lést. Hann henti sér fyrir lest. Nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel, sem var líka í Auschwitz, sagði um Primo að hann hefði í raun drepist í útrýmingarbúðum nasista, fjörutíu árum after the fact.

En ég sem sagt fékk flugmiða í dag, annað en í gær, og er kominn inn fyrir öryggishliðið og þá fær mig fátt stoppað. Mikligarður bíður mín.  Maðurinn sem afgreiddi mig um miðann hjá Turkish Airlines, og var áreiðanlega af tyrkneskum ættum, bauð „góðan dag“ á íslensku þegar hann sá passann minn, spurði síðan hvort ég væri með „en bagage“ og kvaddi loks með „takk“. Mér fannst það impónerandi og skemmtilegt en náði ekki að spyrja að því hvort hann hefði einhver tengsl við landið – líklegast hefur hann lært einhvers konar norræn fræði einhvers staðar, fyrst hann ruglaði líka skandinavískunni inn í þetta, frekar en að hann hafi búið á Íslandi. Ég ímynda mér ýmislegt um þennan mann. Hann heitir ábyggilega líka Ben Húr.

Sendiráðið var opnað fyrir mig í gær og mér reddað. Það var ekki lítið sem ég var þakklátur fyrir það. Þau rukkuðu mig ekki einu sinni (frekar en ræðismaðurinn í Caen, reyndar). Úr sendiráðinu fór ég upp í 18. hverfi þar sem við Snæbjörn höfðum mælt okkur mót á kantínunni Recyclerie, sem er gamalt uppgert reiðhjólaverkstæði. Þar gekk ég í flasið á konu sem hafði lesið bókina mína og var mjög hissa að sjá höfundinn bara spranga þarna um. Það var einhver norræn listahátíð í húsinu sem var því fullt af friðlum norðurlanda.

Ég bauð Snæbirni út að borða fyrir gistinguna – og Plokkfiskbók – og svo fórum við og fengum okkur nokkra bjóra. Við ræddum eitt og annað – bókahark, fagurfræði, menningarfjölmiðlun – og rifumst um það hvort Andri Snær myndi bjóða sig fram, ég sagði já og hann sagði nei, og í þeim töluðu orðum hefur Andri verið að boða til blaðamannafundar. Ég frétti það hins vegar ekki fyrren ég var að leggjast til svefns og þá munaði minnstu að ég ryddist bara inn á Snæbjörn og frú til að taka eitt gott told you so fyrir svefninn. En ég er of vel upp alinn svo ég lét það vera.

Ég er ekki alveg viss með stigagjöfina. Skrifaði ekki, reykti ekki, gerði engan jóga, drakk aðeins meira en væri tilvalið . 7 af 10? Segjum það.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli