14. apr. 2016

14. apríl

Það er lítið að gerast. Í gær munaði minnstu að ég næði fyrstu 10/10 í sjálfsbótatilraun minni en svo nennti ég ekki að blogga fyrir háttinn og fékk því bara 9. Eyddi bróðurpartinum af deginum við tölvuna á hótelveitingastaðnum að skrifa ritgerð fyrir ráðstefnu í Lyon í maí. Hún er næstum því tilbúin.

A photo posted by Eiríkur Örn (@eirikurorn) on


Svo átti þessi dama þriggja ára afmæli. Ég sakna hennar alveg hræðilega.




Netið er svo lélegt á hótelinu að ég neyddist til að skæpa við hana í gegnum 3G og er kominn með magasár af peningaáhyggjum. En það var samt alveg þess virði. Anna vinkona hennar gaf henni þetta hjól sem hún er hætt að nota. Aino var annars ánægðust með bláa blöðru með gullborða – sem svo sprakk á meðan við vorum að skæpa, með frekar dramatískum afleiðingum.

 Um morguninn fór ég og las upp í menntaskóla ásamt tveimur öðrum ljóðskáldum – ungri tyrkneskri konu sem heitir Tuba Kaplan og suður-afríska skáldinu Lebo Mashile. Við Lebo töluðum helling í bílnum – mest um börn, litla afmælisbarnið mitt og barnið sem Lebo er með í maganum og á að fæðast í júlí. Á bakaleiðinni töluðum við síðan um uppgang fasismans.

 Krakkarnir í skólanum kunnu flest ensku sem einfaldaði alla samræðu. Þau spurðu hvernig við hefðum byrjað að skrifa, hvaða merkingu ljóðlistin hefði, hvernig maður vissi hvort maður hefði hæfileika o.s.frv. Tuba Kaplan talaði hins vegar litla ensku – ég veit ekki að hverju þau spurðu hana. Hún spurði mig hins vegar eftir á með aðstoð túlks hvort ég skrifaði pólitísk ljóð (ég las Ljóð um kebab, sem birtist á ensku í Grapevine í fyrra, og það var á tyrknesku í bókinni sem er gefin út af hátíðinni). Ég sagðist stundum gera það og þá brosti hún út að eyrum og sagðist sjálf skrifa mjög pólitísk ljóð.

Við yfirgáfum svo svæðið í tveimur bílum og kvöddumst á skólalóðinni. Lebo og Tuba tókust í hendur en þegar ég ætlaði að kveðja á sama hátt dró hún að sér höndina. Ég veit ekki hvers vegna það kom mér á óvart. Hún gengur með skuplu og er augljóslega trúuð. En hún er líka 27 ára, pólitískt ljóðskáld.

Ég spurði einn af skipuleggjendum um hvað hún skrifaði og var sagt að hún skrifaði um reynslu ungs fólks. Þegar ég nefndi að hún hefði ekki viljað taka í höndina á mér sagði hann fyrst bara get used to it og bætti síðan við að hann legði sig alltaf fram um að vera ýtinn við svona aðstæður. Ég held það sé í sjálfu sér sjálfsagt að hver og einn ákveði hvernig og hvort hann eða hún vill vera snert/ur. En þetta er samt óþægilegt. Manni finnst einsog í því felist einhver áfellisdómur – sem það kannski gerir. En kannski eru óþægindin bara í því fólgin að hafa verið staðinn að einhverju faux-pas – í því að vera fávís. Í Frakklandi er maður stanslaust hlæjandi að því hvort eigi að kyssa á eina, tvær, þrjár eða fjórar kinnar og það tekur því enginn illa þótt maður rétti bara fram höndina. Ég hitti þar konu sem þýðir úr sænsku og þegar við kvöddumst bað hún um skandinavíska kveðju – það er að segja faðmlag, knús, kram. Kannski snerust óþægindin um að þarna hefði „minn heimur“ verið rofinn, mín kreðsa, ung kona sem skrifar pólitísk ljóð á – í mínum heimi – að vera einhvers konar líberal sósíalisti.

Það kom reyndar fram í samræðu við einn skipuleggjandann að tyrkneska dagskráin væri íhaldssamari en þau kærðu sig um vegna þess að hátíðin er styrkt af ríkinu. Það þýðir annars vegar að þau gæta sín – það er ekkert hægt að bjóða hverjum sem er – og hins vegar að mörg róttækari skálda vilji einfaldlega ekki leggja nafn sitt við hana.

Ástandið hérna er náttúrulega ekki alveg normalt. Samkvæmt RÚV hafa nærri því tvö þúsund manns verið handteknir fyrir að tala illa um forsetann frá því hann tók við völdum 2014 – þar af fimm manns í gær.

Eftir skólaheimsóknina fór ég bara að vinna, borðaði kvöldmat á hótelinu (sem er ókeypis), vann meira og svaf.

Ég vaknaði of seint fyrir morgunmatinn – eða í þá mund sem hann var að klárast. Ætlaði fyrst að fara að leita uppi morgunverðarstað sem hafði verið mælt með við mig en internetið sagði að það væri búið að loka honum. Þá ætlaði ég að rjúka upp í leigubíl og fara að skoða nútímalistasafnið en var tjáð í móttökunni að það væri ómögulegt að ná í leigubíl á þessum tíma (klukkan hálfellefu á fimmtudagsmorgni). Ég fékk mér kaffi og börek á kaffihúsi í nágrenninu, skoðaði möguleika á að taka metró – en stöðvarnar virðast meira og minna vera lokaðar, búið að rífa upp allt kerfið. Á endanum rölti ég bara hér um í hverfinu, kom svo aftur upp á hótel og vann svolítið meira.

Á eftir fer ég að selja boli með ljóðaáletrunum. Þetta er eitthvað góðgerðardæmi. Í kvöld er svo skipulagt hangs með hinum skáldunum sem ég hef hingað til mest hitt í hótelkvöldmatnum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli