21. feb. 2016

Úr leikskrá Illsku

 Sonur fyrsta forseta hins íslenska lýðveldis var meðlimur í SS og starfaði sem áróðursmeistari hjá nasistum. Afi minn – hálfþýskur/hálfísfirskur – var ekki orðinn sautján ára þegar hann var skráður í sama flokk, af taugaveiklaðri ísfirskri móður sinni sem hafði verið tjáð að ef hann gengi í SS yrði hann ekki sendur til Rússlands (hann var sendur til Rússlands). Faðir eins ástkærasta fótboltamanns þjóðarinnar – Evald Mikson – var hugsanlega gerandi í fjöldamorðum á gyðingum í Eistlandi, það fékkst aldrei rannsakað þrátt fyrir kröfur Simon Wiesenthal stofnunarinnar þar að lútandi. Ein fyrsta bókin sem rituð var um helförina var reynslusaga Íslendings. Stærstu innflytjendaþjóðir á Íslandi – Pólverjar og Litháar – eru meðal helstu fórnarlamba helfararinnar. Stóri bróðir fyrrverandi forsætisráðherra var meðal forystumanna íslenskra nasista og fjöldinn allur af öðrum valdamiklum stjórnmálamönnum frá því fyrir stríð og alveg fram á okkar daga hafa verið viðriðnir hreyfingar sem stefna leynt og ljóst að nokkurs konar kynþáttahreinsunum – og/eða hafa sjálfir haft uppi ummæli sem ætla má að spretti úr slíkum jarðvegi.
     Við erum eyland en engu að síður hluti af heiminum. Nazistan er alls staðar.

                   * * *

Ítalski gyðingurinn, rithöfundurinn og helfarareftirlifandinn Primo Levi sagði einhvern tíma að okkur – mannkyni – bæri helg skylda til þess að skilja ekki helförina, né gera til þess neina tilraun, því slíkum skilningi gæti fylgt nokkurs konar mennskun hryllingsins. Það sem er mennskt er eðlilegt og náttúrulegt, og það sem er eðlilegt og náttúrulegt er hugsanlega óhjákvæmilegt – en helfarir mega aldrei verða náttúrulega óhjákvæmilegar. Við megum aldrei sættast við tilvist þeirra.

                  * * *

Manninum finnst hann alltaf vera lítill og máttlaus. Angelu Merkel finnst hún lítil, Sigmundi Davíð finnst hann vera lítill, mér finnst ég vera lítill, meira að segja Kára Stefánssyni finnst hann vera lítill. Öllum finnst þeir vera litlir, nema kannski Aino, dóttur minni, sem finnst hún vera mjög stór – en það er misskilningur, hún er einmitt mjög lítil. En við hin, við erum ekki lítil, við erum stór og eigum okkur enga afsökun.

                  * * *

Það var góð stemning í kringum nasistaflokkinn. Og það voru dálítið sérstakar aðstæður þarna á þriðja og fjórða áratugnum. Upplausn og kreppa og það þurfti að taka í tauminn. Kannski ekki svona harkalega, þegar maður hugsar út í það, en það er gott að vera vitur eftirá og ekki nóg að vilja vel, maður þarf líka að vera reiðubúinn til þess að taka erfiðu ákvarðanirnar, díla við realpolitik. Veröldin er ekki bara mannúð og gotterí.

                  * * *

Eyjarskeggjum finnst þeir vera afskekktir. Ísland er grjót í hafinu og meira að segja okkur sem búum hérna finnst við stundum standa utan við mannkynssöguna, í ævintýralandinu sem við leikum ofan í túristana – álfar og huldufólk – frekar en í henni miðri. Pínulítil og ómerkileg.

                  * * *

Primo Levi lagði – hvað sem þessum orðum hans um skilninginn líður – bróðurpart ævi sinnar í að hugsa um helförina og hugsanlega var það hún sem reið honum á endanum að fullu. Eftir sjálfsmorðið 1987 sagði nóbelsverðlaunahafinn Elie Wiesel – sem einnig lifði af útrýmingarbúðir nasista – að Primo hefði dáið í Auschwitz, fjörutíu árum síðar.

                  * * *

Þórbergur var einsog frægt er ákærður fyrir að kalla Hitler sadista og blóðhund – árið 1934, átta árum áður en hin eiginlega helför var vottuð og stimpluð á Wannsee ráðstefnunni. Hitler var varla búinn að missa barnatennurnar þegar það var ljóst í hvað stefndi.
     Ári áður hafði Steinn Steinarr ásamt tveimur öðrum verið ákærður fyrir að rífa niður nasistafána á Siglufirði.
     Hingað komu Gyðingar sem sóttu um hæli – mættu sjálfsagt vegabréfslausir með skrítin höfuðföt, kunnu enga íslensku og neituðu að borða svínakjöt einsog almindelige mennesker – og voru „sendir heim til sín“, eða í það minnsta til Danmerkur (sem hefur hugsanlega, merkilegt nokk, verið skárra þá en nú), eftir úrskurð frá kærunefnd útlendingamála sem staðfestir þar með upprunalega ákvörðun Útlendingastofnunar ... eða nei, annars, það ferli kom til síðar.
     Nazistan er nefnilega alls staðar. Og alltaf.

                  * * *

 Ef eitthvert „okkar“ var á sínum tíma nasisti þá er það jafnan útskýrt þannig – eftirá – að í raun og veru hefði viðkomandi bara verið svo mikið á móti kommúnistum, og lent þannig alveg óvart í skilyrðislausum stuðningi við Adolf Hitler, frekar en að hann eða hún hefði verið á þeirri yfirveguðu pólitísku skoðun að troða bæri milljónum manns í gasklefa til að hreinsa Evrópu af kynþáttaóværunni.
     Þetta er auðvitað tabú núna. Það myndi enginn bjóða sig fram með slíkt á stefnuskránni.  Það væri bilun! En þetta voru aðrir tímar.
     Djók.

                  * * *

Kannski vaknar maður einn daginn með burstaskegg í leðurstígvélum. En maður sér það ekki gerast, stígur ekki skyndilega yfir einhverja línu og búmm er orðinn nasisti. En það gerist samt. Daglega. Skref fyrir skref. Sumir verða miklir og einlægir nasistar, aðrir verða meiri diet-nasistar og enn aðrir – flestir – verða svona jamm-og-jæjandi nasistar. Svona það-er-því-miður-ekkert-við-þessu-að-gera nasistar. Sorrí.
     Svo eru nokkrir sem verða sósíalistar. Þeir skiptast í tvo flokka, þá sem eru varla skömminni skárri og hina sem verða fljótlega skotnir.

                  * * *

En það er ekki sama að skrifa og skilja. Primo Levi gerði sjálfur greinarmun þar á og sagði að þótt við ættum að forðast að skilja bæri okkur skylda til að vita og hugsa um helförina, að mæta henni – einmitt vegna þess að hún gerðist og vegna þess að hún gæti gerst aftur (því mætti jafnvel halda fram að hún hafi gerst aftur, sé að gerast aftur, eða að gagnvart t.d. roma-fólki hafi henni aldrei beinlínis lokið).

                  * * *

Nasisminn er hugsaður í hreinum línum – þvers og kruss um samfélagið, þú ert annað hvort með túrbönuðum terroristum í liði eða þú ert hlynntur því að lyf verði niðurgreidd ofan í fársjúkar ömmur og öryrkja. Allt er hreint, skýrt og einfalt.

                  * * *

Og auðvitað erum við ekki síður mannkynssagan en aðrir.  Skriðþungi hennar. Og Hitler bauð sig ekki fram með því fororði að hann ætlaði að útrýma fólki – ekki frekar en Marine Le Pen eða Jimmie Åkesson – þótt við sjáum þá tendensa berlega hjá honum baksýnisspeglinum (og fleiri hefðu átt að koma auga á fyrr). Hann bauð sig fram með það að markmiði að gera samfélagið fallegra og betra – hann vildi bara að fólk hefði tækifæri til þess að lifa mannsæmandi lífi. Sumt fólk. Hans fólk. Heimamenn. Hvað sem það kostaði.

                  * * *

Þegar ég skrifaði bókina – sem tók fjögur ár – fannst mér ástandið stöðugt versna. Svíþjóðardemókratar komust á þing, Sannir Finnar stækkuðu, sem og Le Front National og Dansk Folkeparti, Fidesz náði völdum, Breivik slátraði fólki (og Norðmenn notuðu tækifærið til að minna heimsbyggðina viðstöðulaust á hvað þeir væru miklu betri en aðrir) og svo framvegis og svo framvegis. Ég sat við og skrifaði í mismiklu óráði og einhverri tilfinningu fyrir nauðsyn – fannst í senn að bókin yrði ólesanlegur haugur af sturluðu röfli og það myndi gera út af við mig að skrifa hann.

                  * * *

Ef við viljum standa gegn hinu fasíska valdi – og skriðþunga þess – verðum við að leyfa okkur að hafna skýrum dráttum. Við verðum að gera okkar fremsta til þess að hugsa ekki einsog nasistar. Að mæta ekki hinu fasíska valdi með öðru eins; ætla okkur ekki að reka út myrkrið með meira myrkri. Og það – það er miklu meiri vinna og fyrirhöfn en maður gæti ímyndað sér. Það krefst þess af okkur að við séum linnulaust fólk, með allri þeirri mannúð og íhugun sem í því felst.

                  * * *

Ég hafði þess utan og á hinn bóginn – í öllum mínum stjórnlausa hégóma – brennandi áhyggjur af því að von bráðar myndi bólan springa, nýjabrumið fara af nasismanum, og ég sitja eftir með úrelt verk. Sem væri auðvitað gott fyrir heiminn, en ekki jafn gott fyrir mig. Eftir fjögurra ára slítandi þrældóm.

                  * * *

Í ár eru liðin fjögur ár frá útgáfu – átta síðan ég byrjaði að skrifa. Grímuklæddir menn fara um Svíþjóð og lúskra á innflytjendum. Um alla Evrópu bera nasistar eld að flóttamannahælum. Fasistar skjóta blaðamenn, tónleikagesti. Við hin stöndum í eldlínunni milli hvítra fasista og salafískra, hvort sem er í París, Raqqa eða Rio, og deyjum upp í opið geðið á þeim á meðan stjórnmálamenn svipta okkur sífellt fleiri lýðréttindum og fyrirskipa frekari loftárásir, meira ofbeldi, sem gerir sitt (tilætlaða?) gagn og upp úr öskunni rísa enn fleiri fasistar.
     Einsog fönixar.
      Húrra.

                  * * *

Að skilja helförina er að því leytinu til sambærilegt því að leggjast með dýrum að það er einsog að nauðga hinu mannlega upp á hið dýrslega. Siðmenning skilningsins á ekkert erindi við barbarí hins óskiljanlega.
                 

 Birtist fyrst í leikskrá Illsku, sem er nú á sviðinu í Borgarleikhúsinu á vegum Óskabarna ógæfunnar. Örfáir miðar lausir

Engin ummæli:

Skrifa ummæli