16. feb. 2016

Europeana

Ég var að lesa Europeana eftir Patrik Ourednik – sem króatískt ljóðskáld, kunningi minn, benti mér á vegna þess að hlutar hennar minni á Illsku, sem ég sé alveg – og fór að velta þessu fyrir mér með ljóðrænuna sem er í því fólgin að segja einfalda og þekkta hluti hreint út. Það sem við segjum aldrei – það sem er ekki tátólógískt, ekki sokkaleisti, heldur næstum því. Einsog að segja að vatn sé blautt. Ljóðrænuna sem er fólgin í að einfaldlega nefna það. Mér finnst eitthvað ótrúlega fullnægjandi við að lesa þannig texta – ekki langar romsur, kannski, en málsgrein hér og þar. Einsog að klóra sér á stað sem maður vissi ekki að mann klæjaði í.

Europeana ber undirtitilinn A Brief History of the Twentieth Century og er einmitt það – einhvers konar evrópsk mannkynssaga tuttugustu aldarinnar. Hún hefst á því að tíunduð er meðallengd hermanna í seinni heimsstyrjöldinni (sem rímar við ákveðna hluta í byrjun Illsku) – fjallar mikið um helförina og heimsstyrjöldina, um kommúnisma og fasisma, en líka um allt frá tækniframförum til frjálslyndisbyltinga. Og hún veður úr einu í annað viðstöðulítið – en er líka stutt, kannski 100 síður.

Ég held að kraftur textans sé fyrst og fremst fólginn í því hvernig Ourednik tekst að blanda saman staðreyndum sem maður hafði ekki hugmynd um, þekktum staðreyndum á þennan nánast tátólógíska eða einhverfa máta (sirka „Hitler drap fullt af fólki og það gerði Stalín líka“ og þess háttar) og þekktum staðreyndum á óvenjulegan hátt (einsog að nálgast fjölda látinna hermanna tiltekinna þjóða í styrjöld út frá samanlagðri meðallengd hvers hóps fyrir sig).

Engin ummæli:

Skrifa ummæli