11. apr. 2015

Skilyrðislaust skylduboð gjallarhornsins

Shame is a negative, painful, social emotion that can be seen as resulting "...from comparison of the self's action with the self's standards...".[1] but which may equally stem from comparison of the self's state of being with the ideal social context's standard. Thus, shame may stem from volitional action or simply self-regard; no action by the shamed being is required: simply existing is enough. 
-Wikipedia

Það truflar mig dálítið þegar fólk lætur einsog allt hið persónulega rými – það er, sá hluti manns sem maður kærir sig ekki um að deila með öðrum – markist svo til einvörðungu af skömm. Að eina ástæðan fyrir því að maður – sem einstaklingur eða hluti af hóp – geti kosið að halda einhverju út af fyrir sig sé að maður skammist sín. Við gerum þetta kannski sjaldan beint út – enda erfitt að skamma einhvern fyrir að eiga sér einkamál þegar við vitum ekki hvert einkamálið er – en við gerum þetta með eins konar ídólíseringu á þeim sem „opna sig“. Hvað sem líður öllu hatrinu á internetinu er jákvæð skilyrðing ennþá máttugasta valdatækið.

Nú er ég vel að merkja ekki mótfallinn því að fólk opni sig – það væri jafn fáránlegt og að krefjast þess að allir opnuðu sig um allt – en ég leyfi mér að efast um að slíkar opinberanir séu fyrst og fremst drifnar áfram af hugrekki og/eða nauðsyn. Rétt einsog teygjustökk eru opinberanirnar oft svaðalegar að sjá og veita opinberaranum áreiðanlega brjálæðislegt kikk – valdeflingu og sjálfshjálp – og rétt einsog teygjustökkið eru opinberanirnar yfirleitt hættulausari en þær virðast. Teygjustökk er áreiðanlega bráðhollt en það er kannski ekki ástæða til að búa til úr því siðferðislegt skylduboð.

Í nándinni er fólgin einhver fjarlægð (einsog teygjustökkinu!) – sem gerir bæði síník og fyrirlitningu mögulegri, eða í það minnsta auðveldari – en hún hættir samt ekki að vera nánd, önnur og ný nánd, fjöldanánd, sem við rötum kannski ekki um nema að litlu leyti (sem er ástæðan fyrir öllu taugaveiklaða fólkinu á internetinu; sem virðist samtímis fagna nýrri veröld og hata sjálft sig fyrir að taka þátt í henni). Við þurfum kannski öll að sætta okkur við að nú verður ekki lengur talað öðruvísi en í gjallarhorn.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli