17. des. 2016



Sagan Nýhils – tólfta brot brotabrots brotabrotabrots



Við sóttum bækurnar á leiðinni út úr bænum. 2004 eftir Hauk Má og Nihil Obstat, sem ég hafði skrifað. Sigurjón í Letri prentaði og fræddi okkur um allar þær sögufrægu bækur sem hann hafði prentað í gegnum tíðina – fyrir Dag Sigurðarson og fleiri. Sennilega fannst okkur við vera einmitt á réttum stað, í réttri rómantík. En fyrst var þessi ljósmynd tekin – þetta er í tröppunum þarna hjá Grænum kosti. Eða þar sem Grænn kostur var að minnsta kosti einhvern tíma, hinumegin við götuna frá Mokka (þar hittum við ljósmyndarann). Hún er kölluð Bítlamyndin, þótt við séum miklu fleiri en Bítlarnir – kannski Lynyrd Skynyrd væri nær lagi (þeir voru sjö). En hver vill líkja sér við þá? Frá vinstri, Ófeigur Sigurðsson, Steinar Bragi, Haukur Ingvarsson, ég, Bjarni Klemenz, Grímur Hákonarson og Haukur Már Helgason. Myndin er tekin skömmu áður en Haukur Ingvars sagði sig úr félagsskapnum og stofnaði Gamlhil. Og þá voru bara sex (eftir á myndinni). Auk þeirra sem eru á myndinni fóru í þennan fyrir hluta túrsins þau Halldór Arnar Úlfarsson, Kristín Eiríksdóttir og Böðvar Yngvi Jakobsson (Böddi brútal – sennilega kom hann fram sem Oberdada von Brutal).

Sennilega kom Haukur Ingvars reyndar alls ekki með á fyrsta legginn. Hann hefur bara komið á Mokka til að vera með á myndinni (en þar söfnuðum við líka saman í bílana).

Ég man eftir að hafa opnað bókakassann minn á bensínstöð og farið yfir í næsta bíl til að gefa Hauki Má sitt eintak og benda honum á að hún væri tileinkuð honum. Einhvern veginn vorum við farnir að renna svo mikið saman í eitt eftir veruna í Berlín, að við mundum ekkert hver hafði hugsað hvað (enda höfðu flestar hugsanir sprottið upp í einhverjum samræðum). Þess vegna, sumsé, hann átti alveg jafn mikið í henni og ég, einhvern veginn.

Ég man eftir að hafa stöðvað í Ríkinu í Selfossi og fyllt annan bílinn af áfengi. Eitthvað var áreiðanlega drukkið í báðum bílunum, en í mínum kláraðist allt og var búið þegar við komum á Seyðisfjörð um kvöldið, við talsvert uppnám í hinum bílnum, þar sem menn héldu að við værum að „spara okkur“.

Ég man eftir að hafa gert hlé á ferð okkar við Jökulsárlón. Þar sem var ekki kjaftur – annað en maður á að venjast núna. Og þetta var vel að merkja í byrjun júlí. Ég hafði aldrei komið þangað áður og ég man ekki til þess að náttúra hafi orkað jafn sterkt á mig og í þetta skipti. Ekki að ég kunni að hafa um það orð, mér hafa alltaf þótt ægilegar lýsingar á náttúrunni vera hjárænulegt klám í besta falli og stækur þjóðernisrembingur í versta falli. Og nú skilst mér að þetta sé einhver minnst sjarmerandi staður landsins. Einhvers konar Niagara Falls Íslands. Mér hefur að vísu alltaf þótt Niagara Falls (bærinn) mjög sjarmerandi staður, en það er sérálit.

Ég á enga mynd af Nýhil á Jökulsárlóni – þótt mig minni að þar hafi verið tekin hópmynd – en hér er ég í Niagara Falls, árið 2006.

Auk okkar var í bílnum Gunnar Þorri Pétursson, þáverandi starfsmaður Víðsjár. Hann gerði nokkuð langt innslag um ferðina og ég man að í þættinum, sem ég á einhvers staðar á kassettu, segir hann frá símtali þar sem Danni – Daníel Björnsson, myndlistarmaður, Berlínarnýhilisti og þáverandi vert á Skaftfelli – hefði tilkynnt þeim (í hinum bílnum) að á Seyðisfirði biði okkar heitur maður. Allir voru uppveðraðir yfir heita manninum sem reyndist svo auðvitað vera heitur matur. Svona var nú símasambandið í mínu ungdæmi, börnin mín góð.

Einsog gerðist gjarna á þessum tíma hafði ég ekkert sofið um nóttina. Ég vann sem næturvörður á Hótel Ísafirði og yfirleitt þegar ég fór eitthvað á fríhelgum, sem gerðist ósjaldan, fór ég beint af vaktinni suður. Þegar við komum á Seyðisfjörð var ég ekki bara rallandi fullur heldur með hvínandi höfuðverk af því sem ég hélt að væri koffínskortur. Ég vatt mér beint að Danna og spurði hversu margfaldan espresso hann gæti gert – mig minnir að það hafi verið tólffaldur, í það minnsta var glasið stórt og vökvinn þykkur einsog síróp. Ég sturtaði þessu í mig og höfuðverkurinn margfaldaðist á augabragði. Þá fékk ég parkódín forte og meira að drekka. Ég veit ekki alveg í hvaða veröld ég var þegar ég steig á svið um kvöldið – en í henni voru miklir þokubakkar.

Ég man líka að Friðrika Benónýs var þarna og kom til mín um kvöldið til að þakka fyrir Heimsendapestir, sem hún hafði skrifað mjög fallega um í DV (minnir mig). Og það var pakkfullt og mikil stemning. Ég færði einhvern tíma upptökur af upplestrunum yfir á tölvuna og var með þær við höndina hér um daginn – en svo skipti ég um tölvu og ég hef sennilega asnast til að eyða þeim. Sem er leitt því þetta var afskaplega gott efni. Stína las úr Kjötbænum og söng línurnar úr Komu engin skip í dag. Offi var manna ölvaðastur og urraði stóran hluta úr Roða – maður skildi minnst nema að þetta fjallaði um „horguðinn“ – og svo byrjaði hann að ýta hljóðnemanum að hátalaranum til að búa til fídbakk, aftur og aftur, aftur og aftur, þar til einhver bar hann af sviðinu við talsverðar mótbárur. Ég las hraðar en ég var vanur (og var vanur að lesa hratt). Það eina sem ég á hérna á netinu – af því ég var búinn að hlaða því upp – var þetta: Oberdada von Brutal flytur Raxö ðiv aná (Öxar við ána) ásamt Halldóri Arnari Úlfarssyni, sem leikur á prótótýpu af dórófóni.


Það heyrist reyndar eiginlega ekkert í dórófóninum á þessari upptöku. Hljóðfærinu lýsir Jónas Sen svo:
Hvað er eiginlega dórófónn? Það er hljóðfæri sem er hugarfóstur Halldórs Úlfarssonar myndlistarmanns. Þaðan kemur nafnið; dórófónn er stytting á Halldórófónn. Þetta er eins konar selló, að hluta til rafknúið en með hljómbotni og strengjum. Hljómbotninn er furðulegur í laginu, manni dettur í hug plastselló sem einhver hefur ráðast á og lamið í klessu. Notagildi dórófónsins virðist vera mjög sveigjanlegt. Á tónleikum í Norðurljósum í Hörpu á tónlistarhátíðinni Tectonics var spilað á hann eins og selló. En svo voru líka framkölluð með honum undarleg hljóð sem minntu bæði á orgel og rafmagnsgítar.
Við sváfum í tómu húsi við hliðina á Skaftfelli – en þar mátti held ég ekki vera með neitt partístand (ég hef sennilega verið of svartur, því ég man ekkert hvort það var eitthvað partístand, sennilega var samt partístand). Mig rámar í að hafa eitthvað verið að þvælast úti með Stínu og Offa (sem voru rétt að byrja að „stinga saman nefjum“ – ég man ekki hvort við uppnefndum þau svo þau heyrðu, en þau voru oft kölluð Sid & Nancy, af augljósum ástæðum).

Hér er einhver tímalapsus. Við fórum austur á föstudegi – hugsanlega var upplesturinn þá á laugardegi. Því það var áreiðanlega sunnudagur þegar við fórum. Og þann dag vöknuðum við þunn og keyrðum á Höfn í Hornafirði. Þegar við höfðum keyrt austureftir var mikið talað um yfirstandandi humarhátíð í bænum – og lögð áhersla á að þetta væri fjölskylduhátíð, ekki einhver fylleríishátíð. Sem truflaði okkur lítið, enda vorum við þá þegar frekar volkuð. Að keyra inn á Höfn var samt eftirminnileg reynsla. Það var einsog það hefði fallið partíkjarnorkusprengja á bæjarfélagið. Úti um öll tún voru tómir bjórkassar, yfirgefin tjöld flaksandi í vindinum og hálfklæddir timbraðir hátíðargestir að leita að skónum sínum og/eða bíllyklunum, ringlaðir á grasflötum.

Við vorum bókuð með upplestur í Byggðasafninu, sennilega um 17 leytið. Við Ófeigur brugðum okkur á veitingastað niðri í bæ. Þar pöntuðum við okkur hvor sinn bjórinn. Ég man eftir uppgjöfinni í augum afgreiðslukonunnar. Það var einsog hún vildi spyrja hvort þessu ætlaði aldrei að linna. Hvort þessir partísturluðu aðkomumenn gætu ekki bara drullað sér heim. Við Offi tókum bjórana okkar skömmustulegir og settumst út í horn til að spjalla og komum okkur síðan út hið snarasta.

Þegar við komum síðan á Byggðasafnið kom í ljós að það hafði ekki upp á neinn samkomusal að bjóða – og samanstóð af mörgum litlum herbergjum. Við enduðum á að lesa upp á bakvið afgreiðslukassann – sem var inni í svona kassalaga diskvirki sem tók upp næstum allt plássið í herberginu. Það var rétt svo ein mannsbreidd utan um það – til að hægt væri að ganga í kringum það. Og þar var áheyrandinn. Sem var kannski tveir, ég man það ekki. En þetta var skásta herbergið og kom auðvitað ekki að sök, fyrst ekki mættu fleiri. Ég held að Bjarni Klemenz hafi verið sá Nýhilistinn sem var í bestu formi þennan daginn – og las að mig minnir einhvern brjálæðislegan texta um alter-egóið sitt, Deleríum Klemenz, og George W. Bush.

Eftir upplesturinn var debaterað um hvort við ættum að dveljast í Höfn um nóttina, einsog var í boði, eða drífa okkur í bæinn og reyna að ná á Sirkus fyrir lokun. Síðari valkosturinn varð úr. Og rétt náðist – ég held við höfum náð einum bjór (og kannski svo ráfað í eftirpartí einhvers staðar, sem var sennilega tilgangurinn með innlitinu). Lauk þar fyrsta legg ljóðapartítúrsins 2003.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli