3. nóv. 2016

[ég er í reykjavík og gleymdi að taka með mér ljóðabók]


Reykjavík. Hressó. Það er ekki kalt en ekki nógu hlýtt til að maður nenni að sitja úti. Kaffið er þunnt. Það er blautt en ekki rigning. Helgi Hrafn pírati gekk hjá. Sighvatur Björgvinsson gekk hjá. Mér finnst einsog túristunum hafi fækkað síðan ég var hér síðast. Þeir eru enn í meirihluta samt. Já, heyrðu – það er Airwaves, ætti ekki að vera allt stappfullt? Sennilega er ég bara eitthvað viðutan. Einhvers staðar í nágrenninu er sennilega verið að mynda ríkisstjórn. Ég borðaði ríflegan hádegisverð á Sólon en mig langar samt að borða meira. Ég hangi bara á stöðum sem plebbar hefðu hangið á svona 2002. Ég er að fóðra í mér nostalgíuna. Blaut Reykjavík og þunnt kaffi þjóna sama tilgangi. 2002 voru fartölvur samt of þungar til að maður nennti að burðast með þær í bæinn. Ef maður þá átti nokkuð fartölvu. Mér finnst það sennilegt en það er ekki víst. Ég byrjaði daginn á því að hlaupa fimm kílómetra á hlaupabretti í Stúdíó Dan. Í kvöld les ég ljóð með Bubba Morthens og Johnny Rotten. Og Crispin Best, Ástu Fanneyju og Steven Fowler. En þau voru aldrei mér vitanlega í pönkhljómsveit. Ég var í pönkhljómsveit. Kjell Westö er í popphljómsveit – hann var að senda mér póst og segja mér að hann yrði á sömu bókmenntahátíð og ég í næstu viku. Að spila með koverbandinu sínu. Ég ætla að útskýra fyrir honum í löngu máli þráhyggju mína fyrir Appetite for Destruction. Annars er ég nú bara að hlusta á Van Halen. Ef mér tekst að læra Appetite alla í ár (ég kann hana eiginlega alveg) þá ætla ég að fara í splitt á næsta ári. Einsog David Lee Roth. Nei, djók. Ég ætla ekki í splitt. Ég var gerður fyrir annars konar mikilfengleika en að fara í splitt. Nema ég sé að hugsa um spíkat, ég rugla því stundum saman. Steinar Bragi gaf mér smásagnasafnið sitt, Allt fer. Það er borubrattasti titill flóðsins. Aftan á henni stendur að Steinar sé með rosalega mikla hæfileika í litlaputtanum. Það finnst mér mjög skrítinn staður fyrir hæfileika. Það er sá fingur sem maður notar minnst á lyklaborðið. Sama gildir í gítarleik. Eiginlega held ég að það séu mjög fá svæði mannlegrar starfsemi þar sem það kemur sér vel að hafa mikla hæfileika í litlaputtanum.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli