15. sep. 2016

Reality is a sound, you have to tune into it, not just keep yelling.  
(Raunveruleikinn er hljóð, maður verður að stilla sig inn á hann, í stað þess að öskra bara)

Úr The Autobiography of Red eftir Anne Carson

Mér miðar ágætlega með vegginn í bílskúrnum. Og horfir í að ég geti farið að snúa mér að næsta verkefni. Ég fékk Hemma Þorsteins til að skoða hjá mér eldhúsið og honum finnst sennilegt að það sé mygla undir eldhúsinnréttingunni – í öllu falli er timbrið blautt þarna undir. Hugsanlega er einhver leki sem við höfum ekki séð – en eiginlega er sennilegast að bleytan sé bara þarna ennþá eftir vatnsskemmdirnar síðasta haust. Það liggur þá fyrir að rífa upp alla innréttinguna og fjarlægja skemmdirnar undir henni. Mig svimar við þær framkvæmdir, svona satt best að segja. Og að vera eldhúslaus í heila viku, minnst. Ætli sé samt ekki best að byrja bara á mánudag. Þá næ ég a.m.k. að klára vegginn á helginni. En svo er auðvitað engin trygging fyrir því að neitt af því sem maður gerir geri nokkuð gagn. Þessi gró komast út um allt, skilst mér; en einhvers staðar verður maður að hefja þetta stríð. 

Saga Nýhils: fjórða brot brotabrots brotabrotabrots

Það er hætt við að ég muni illa í hvaða röð hlutirnir gerðust. Á þessum tíma – áður en ég stakk af til Þrándheims og svo síðar Helsinki, veturinn 2001-2002 – umgekkst ég fólk sem síðar átti eftir að vera í Nýhil eða tengjast félagsskapnum á einn eða annan hátt (það var aldrei neitt félagatal; og því var viljandi haldið galopnu hverjir væru í Nýhil). Við Bjarni Klemenz tókum góða rispu í að rífast um hvor okkar væri meira bóhem og sennilega var það um þetta leyti sem hann átti í ástarsambandi við Þórdísi Björnsdóttur, sem ég kynntist þá sennilega í gegnum hann. Pétur Már – síðar trommari í Skátum og víðar – var vinur Mella vinar míns og eitthvað að dufla við skáldskap (einsog reyndar Melli). Viðar Þorsteinsson átti heima í næstu götu við mig – í kjallaranum hjá foreldrum sínum og ég var stundum boðinn í mat, sérstaklega þegar þeir feðgarnir voru einir heima. Steinar hitti ég einu sinni á bar þar sem ég var að selja ljósritaðar smásögur – ég fór á hnén, bukkaði mig og beygði fyrir þekktasta götuskáldinu sem ég þekkti. Seldi honum bækur en ég held við höfum lítið talað saman. Stína (Kristín Eiríksdóttir) – sem ég kynntist á IRC-inu sirka 1996, þegar ég var átján og hún líklega fimmtán – var með Hauki Má í hálfan vetur eða svo. Viðar Örn Sævarsson – sem síðar var í alls konar hljómsveitum og flutti svo til Danmerkur – var líka þarna einhvers staðar. Nema það hafi verið síðar. Við Sölvi Björn áttum talsvert mikið samneyti – unnum saman í Bókabúð Máls og menningar og komum okkur upp þeim furðulega óvana að tjalda í stofunni heima hjá honum á háskólagörðum eftir langar nætur að sumbli. Í gegnum hann kynntist ég Sigga „fáfnisbana“ Ólafssyni – sem nú er verkefnastjóri í Norræna húsinu. Þeir Sölvi höfðu gefið út bókmenntatímarit saman þegar þeir voru í menntaskóla – það hét Blóðberg, að mig minnir, og þar voru viðtöl við alls konar stórbokka í íslenskum bókmenntum. Svona grand old men. Og svo var Kiddi vinur Sölva eitthvað að þýða með honum úr frönsku – en ég man enn ekki hvers son hann var. Kristinn Tómas – reyndi ég að gúgla, en það virðist vera einhver annar. 

En ég man ekki til þess að hafa ámálgað Nýhil við neitt af þessu fólki – þótt það sé í sjálfu sér ekkert ósennilegt. Enda var ennþá meira en ár í að Nýhil „gerði“ nokkuð sem setjandi væri stimpil á. 

Engin ummæli:

Skrifa ummæli