17. ágú. 2016

Það kom nýr dagur og ég gleymdi því að ég ætlaði að byrja daginn á að blogga. Þetta átti að verða nýi vaninn minn. Í dag byrjaði ég hins vegar daginn á að flytja skrifstofuna mína úr svefnherberginu yfir í gestaherbergið; strax og gestirnir voru lagðir af stað til Reykjavíkur. Það er ólíft í bílskúrnum fyrir sagga og myglu og ólykt – ég hef hugsað mér að byrja að takast á við það næsta mánudagsmorgun og því lýkur sjálfsagt ekki fyrren í fyrsta lagi fyrir jól. Ég þarf að byrja á því að taka til og gera pláss svo ég geti rifið niður innveggina; svo þarf ég að koma fyrir alla leka á veggjunum, reisa nýja innveggi og millivegg, loka niðurfalli, flota gólfið, laga loftræstingu og líta undir baðherbergið í horni skúrsins (það er óttalegt skítmix frá fyrri eigendum, sturtan lekur og svona – kannski er þetta í lagi þarna undir og kannski ekki).

Í gær ætluðum við út að borða. Reyndum að bóka borð á Tjöruhúsinu og Hótelinu (Við Pollinn) en þar var allt uppbókað fram eftir kvöldi og við vorum með krakkaskarann. Í sjálfu sér var nóg pláss á Við Pollinn en það ku hafa verið skortur á kokkum í eldhúsinu. Við reyndum ekki einu sinni við Húsið – átta saman, þar er ekki nóg af borðum. Settumst á Edinborg, sem var pakkað, og fengum ágætis mat. En ef fer sem horfir þarf augljóslega að bæta eitthvað í flóruna hérna yfir sumarmánuðina. Það er eitthvað fullkomlega absúrd við að maður geti hugsanlega hvergi fengið mat nema á Hamraborg og Thai Koon – á venjulegu þriðjudagskvöldi (og raunar kemur Thai Koon ekki til greina því þau eru nærri því aldrei með grænmetisfæði eða fisk, og Nadja borðar ekki kjöt).

Altso helvítis túristar (helmingur okkar – gestirnir – var reyndar túristar). Svo pissar þetta og skítur út um allt og lætur björgunarsveitir sækja sig sokkalaust upp á heiðar.

En nú þarf ég að fara að vinna.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli