27. júl. 2016

Nætur í Malmö. Hvað voru þær margar? Ég á erfiðara með að binda hugsanir mínar í orð, finnst mér, eftir því sem ég verð eldri, en ætli þær hafi ekki verið fimm. Nú er ég í Stokkhólmi fram á annað kvöld. Ætla að hitta þýðandann minn, sem er að ganga frá Heimsku, kaupa tösku undir gítarinn minn (Epiphone SG Pro), skokka og borða eitthvað gott í kvöldmat. Á morgun koma Nadja, Aram, Aino og líklega Liam frændi líka – við ætlum á Vasasafnið og svo til Västerås.

Það versta við að ferðast með næturlestinni er hvað ég sef lítið. Það var geðbilaður hiti í lestinni í nótt. Alveg gersamlega sturlaður. Og svo er lestin einfaldlega ekki nógu lengi á leiðinni; kemur á áfangastað 06.15. Ég á bókað herbergi á hóteli en get líklega ekki tékkað mig inn fyrren á hádegi.

Í Malmö hitti ég ósköp af fólki og átti góðar stundir – meðal annars Mats Kolmisoppi (sem biður að heilsa Auði Jóns og Sigurbjörgu Þrastar, ef þær sjá þetta), át hádegisverð með Athenu Farrokhzad, lenti á sörpræs fylleríi með Alex og Gustaf hjá Vertigo forlaginu, í dýflissunni undir forlagskontórnum, fékk að hanga með Idu Börjel og Jenny Tunedal, baða mig á Kallbadsstranden (sem er einhver mesti lúxus sem ég hef upplifað lengi), fara á opnun á nýjum latínóbar, og svo voru það Rakel og Karin og Benjamin og allir hinir. Mest hékk ég með Per, vini mínum og útgefanda, og bauð honum og Thomasi – sem á hinn helminginn í Rámus – í plokkfiskveislu. Og ég keypti sem sagt gítarinn líka, sem nú vantar bara góða tösku.

Athena spurði mig í hádegisverðinum hvort mér væri það metnaðarmál að skrifa bækur sem væru innbyrðis ólíkar og ég svaraði því til að já, það væri það, en mér væri að lærast líka að allar þessar bækur – frá Blandarabröndurum til Illsku til Ást er þjófnaður til Hugsjónadruslunnar til Fönixins til Heimsku og Hnefa og Plokkfiskbókarinnar – ættu miklu meira skylt en ég hefði gert mér grein fyrir í upphafi. Að ég væri kannski alltaf að hnita í kringum sömu hlutina; hringsóla innan sama hugarheimsins og kannski bara að merkja einhverjar leiðir inn á korti, svona einsog maður ráfar um stórborg og áttar sig smám saman á því að hin ólíku hverfi, hin ólíku hús, tilheyra öll sömu heildinni og eiga einhverja innbyrðis lógík, eitthvað samhengi, án þess að maður geti endilega bent á nákvæmlega hvað það er (annað en að hýsa fólkið og starfsemi fólksins).

Ég orðaði þetta nú eitthvað óljósar samt við Athenu og hún spurði hvað það væri sem ég teldi að bækurnar ættu sameiginlegt. Og þá varð mér eitthvað færra um svör – líklega muldraði ég eitthvað um ídentítet, um það hvernig við mótuðumst af því að horfa á aðra og vera séð og horfa á aðra horfa á okkur. Eftirlit í Heimsku er sú hugmynd á anabólískum sterum; lífið í störunni. Það er auðvelt að sjá þetta líka í Illsku, Gæsku og Hugsjónadruslunni – eitthvað minna í Eitrinu (sem fjallar um fólk sem sést lítið og sér illa og er dálítið rænulaust um augnaráð annarra). Mér finnst þetta augljóst í Plokkfiskbókinni, eitthvað síður í Ást er þjófnaður, þótt það sé þarna samt – ekki síst að því marki sem hún er autofiktíf.

Í ljóðunum er kannski einsog þetta augnaráð – þetta hringsól – þá færist yfir á tungumálið sjálft. Hvernig við sjáum tungumálið og hvernig tungumálið sér okkur; hvort hægt sé að skapa „nýja“ sýn á tungumálið (auðvitað er hún oft marginalt ný – stundum snýst það um kunnuglegar aðferðir í nýjum aðstæðum) og láta tungumálið sjá hlutina á nýjan hátt. Nú er ég ekki endilega að gera tilkall til byltingarkennds frumleika – ég hef takmarkaða trú á slíkum fimleikum – ég á við „nýtt“ í hversdagslegri skilningi, eða a.m.k. þannig að það er eitthvað sem allir hafa aðgang að og þarf ekki séní til (ég hef takmarkaða trú á séníum líka).

Annars veit ég aldrei hvort hugsanir mínar eru að verða flóknari eða óskýrari eða bæði. Og tilgerðarlegri, auðvitað, en það er óhjákvæmilegur fylgifiskur þess að taka sig alvarlega. Og auðvitað þarf maður að taka sig alvarlega, þótt það sé líka mikilvægt að koma upp og anda reglulega – að hafa húmor fyrir því að maður sé doldið sjálfhverft fífl – þessu bloggi er hvort eð er ætlað að vera meira í ætt við gamaldags dagbók en kjallarapistla. Verkfæri til þess að hugsa frekar en frágengin hugsun.

Sem er kannski líka ágætis lýsing á bókunum mínum og þeim bókmenntum sem ég kann vel við – þetta er a.m.k. sæmileg útskýring á því hvað ég meina þegar ég segi að ég sé „tilraunaskáld“ – og skýrir líka hvað ég get verið kontrarian og þrætugjarn; hvað ég á bágt með t.d. þá einstefnuhugsun sem viðgengst í allri pólitík, frá grasrót og uppúr. Ég skil að hennar geti verið þörf – efi fer illa með pólitíska baráttu, í pólitík verða allir alltaf að hafa 100% rétt fyrir sér eða tapa. Mér er meinilla við að draga ályktanir sem ég get ekki tekið til baka eða mælt í mót sjálfur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli