4. júl. 2016

Fótbolti snýst ótrúlega mikið um göfgi. Ég er ekki viss um að ég hafi áttað mig á þessu fyrren nú. Maður á að sýna af sér íþróttamannslega hegðun og skemmta sér og andstæðingum sínum. Þess vegna heldur enginn á Íslandi með Portúgölum (nema þeir sem eru Portúgalir – og meira að segja það er próblematískt) eftir fýlujafnteflið þegar Ronaldo kallaði okkur smámenni, en margir halda með Frakklandi, sem gersamlega rústaði okkur. Af því að þeir þökkuðu okkur fyrir leikinn og litu ekki á sigur sem sjálfsagt mál – ekki neitt sem þeir ættu einfaldlega skilið. Og eru þeir þó miklu betra fótboltalið en Portúgal.

Þess vegna er Steven Lennon líka í svona vondum málum.  Ummæli hans um að nú loks væru menn að græða á því að spila góðan fótbolta voru afskaplega ógöfug – eiginlega ruddaleg, í ljósi aðstæðna. Hann gaf þar með í skyn að sigur íslendinga áður – líklega gegn Englandi – hefði verið óverðskuldaður. Réttu viðbrögðin – samkvæmt etíkettunni – og þau sem mátti sjá úti um allt meðal stuðningsmanna annarra þjóða voru: Þið eruð frábær, takk fyrir góða keppni.

---

Íslenskir stuðningsmenn eru góðir í þessari göfgi – líka þegar þeir eru að vísa til sín sem víkinga sem ætli að fara um lendur Evrópumanna með stríðsöxina á lofti. Það er einfaldlega gálaus húmor sem menn geta leyft sér vegna þess að þeir eru lítilmagninn í keppninni – þetta er einsog þegar litlir kettir urra á stóra hunda. Það væri flóknara mál ef Þjóðverjar ætluðu að koma með einhverjar blitzkrieg-líkingar eða Frakkar færu að vísa til nýlendustefnunar sem stórsigurs (og þó á ávöxtur hennar óbeint stóran hlut í liði Frakka). Það vill líka til að mjög langt er liðið frá víkingaöldinni – hún er ekki beinlínis körrent (sem seinni heimsstyrjöldin og nýlendustefnan eru).

Mestu skiptir síðan að þessu stærilæti fylgir afskaplega herramannsleg framkoma – af hálfu leikmanna, þjálfara og stuðningsmanna. Öðru máli gegndi líka ef víkingalíkingunum fylgdu barsmíðar á andstæðingum.

Eitthvað var líka um að fólk væri að halda því fram að Íslendingar hefðu aldrei verið víkingar. Ég veit svo sem ekki hvernig maður skilgreinir það – en fólkið sem nam hér land voru a.m.k. þrælahaldarar upp til hópa, hvað sem svo leið næstu kynslóðum þar á eftir. Víkingar voru líka margt fleira en ofbeldismenn – þeir áttu sér heilan menningarheim, sem var einmitt í forgrunni á stóru víkingasýningunni á The British Museum fyrir nokkrum árum, þar sem var lögð sérstök áhersla á að arfleið þeirra væri stærri og merkilegri en ofbeldið – merkilegt handverk, tæknikunnátta, siglingakunnátta og auðvitað sögur og ljóð.

En líkingamál er fyrst og fremst líkingamál – það hljómar kannski undarlega en maður á alls ekki að taka tungumálinu „bókstaflega“ heldur verður maður að túlka það. Tungumálið gerist ekki hjá þeim sem talar eða hinum sem heyrir – það gerist þarna á milli og er samkomulagsatriði. En til þess að samkomulagi megi ná um merkingu verður maður að taka tillit til þess sem er meint og leggja ekki lykkju á leið sína til að mistúlka orð annarra.

Maður bráðnar ekki í sólinni þótt maður sé „alveg að bráðna“ og maður drepst aldrei alveg í hnénu alveg sama hversu lengi maður er „alveg að drepast í hnénu“ og maður rústar ekki þeim sem maður segist ætla að „rústa“. Maður bara svona rétt mer þá í einhverjum sakleysislegum leik. Og þótt maður segist ætla að gera strandhögg í Evrópu fylgir því hvorki beinn né óbeinn stuðningur við nauðganir og gripdeildir á tíundu öldinni, nema í hugum hinna ofurviðkvæmu, sem koma óorði á heiðvirða PC-ara. Tungumálið úir og grúir af hernaðarlíkingum – kannski vill maður uppræta þær allar, en maður á þá ærinn starfa fyrir höndum. Og þá er líka mér að mæta, því mér finnst þær skemmtilegar.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli