19. apr. 2016

19. apríl

Ég fæ ekki mörg stig þessa dagana. Nenni ekki einu sinni að telja þau. Ég er með einhverja ferðalagstimburmenn (ekki af áfengi, vel að merkja). Blúsaður og viljasnauður.

Það fór allt úrskeiðis á heimleiðinni einsog á útleiðinni. Það kom enginn bíll að sækja mig út á flugvöll, einsog mér hafði verið lofað, svo ég hringdi á leigubíl. Já og ég hafði ekkert sofið um nóttina vegna magaverkja. Klukkan var fjögur að morgni.

Ég var bara tékkaður inn til Parísar, þar sem ég þurfti að tékka mig út og inn aftur. Þá kom í ljós að það hafði ekki verið bókaður neinn farangur á mig – svo ég þurfti að punga út 54 evrum fyrir því og 46 (!!!) evrum fyrir 3 (!!!) aukakíló.

Þegar ég var loksins kominn inn og ætlaði út í vél – eftir nethangs og kaffi – fann ég hvorki passann minn né flugmiðann. Ég fékk taugaáfall, ráfaði um flugstöðina í móki, og fann hann loks í öryggishliðinu.

Vélarnar voru báðar einsog sardínudósir og mér varð sífellt meira illt í maganum. Svaf ekki neitt.

Þegar ég kom til Reykjavíkur var ófært til Ísafjarðar, ég fékk að gista hjá Möggu frænku – þar sem ég skreið beint upp í (eftir heimsókn í apótekið) og talaði ekki við nokkurn mann. Uppúr miðnætti fóru verkirnir að hjaðna og ég sofnaði.

Ég flaug svo heim í býtið. Skipulagði aukaafmælisveislu fyrir Aino. Pakkaði inn gjöfunum hennar, sótti fleiri gjafir á pósthúsið (frá Jessicu frænku hennar og fjölskyldu), bakaði ananasköku. Aram kom heim klukkan 14 og við héngum til 15 þegar hann fór í dans og ég sótti Aino – ég hékk með henni til 16.30 þegar Aram og Nadja komu heim.

Í kvöldmat var upphitað risotto úr frystinum.

Og í dag afrekaði ég ekkert nema að lesa örfáar blaðsíður – þær síðustu – í Tram 83 eftir Fiston Mwanza Mujila. Fékk þær fréttir að vinkona mín ein, austurþýskur bókmenntaagent, væri látin – úr hverju veit ég ekki, hún var keðjureykjandi ökuþór og afar skemmtilegur félagsskapur. Og svo frétti ég að Illska væri seld til Króatíu.

Ég ætla að reyna að helga næstu daga lestri. Þetta gengur ekki.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli