7. jan. 2016

Njála Þorleifs, Mikaels, Ernu og Sunnevu

„Stefnir í þjóðarrifrildi“ stendur á forsíðu DV um Njáluleikrit Borgarleikhússins. „Arngrímur Vídalín dæmir“. Dómur Arngríms er upp á fjórar og hálfa stjörnu og ber yfirskriftina „Höfundar Njálu fundnir“.

Ég er ekki lengur á Facebook og hef því áreiðanlega misst af allra handa röfli um að þetta sé of nýstárlegt eða of mikið havarí og læti – altso því sem verður mótvægið við lofið í þessu aðsteðjandi þjóðarrifrildi – ég á enn eftir að sjá stakt neikvætt orð um uppfærsluna, sem er að vísu markaðssett sem umdeild sýning (einsog Þorleifur hefur um árabil verið kynntur sem umdeildur leikstjóri og fréttir sagðar af því reglulega þegar hann hneykslar fólk á meginlandinu). En Arngrímur spáir því engu að síður í lok leikdómsins að nú upphefjist þjóðarrifrildi. Í miðjum orgasmískum samhljóma fögnuði gagnrýnenda allra miðla.

Annars veit ég ekki hvort að rifrildi um gæði Njálusýningarinnar væri mjög spennandi, mér finnst ekkert ólíklegt að þau sem standi að sýningunni séu einfaldlega fullfær um að gera nákvæmlega það sem þau ætla sér og gera það vel. Hins vegar væri áhugavert að fá einhverja texta um hvað sýningin  – einhverja túlkun á henni aðra en að x, y og z sé svona og hinsegin og vel gert og skemmtilegt (eða mætti fara betur, einsog sagt hefur verið um stöku atriði, en þó yfirleitt með einhverjum fyrirvara).

6 ummæli:

  1. Jón Viðar fór í hléi sem og nokkrir aðrir. Hljóðalaust.
    That´s it.
    Enda öllum skítsama hvað gerist á leiksviðum landsins.

    SvaraEyða
  2. Við lendum iðulega í þessu rithöfundar – meira að segja þeir vinsælustu – að fólk bara loki bókunum ókláruðum.

    Annars held ég það sé rangt mat hjá þér með áhugann – leikhúsgagnrýni er eina menningarfjölmiðlunin sem enn fær nokkurt pláss í prentmiðlunum (ef frá eru talin hjartnæmu einkaviðtölin við listamennina, sem ég tel alveg skilyrðislaust frá).

    SvaraEyða
  3. Áhuginn er til staðar (sem betur fer) en það þarf helvíti mikið að ganga á í sýningunni til þess að þjóðin fari að rífast um það.
    Það er helst að fólk nenni að rífast um eitthvað sem það hefur ekki séð, eins og dæmin sanna...

    SvaraEyða
  4. Það er varla að ég hafi heyrt neitt neikvætt heldur, tveimur og hálfri viku síðar. En vel að merkja hafði ég ekki lesið neinn dóm þegar ég skrifaði minn; forðast það reyndar og finnst það ágætis siður að skrifa mitt stykki áður en ég les annarra.

    Þetta rifrildi hefur ekki gengið eftir. Ég er hissa á því að vísu, en kannski þýðir það að Njála sé ekki eins heilög og talið hefur verið, eða þá bara að þrátt fyrir heilagleikann hafi fólki almennt þótt nálgunin skemmtileg. Það gleður mig að þessi sýning hafi hitt svona vel í mark, þótt umræðan líði þá kannski fyrir gagnrýnisleysið á móti.

    Aftur á móti var töluvert rifist um Sjálfstætt fólk árið á undan. Þar var keimlíkum brögðum beitt og sjálfum fannst mér það ekki nógu vel heppnað, en það kom margt gott út úr þeirri umræðu.

    SvaraEyða
  5. Þú spáðir þjóðarrifrildi um listaverk, en uppskarst þjóðarrifrildi um listamannalaun. Einsog skáldið kvað, two out of three ain't bad.

    Það er stundum hætt við því að ef lagt er upp með að verk eigi að vera dálítið transgressíft – einsog mér virðist raunin með Njálu – þá endi umræðan svolítið í því að ræða bara hvort „þetta“ (hvað sem þetta er) megi eða ekki. Ég hef ekki séð sýninguna, bara lesið dómana, en mér finnst ég litlu nær af þeim lestri hvað uppsetningin segi um Njálu, eða hvað þessar Njálur segi um lífið. Raunar finnst mér algengt af lestri leikdóma – og ég er frekar ötull lesandi þeirra, þótt ég komist sjaldan í leikhús – að niðurstaðan sé ýmist að kvarta undan einhverju ósamræmi í uppsetningu eða lýsa þeim einsog vel heppnuðum flugeldasýningum. En það er auðvitað ekki hlaupið að því að kjarna merkingu listaverka í orðum – einsog að flauta spýtukall, teikna laglínu. I don't know.

    SvaraEyða
  6. Já, ég skil hvað þú meinar. Það er helst að maður nái að greina einhverja þræði og þemu og þá verður dómurinn talsvert lengri en ella (ekki að ég hafi þurft að kvarta undan plássi sjálfur, mér finnst ég hafa afskaplega skilningsríkan ritstjóra), en almennileg greining situr oftast á hakanum.

    Ég íhugaði eftir Njálu að skrifa aðra grein t.d. í TMM til að takast betur á við verkið, en eins og með svo margt sem ég vil gera þá hef ég ekki getað komið því að.

    Fyrir vikið er umræðan um leikhús dálítið eins og þú segir: A er heldur neikvæð en B var voða hrifinn af þessu, og innihald þess sem A og B segja er mælt í stjörnum. Það þarf auðvitað að þjónusta hinn almenna lesanda sem vill bara vita hvað á að sjá en ekki endilega hvað það merkir, en mig grunar samt að þeir lesendur séu færri en hinir sem vilja eitthvað bitastæðara.

    SvaraEyða