17. jan. 2016

Eitthvað á stærð við áratug, eitthvað á stærð við bók

Fyrir rúmum áratug hringdi Símon Birgisson í mig – þá var hann blaðamaður á DV – og spurði hvort ég gæti skrifað fyrir sig kjallarapistil og skilað honum innan við klukkustundu síðar. Ég var í mat hjá mömmu og pabba, en tók áskoruninni, hljóp heim og negldi niður kjallarann á 40 mínútum sléttum og var mættur aftur til foreldra minna áður en maturinn var borinn fram. Síðan sendi ég reikning á Mikael Torfason, ritstjóra, sem hefur enn ekki verið greiddur. En það er svolítið svona í þessum bransa, maður fær ekki greiddan nema annan hvern reikning, ef maður er ekki með handrukkara á sínum snærum. Og þá koma listamannalaunin sér vel (sem ég fékk reyndar ekki fyrren löngu síðar).

Um svipað leyti – en þessu ótengt – reiknuðum við Steinar Bragi út hvað við gætum skrifað margar ljóðabækur af meðallengd á ári á fullum afköstum, ef við sætum við 16 tíma á dag og gerðum engar gæðakröfur. Nálguðumst orðin einsog hver önnur verksmiðja. Niðurstaðan var sú að saman gætum við pungað út 10 þúsund ljóðabókum, sem hver um sig væri svona sextíu síður, með kannski 30 orðum á síðu. Við íhuguðum að gera þetta en afréðum að djókið væri ekki fyrirhafnarinnar virði.

---

„Það er að myndast þessi pressa. Ef ég gef ekki út bók á hverju ári þá verð ég bara gjaldþrota,“ segir Stefán Máni í viðtali við Fréttablaðið og stingur upp á því að það verði sett tímatakmörk á það hversu mikið maður getur fengið úr launasjóðinum – tvö ár, segir hann og gerir því skóna að ríkið eigi ekki að bakka mann alla leið ef maður er með stærra verk í smíðum. Stefán er vel að merkja höfundur sem situr á metsölulistum – ef hann gefur ekki út bók á ári verður hann gjaldþrota. Hvað haldið þið að það myndi þýða fyrir Gyrði? Sem gefur vel að merkja út bók, nærri því hvert einasta ár – en þyrfti áreiðanlega að henda í 5-6 stykki til að eiga fyrir leigunni. Og er samt einna mestur íslenskra höfunda.

Mig minnir að það hafi tekið Joyce 17 ár að skrifa Ulysses. Stórar og miklar bækur taka að jafnaði 4-5 ár að lágmarki – ég skrifaði Ást er þjófnaður (og braut um og gaf út) á fjórum vikum. Og hún er fín. En ég hefði aldrei getað skrifað Illsku á einu ári, eða einu sinni tveimur. Ég skrifaði hana á fjórum árum og það gerði næstum því út af við mig – þegar ég lauk við hana var ég þunglyndur, 40 kílóum í yfirvigt, þegar jólabókaflóðinu lauk fór ég í hálfgerða maníu, skildi við ófríska konuna mína. Það tók mig alveg heilt ár að lenda aftur á fótunum, svona sirkabát. 

---

Bók er altso enginn mælieining – einsog Nýhil sýndi á sínum tíma með útgáfu á þrekvirki Óttars Martins Norðfjörð um Hannes Hólmstein Gissurarson. 

Ég hef ekki hugmynd um hvað Andri Snær hefur verið að skrifa síðustu 10 árin – fyrir utan Tímakistuna (og eitt og annað fleira, skilst mér, leikrit og kvikmyndahandrit og þvíumlíkt). Það veit enginn nema Andri og launasjóðurinn. Ég veit að það hefur margoft verið hvíslað um þetta við mig. Það er reyndar alltof mikið hvíslað í þessum heimi, alltof mikið baktal – alltof fátt sagt upphátt, alltof lítil hreinskiptni. 

En bók er ekki mælieining. Hún er ekki af tiltekinni stærð – stutt bók getur verið stór og löng getur verið lítil. Það getur tekið korter að skrifa meistaraverk og maður getur streðað í áratug og uppskorið ekkert – á tíu árum getur maður þurft að yfirgefa tíu ólík handrit, hugmyndir sem gengu ekki upp. 

Ég var lengi að skrifa Heimsku – þrjú ár. Sérstaklega miðað við lengd. Það tók langan tíma að finna rétt sjónarhorn til að fá hana til að virka – svo hún yrði einsog ég vildi hafa hana. Stundum er þessi vinna ekkert nema frústrasjón – það er að segja ef maður hefur einhvern listrænan metnað. Og svo flækist ýmislegt fyrir – velgengni fylgir alls konar aukavinna, flakk og viðtöl og ble og bla, tíminn er fljótur að fara. Ég endaði á að flýja veturlangt til Víetnam til að fá frið til að klára Heimsku. 

Það er auðvitað engin vörn fyrir Andra að hann hafi verið ötull náttúruverndarsinni – einsog sumir hafa látið í veðri vaka. Það er ekki starfið sem hann þiggur laun fyrir úr sjóðnum, hvað sem mikilvægi þess líður. Andri hefur hins vegar skrifað bækur sem lifa með þjóðinni – þar fremst auðvitað Bláa hnöttinn. Og stór hluti af starfi rithöfundarins er fólginn í öðru en að beinlínis sitja við og skrifa orð. Ef það væri starfið hefðum við Steinar Bragi gefið út 10 þúsund ljóðabækur árið 2005. Og staðið uppi sem sigurvegarar, mestu höfundar þjóðarinnar frá upphafi, og gætum óhræddir þegið listamannalaun það sem eftir er. 

3 ummæli:

  1. Nafnlaus1/17/2016

    Ekki var JK rowling í vandræðum að skrifa bækur. vantar greinilega alvöru rithöfunda sem lifa ekki á betli.

    SvaraEyða
  2. JK Rowling fékk nú listamannalaun á meðan hún skrifaði. Það er bara þannig. 8000 pund frá Scottish Arts Council.

    SvaraEyða
  3. Úpps! ætli hæún hafi ekki örugglega andurgreitt :(

    SvaraEyða