15. jan. 2016

Líknarmorð og listamannalaun

Klukkan er korter yfir tíu að morgni og aðalfréttir dagsins eru tvær. Fjórir af helstu rithöfundum þjóðarinnar hafa verið samfellt á lágmarkslaunum frá ríkinu í tíu ár; og þörf er á dýpri umræðu um líknardráp hér á landi.

Það er eitthvað ljóðrænt við þetta. „Sjaldgæfara en fólk heldur að sjúklingar vilji binda enda á líf sitt“.

Virkir í athugasemdum dunda ósáttir við sitt, að venju, en mér finnst einsog fjölmiðlar gangi óvenju hart fram í ár við að kynda bálið. Og í sjálfu sér margt sem mætti athuga og hefur verið lengi – umræðan kannski viðkvæm í sjálfri sér, eftir a.m.k. áratug af eins konar „grunsemdarvæðingu“. Fjölmiðlar slá í bjölluna, virkir fara út í eitt hornið og treflar í hitt, og svo er slegist.

---

Hvað varðar þörfina á laununum sem slíkum þá er tómt mál að tala um bókmenntalíf á litlu landi án þessa – meira að segja í stærri löndum væri það meira en lítið próblematískt. Það rekur sig ekkert nema barnalegur meginstraumurinn, lægsti samnefnari. Þetta þarf ekkert að diskútera lengur. Auðvitað myndu alltaf einhverjir sinna bókaskrifum – og gerðu það áður fyrr – en það yrði þá ýmist mjög hungrað fólk eða mjög ríkt fólk. Fyrst og fremst yrði þetta miklu færra fólk sem myndi afkasta miklu minna, kæmu kannski út þrjár-fjórar skáldsögur á ári, þar af 90% krimmar – og þá værum við varla þjóð, nema upp á puntið lengur. Kannski færi það einsog á samíska málsvæðinu þar sem á góðu ári kemur ein – og svo kannski nokkrar ljóðabækur.

Það á bara ekki að þurfa að segja þetta ár eftir ár. Þetta vitum við einfaldlega (einsog við vitum að peningarnir skila sér margfalt til baka – bara virðisaukinn af bókmenntunum koverar hverja einustu krónu úr sjóðnum).

---

Hvað varðar krítíkina þá held ég það sé óvitlaust að tekjutengja launin, með einhverjum takmörkunum þó. Listamannalaun eru alveg áreiðanlega ekki hugsuð sem heildarlaun eins eða neins, enda lúsarlaun – 350 þúsund fyrir skatt og gjöld og kostnað er varla nokkurn tíma nema 200-250 þúsund út, rétt svo hálf laun – og ströng tekjutenging myndi festa alla rithöfundastéttina í fátæktargildru. Rithöfundar vita samt illa tekjur sínar fyrirfram og erfitt að ætla að afsala sér tekjuörygginu upp á að það detti eitthvað óvænt inn – hreinlegast væri fyrir þá sem komast í uppgrip upp á fleiri hundruð þúsund að launin skertust sjálfkrafa.

Ég hef verið á fullum ritlaunum í þrjú ár, ef mér skjátlast ekki, og á þeim tíma hefur mér gengið bærilega – selt rétt í leikhús og til ótal landa, gefið út nokkrar bækur og meira að segja eina sem seldist ágætlega, ferðast og lesið upp, skrifað pistla og ritgerðir og meira að segja þýtt nokkur verk. En líf mitt er bölvað hark engu að síður og ég er skuldugur upp fyrir haus, á stundum ekki fyrir reikningunum – þótt það gerist blessunarlega ekki of oft. Ég var líka meira og minna í fullu starfi við að skrifa svo til launalaust í svona 6-7 ár – með annarri vinnu, næturvörslu, blaðamennsku, skúringum, elliheimilum, sambýlum, skipamálningu, bókmenntaþýðingum og rækjuþíðingum – áður en ég fékk krónu úr þessum blessaða launasjóði. Og fékk stopult í 4-5 ár í viðbót. Þetta á við um marga aðra á þessum lista.

---

Það er ekki næg „armslengd“ ef fólk er í þeim sporum að velja nefndina sem svo tekur afstöðu til umsókna þeirra. Vel má vera að valið á nefndinni snúist fyrst og fremst um að rella í fólki – hverjum sem er – að taka þetta nú í guðanna bænum að sér, frekar en að þetta sé eftirsóttur bitlingur, en það bara breytir engu. Þetta er ekki armslengd – í mesta lagi framhandleggs.

---

Rithöfundar mega ekki vera í meira en þriðjungsstarfi annars staðar, en auðvitað þýðir það bara að þeir mega ekki vera á yfir 33% föstum launum – það er ekkert sem segir að þeir geti ekki bara verið á skíðum 50%, á sólarströndum 25%, á kaffihúsum 15% og svo skrifað bara 10%. Þeir geta verið í launalausri vinnu við allan fjárann – svo fremi sem það sé ekki á pappírunum – og þeir geta unnið alls kyns verktakavinnu sem tengist fagi þeirra. En þeir verða vel að merkja að skila skýrslu um hverju þeir hafi komið í verk á launatímabilinu.


---

Umsóknirnar eru margs konar. Einu sinni heyrði ég af umsókn sem var bara: „Skrifa bók ef ég nenni.“ Mér finnst það fyndið en nefndinni er kannski vorkunn að hafa ekki húmor fyrir því. Í raun stendur í öllum mínum umsóknum: „Skrifa bók ef ég ræð við það.“  En ég hef um það fleiri orð, sem hafa takmarkaða merkingu, til að hlýða forminu. Sannleikurinn er oft einfaldur.

---

Og auðvitað orka úthlutanir tvímælis – þær eru huglægt mat nefndarinnar, byggt á gögnum sem enginn sér nema hún. Sumir fá fyrir það sem manni virðist vera lítið á meðan aðrir fá ekki fyrir það sem virðist vera ansi mikið. Sumir virðast vera „innundir“ og aðrir úti í kuldanum.

Það hallar á unga höfunda – mér finnst sennilegt að það halli á konur, þótt ég hafi ekki kannað það, á þær hallar víða, það er þekktur tendens, og líklega hallar sérstaklega á eldri konur. En nefndin á að taka tillit til þess.

Það hallar meira á mann eftir því sem maður fjarlægist höfuðborgina – þeir höfundar sem ekki búa þar eru með annan fótinn þar (ég fæ reglulega fyrirspurnir um að gera eitt og annað í borginni og fólk verður beinlínis steinhlessa þegar ég segist búa annars staðar). Mér finnst sennilegt að það séu fleiri höfundar búsettir í útlöndum en á Íslandi utan við suðvesturhornið.

Oft fær maður á tilfinninguna að þeir sem eru með „vesen“ fái að gjalda þess. Í fyrra var Hermann Stefánsson úti – hann þykir duglegur við að krítísera, var meira að segja krítíseraður fyrir að krítísera of mikið í fyrra, kallaður „vígreifastur orðháka“ (og hefur sjálfur skrifað grein um að ég ætti að rífast minna, í lesbókina fyrir löngu). Í ár er Mikael Torfason úti – hann hefur alltaf verið hornreka í bókmenntaheiminum, held ég reyndar með vilja. Bjarni Bernharður er alltaf úti og oft með vesen. Og svona mætti lengi telja. Það margborgar sig einfaldlega að vera stilltur, í þessum bransa einsog öðrum – þeir sem gera fólki gramt í skapi borga pirringinn fullu verði á endanum. Um það þarf ekki heldur að rífast.

---

Best væri náttúrulega ef hægt væri að ræða þetta án sturlaða kaffistofuspekingsins í kommentakerfunum. Og án þess að rithöfundum og listamönnum væri stillt upp í vörn svo drita mætti yfir lýðinn, þar til meira að segja við sem erum tilbúin til að vera með vesen erum farin að vitna í hagskýrslur og krefjast þess að umræðan – sem verður fáránleg á fáeinum mínútum – verði tekin af dagskrá áður en við lendum í svelg einhverra fljótræðisákvarðana og öllum skipað að líknardrepa sig fyrir sjúkrahús, öryrkja og umferðarmannvirki.

4 ummæli:

  1. Flott grein- já það er erfitt að vera gagnrýninn á jafn litlu landi!

    SvaraEyða
  2. Það besta sem ég hef séð um starfslaun rithöfunda til þessa.

    SvaraEyða
  3. Mjög góð grein.

    SvaraEyða
  4. Þetta er hinn raunverulegi kjarni málsins en í umræðunni er botninn suður í Borgarfirði. Hins vegar er hismi utan á kjarnanum sem mætti alveg ræða í rólegheitum og laga.

    SvaraEyða