29. des. 2015

Bassafanturinn frá Stoke-on-Trent



Fyrir fimm dögum – á aðfangadag – hélt Lemmy Kilmister upp á 70 ára afmælið. Fyrir þremur dögum greindist hann með krabbamein. Hann tók dauðastríðið einsog hvert annað tveggja mínútna rokklag og drapst í gær. Guðrún Eva skrifaði einhvers staðar að ástin væri ákveðinn samhljómur milli orða og gjörða. Í Lemmy Kilmister ómaði þessi samhljómur, hann var alltaf í takt, alltaf rétt stilltur, ekki falskur þráður í honum, löngu runninn saman við hljóðfærið, tónlistina og nú flýtur hann út í eterinn. Kannski var hann aldrei „maður“, í þeim skilningi sem við leggjum venjulega í það orð. Með kostum sínum og kenjum og ómannlegum eiginleikum var hann kannski miklu nær því að vera einhvers konar heiðið goð. Og hafi Lemmy verið ás, þarf a.m.k. enginn að efast um hvaða ás hann var.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli