27. des. 2015

27. nóvember, 1. færsla

Stundum, suma daga, kannski þennan, langar mig að skrifa að minnsta kosti eina góða setningu. Það er ekki jafn erfitt og margir ímynda sér, færsluritari þjáist ekki af skáldlegum ofsa, enda í jólafríi. Þetta er fyrst og fremst spurning um að setjast niður og skrifa setninguna og krefst ekki meiri ofsa en að fara og moka af tröppunum. Setningin þarf, fyrir utan að vera málfræðilega rétt og sæmilega hljómfögur, að vekja athygli og skapa merkingu. Hún þarf að óma í smá stund í höfði lesandans og höfundurinn, færsluritari, þarf að ná út fyrir sjálfan sig – setningin þarf að vera gáfulegri en sá sem skrifaði hana, í þeirri merkingu að hún sé stærri en svo að færsluritari hefði getað látið hana frá sér ef hann hefði einfaldlega hugsað beint af augum, byrjað að tala, svona einsog yfir einhverjum kaffibolla eða í kommentakerfi. Þessi færsla er reyndar skrifuð yfir kaffibolla, en það er aukaatriði. Ég er ekki viss um að hér sé kommentakerfi. Ég hef ekki athugað það. Það er þá ekki viljandi. Góðar stundir.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli