10. nóv. 2015

Spéhræðsla og hugleysi

Ég kom til Reykjavíkur upp úr hálftvö eftir miðnætti í fyrradag og fékk að gista hjá Ásthildi og Juan. Svaf í sjö tíma, fékk kaffi hjá Ásthildi, gaf henni Heimsku og rauðvín, spjallaði dálítið og fór svo á fund sem ég veit ekki hvort ég má tala um, en snerist sem sagt um að kanna möguleikann á því að kvikmynda Heimsku (þetta var ekki Balti, en samt alveg legit og impónerandi og flatterandi). Síðan stökk ég upp í leigubíl og fór upp í Odda, þar sem ég las fyrir starfsmenn í hádegismatnum og fékk að borða „strangheiðarlegan fisk“ einsog Stefán Hrafn Hagalín orðaði það áður en hann skutlaði mér niður á Mokka („Það klisjulegasta sem ég geri þennan mánuðinn: að skutla ljóðskáldi á Mokka!“) þar sem ég átti fund með Gunnari Smára Egilssyni um menningarfjölmiðlun á Íslandi.

Ég er byrjaður að safna hlekkjum hérna hægra megin (frá mér séð!) yfir menningarsíður. Ég sleppi úr þeim fjölmiðlum sem eru ekki með sérstaka undirsíðu fyrir menninguna – þar með er enginn Kjarni (sem er varla með neina menningarpressu), engin Stund (sem flokkar krítík undir „skoðun“) og enginn Moggi (sem flokkar menningu undir „fólkið“ og birtir ekki krítík á netinu).

Þetta er auðvitað hálfdautt, þannig lagað, sérstaklega krítíkin. „Faglegu“ umfjöllunina vantar (að jafnaði) annað hvort dýpt eða andríki og almenna umfjöllunin er einfaldlega of „almenn“ – nær ekki að draga fram hið áhugaverða og fáir sem skrifa hressandi texta um menningarmál. Jakob Bjarnar hristir stundum aðeins upp í hlutunum – meira í menningarfréttamennsku en krítík – og lætur síðan einsog hann sé til skiptis krossfestur af menningarelítunni og ritstjórum sem hafi í krafti stórkostlegustu nútímatækni lestrartölur sem sýna að „enginn lesi menningarumfjöllun“ (les: enginn lesi þá menningarumfjöllun sem blöðin birta, og skal kannski engan undra).

Og sic transit gloria og það allt saman. Auðvitað er margt ágætt gert og bla og bla, það vita allir – en allir, eða velflestir, vinna þessi menningarverk í framhjáhlaupum, með hálfri slakari hendinni og þykjast fá litlar þakkir fyrir – og núorðið, á tímum sem bjóða ekki upp á dýpri og merkingarbærari samskipti en lækið, sækist fólk bara eftir þakklæti og enginn sækist eftir respekt (mikið af þeirri krítík sem birtist þessa dagana er þess eðlis að maður spyr sig hvort hvorki gagnrýnandinn né miðillinn hafi nokkra sjálfsvirðingu).

Áður en ég settist niður með Gunnari Smára í gær hélt ég að lykillinn væri einfaldlega peningar. Að ritstjórn þurfi að eiga pening til að greiða gagnrýnendum (frekar en t.d. að hún sé unnin á korteri innanhúss af blaðamönnum sem eru að fylla upp í rýmið kringum auglýsingarnar, einsog er lenska) – svo ritstjórn geti leyft sér að hafna, krefjast breytinga, svo gagnrýnendum finnist þeir einhvers metnir. En eftir fundinn – og þetta var líklega ekkert sem GS sagði, ég skal a.m.k. ekki eigna honum það – fór ég að velta því fyrir mér hvort þetta snerist ekki heldur um sjálfsvirðingu þeirra sem skrifa. Og að maður sé fær um að hafa sjálfsvirðingu og vinna verk vel af hendi án þess að manni sé greitt fyrir það. Þetta þýðir auðvitað ekki að maður eigi ekki að fá greitt – menningarfjölmiðlun á Íslandi er alltof illa greidd, það er skandalöst. En ég held hún verði heldur ekki vel greidd eða verðmæt fyrren einhver fer að sinna henni öðruvísi en sem uppfyllingarefni eða hliðarhobbíi.

Annað sem sló mig og við hefðum kannski betur náð að ræða eitthvað – við ræddum hvernig listamenn hefðu farið á þennan handverksstað, til að mæta netinu, selja vínil og handsaumaðar bækur og svona – hvort leið menningarfjölmiðlunar væri kannski einmitt fólgin í einhverju slíku. Nostalgísku menningartímariti. Vikulegri og fallegri Lesbók sem fólk gæti keypt í áskrift og lægi frammi á kaffihúsum.

Annars finnst mér almennt einsog trúin á bókmenntirnar fari þverrandi – kannski er það út af þessum frakklandsheimsóknum mínum, þeir taka bókmenntum svo alvarlega, frakkarnir, og hluti af því er að leyfa sér einfaldlega að vera tilgerðarlegir með það – háfleygir eða intellektúal, væmnir og rómantískir, en gefa aldrei neinn afslátt, eru passjóneraðir lesendur og höfundar. Á Íslandi nennir enginn að vera passjóneraður, það er svo mikið návígi, hætt við að maður slái einhvern óvart utan undir ef maður fer að baða út höndunum. Ekki þar fyrir að þetta er kannski ekki íslenskt, meira norrænt – við köllum það kaldlyndi en líklega er það meira spéhræðsla og hugleysi.

Eftir fundinn á Mokka fór ég út á Reykjavíkurflugvöll og flaug heim. Mér sýndist ég sjá Ragnar Sólberg á flugvellinum, en ég er ekki alveg viss, í öllu falli var Venni (Hemmi Hressi) þarna að fylgja fjölskyldunni í flug en varð sjálfur eftir. Flugvélin fór Djúpið á lágflugi, stímdi undir skýjabakka sem flugu sífellt lægra og lægra svo flugvélin þurfti á endanum að fara upp fyrir þá (nú eða stinga sér í sjóinn). Okkur var hótað að nú yrði snúið við, fjörðurinn væri lokaður, sem var fáránlegt eftir að hafa séð Arnarnesið í seilingarfjarlægð, en eftir einn kortershring var hægt að stinga sér á milli tveggja hnoðra og lenda. Og allir dæstu af kátínu.

Ég fór í Bónus, dreif mig heim og eldaði kvöldmat (spagettí með pestó, salat og gufusoðið brokkólí, ásamt hvítlauksbrauðum), fékk síðbúna feðradagsgjöf (hlaupasokka) og eftirrétt („sænska lengju“ úr félagsbakaríinu) áður en ég las fyrir börnin (Sólbjörtu Valentínu fyrir Aram og Tumi bakar fyrir Aino). Eftir að þau sofnuðu spjölluðum við Nadja svolítið og horfðum síðan á The Killing. Þegar við ætluðum að fara að sofa uppgötvaði ég að ég hafði gleymt Calvino heima hjá Ásthildi og Juan – eða uppgötvaði a.m.k. að hún væri horfin – og las Things Fall Apart grátandi af söknuði þar til ég sofnaði. Ekki að hún hafi ekki verið fín en Calvino er bara svo magnaður.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli