23. nóv. 2015

París, Frans, 23. nóvember 2015, tíu dögum eftir árásirnar í 10. og 11. hverfi

Á leiðinni upp að Bataclan rákumst við á samískan rithöfund sem ég þekki, Sigbjörn Skåden. Þetta var fyrir fjórum-fimm dögum, áður en við fórum til Caen, áður en við komum til baka. Við töluðum um veitingastaði með Michelinstjörnur, fjármögnun menningarverkefna fyrir ungt fólk og langferðalög um Bandaríkin. Síðan kvöddum við Sigbjörn og konuna hans og héldum áleiðis að Bataclan, skoðuðum blómin og áletranirnar. Það vakti athygli mína hversu mikið af tjáningunni á grindverkinu handan götunnar – þar sem blómahafið breiðir úr sér – var yfirlýsing um samstöðu. Víetnamar sýna samstöðu, Alsíringar sýna samstöðu, kaþólikkar sýna samstöðu, múslimar sýna samstöðu, strætóbílstjórar sýna samstöðu, háskólakennarar sýna samstöðu, grunnskólabekkur 3. GK sýnir samstöðu. Og svo voru gjafir, eins konar fórnir – eða ég veit ekki. Skartgripir, skraut, tónlist – ég sá fyrstu plötu Rage Against the Machine á vínyl liggja þarna í regninu. Og úti um allt fólk með kökkinn í hálsinum.

Í Caen var okkur sagt að orðið hefði messufall á suma viðburði, sérstaklega tónleika. Á eina tónleikana mættu bara 100 manns þótt 300 miðar hefðu selst í forsölu. Við Jón Kalman sungum og dönsuðum samt fyrir fullu húsi. Svo fórum við í mat til Erics Boury og töluðum um kynlíf í bókmenntum, stöðu jaðartungumála í Frakklandi, fagurfræði játningabóka, ævisöguna, beaujolais-æðið (aldrei hefur verið jafn illa talað um beaujolais), viskí, breytingar og styttingar í þýðingum og skort á fagmennsku í bókmenntarýni. Já og svo rifumst við svolítið um Mávinn í Borgarleikhúsinu.

Í gær komum við aftur til Parísar. Eyddum bróðurparti dagsins í Belleville-hverfinu, sem hefur á sér svipað orð og Rosengård í Malmö, sem Jónas Kristjánsson froðufellti svona um á dögunum:
Í Málmey er heilt hverfi, Rosengård, orðið að múslimalandi, þar sem löggan þorir ekki inn. Glæpir og ofbeldi, einkum nauðganir, hafa magnast í hverfinu. Börnin þar læra ekki sænsku í skólum, heldur arabísku. Víðar í Svíþjóð þorir fólk ekki út á kvöldin. Sænski draumurinn leikur á reiðiskjálfi.
Svona lýsingar – einsog margt af rasismanum sem vellur upp úr Jónasi þessa dagana – eru auðvitað fyrst og fremst hlægilegar öllum sem þekkja til. Orðsporið á í báðum tilfellum uppruna sinn í þvælingi af Fox-sjónvarpsstöðinni, sem ber takmarkaða virðingu fyrir sannleikanum. Belleville er í öllu falli dásamlegt hverfi. Við röltum um og reyndum að ákveða okkur hvort við ættum að fá okkur arabískt eða ísraelskt eða franskt eða kínverskt eða norður-afrískt en enduðum auðvitað á víetnömsku og átum gersamlega yfir okkur af goi cuon tom og pho bo. Helvítis útlendingarnir voru að vísu mjög lengi að afgreiða okkur og gáfu okkur sæti við gluggann þar sem var kalt. Ég er viss um að þeir eru kommúnistar og terroristar og vonandi útrýmir lögreglan þeim sem fyrst.

Síðan fórum við í Belleville-garðinn og horfðum á París af hæðinni – Nadja fullyrðir að þetta sé besta útsýnið í borginni, hún þekkir til og ég treysti henni. Þar var líka fallegt.

Um kvöldið fórum við í bíó. Sáum Some Like it Hot í pínulitlu parísarbíói með öllu tilheyrandi – sýningarstjórinn keðjureykti bakvið gamla skrollandi filmuvél og hér og hvar sátu pör á deitum, stúlkur í fangi stráka, strákar í fangi stúlkna (frekar heteronormatíf mynd, miðað við hvað hún var hómónormatíf fyrir sinn tíma – endar á hálfgerðu loforði um fyrsta hommabrúðkaupið í bandarískri menningarsögu). Svo fórum við í göngutúr, töluðum um peninga, börn, mat, gyðingahatur í gullaldar-hollívúdd, fitufellingar Marilyn Monroe og hvort hún hafi verið gegnumírónísk eða gersamlega einlæg.

Pizza og heim.

2 ummæli:

  1. Takk fyrir síðast, bestu kveðjur.
    Hér er mynd af þér í Ouest-France:
    http://www.ouest-france.fr/normandie/caen-14000/festival-les-boreales-week-end-litteraire-au-chateau-de-caen-3857876

    SvaraEyða
  2. Takk sömuleiðis! Parísarkveðjur.

    SvaraEyða