16. nóv. 2015

Dagur íslenskrar tungu: Heimska í Edinborgarhúsinu

Í kvöld verður dagskrá helguð Degi íslenskrar tungu í Edinborgarhúsinu, þar mun Eiríkur Örn Norðdahl lesa upp úr Heimsku, nýjustu skáldsögu sinni, á Degi íslenskrar tungu. Líkt og í útgáfuhófi Eiríks í síðasta mánuði verður gjörningurinn sendur út á veraldarvefnum, í þetta sinn af Jakanum TV, sem þaulvanir eru hverjum hnúti í slíkum útsendingum, en þeir hafa um árabil sent út frá leikjum KFÍ. sem og tónlistarviðburðum og öðru slíku.



Eirík Örn þarf vart að kynna, hann hefur á undanförnum árum skipað sér sess sem einn helsti rithöfundur vorra tíma hér á landi og hafa verk hans verið gefin út í fjölmörgum löndum. Hann hefur fengið ýmsar viðurkenningar fyrir verk sín og hlaut síðasta skáldsaga hans, Illska, meðal annars Íslensku bókmenntaverðlaunin árið 2012. Heimska er skáldsaga um að sjá allt og sjást alls staðar, um óstjórnlega forvitni mannsins og þörf hans fyrir að vekja athygli, um fánýti bókmennta og lista – og mikilvægi – um líkindi mismunarins, um hégóma, ást og svik. Og síðast en ekki síst um framtíðina.



Slóðin fyrir netútsendinguna er jakinn.tv/live


BB.is - Frétt - Annska

Engin ummæli:

Skrifa ummæli