10. júl. 2015

Ungu ljóðskáldin og norðurlöndin

Nýlega kom út á sænsku safnrit með ljóðum ungra danskra skálda, sem hafa vakið athygli, og upp úr því spratt umræða um stöðu ungra ljóðskálda í Svíþjóð – þar sem stóru forlögin eru skömmuð fyrir að sinna ekki yngri ljóðskáldum. Þetta kallast auðvitað að einhverju leyti á við stöðuna á Íslandi, sem verið var að ræða á dögunum, um launasjóðinn og unga fólkið sem þar er meira og meira jaðarsett.

Og það fer ekkert á milli mála að danska senan er mjög sterk. En það virðist mér sænska senan vera líka – í öllu falli hafa sprottið upp úr þessum debatt spurningar sem skipta máli, um jaðar og miðju, kyn og kynþátt, um „kúltúrbörn“ (fólk sem á foreldra í listageiranum) vs. óinnvígða, avant-garde útgáfu vs. bransabókaútgáfu, frelsi og helsi, Svíþjóð vs. Danmörk.

Eitt sló mig sérstaklega. Þegar verið er að tala um ung ljóðskáld er aðallega verið að tala um „nittitalister“. Það er að segja ljóðskáld fædd á tíunda áratugi síðustu aldar. Sem væru þá í mesta lagi 25 ára. Ég hangi ekki jafn mikið í Reykjavík og ég gerði einu sinni – en ég man ekki eftir einu einasta útgefnu ljóðskáldi á Íslandi sem á afmælisdag eftir 1. janúar 1990.

(Nú fór ég og sló þessu upp. Það eru tveir höfundar hjá Meðgönguljóðum – Krista Alexandersdóttir og Kristófer Páll Viðarsson, bæði fædd 1992 – hverra ljóð ég hef ekki lesið; en ég styrkti þau á Karolinafund um 100 evrópskar og fæ þá þessar bækur í laun ef verkefnið fjármagnast – og fleira, vel að merkja, þetta er góður díll – ég efast um að það sé nokkuð að gerast annars staðar).

En í Danmörku og Svíþjóð er vel að merkja ekki verið að tala um litlu forlögin (rök „kúltúrbarnsins“ Jacks Hildén, sem er sonur Bengts Ohlsson, fæddur 1989 og inni á stóru forlagi, voru að avantgardið væri frjálsara án forlaganna) – það er verið að tala um stóru forlögin. Og það bara slær mig. Hversu oft gefa stóru forlögin („atvinnuforlögin“) á Íslandi út nýjar ljóðabækur eftir unga höfunda? Hefur það gerst frá því Kristín Svava kom út? Tvöþúsundogsjö, það annars hedóníska ár.

Hvað þá reyndar að það komi út þýðingar á ljóðum ungra skálda frá nágrannalöndunum (fyrir utan Yahya auðvitað).

Hér eru annars greinarnar fyrir þá sem lesa sænsku:

Svenska förlag sviker de unga poeterna – Anna Axfors

Det är inte synd um unga svenska poeter – Jack Hildén

Poeter stöpta i samma form – Kristian Lundberg

Nu kan vi göra vad vi vill – Sara Abdollahi og Anna Axfors


Engin ummæli:

Skrifa ummæli