9. maí 2015

Heilaþokan

Það er laugardagur, sól og blíða, ég fór á fætur með börnunum og leyfði Nödju að sofa. Klukkan er núna hálftíu og ég er búinn að skrifa meira í nýju bókina – við eldhúsborðið, gefandi börnunum morgunmat og sinnandi leikjum þeirra og þörfum – en ég gerði síðustu þrjá fullu vinnudaga. Ég veit ekki hvort maður kallar það innblástur, ég upplifi það meira einsog heilaþokunni hafi létt. Hvað veldur veit ég ekki heldur – ekki svaf ég vel og ég er ekkert sérstaklega vel fyrirkallaður að neinu leyti. Greiðslumatið er líklega í höfn, kannski er það bara það. Svo er auðvitað alls óvíst hvort nokkuð er varið í þessar síður (ég er vel að merkja ekki að tala um Heimsku – hún er frágengin, ég er löngu hættur að bæta síðum í hana) – ég kasta núorðið meiri texta en ég skrifa. Það kemur allt í ljós. Afköst eru afstæð.

Það er annars komin gróf útgáfa af kápunni á Heimsku – einn af mínum eftirlætis myndlistarmönnum, Jóhann Ludwig Torfason, tók verkið að sér og hún verður æði.

Ég finn ekkert ljóð sem passar með færslunni í dag. Ljóðabækurnar mínar eru líka næstum allar á Íslandi. Við skulum gefa okkur að hér komi eitthvað mjög djúpt um innblástur og heilaþokur.

Engin ummæli:

Skrifa ummæli